Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Karvel Pálmason :
    Virðulegur forseti. Ég skal nú ekki lengja þessa umræðu mikið úr því sem komið er en vil þó drepa hér á tvö eða þrjú atriði sem fram hafa komið.
    Það er að sjálfsögðu mjög eftirtektarvert að aðeins tveir hv. þm. Sjálfstfl. af þeim sem sitja í þessari deild hafa tekið hér til máls og varið þetta sem þeir segja kröfur Sjálfstfl. sem heildar. (Gripið fram í.) Það er hv. þm. Halldór Blöndal og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir. Ég þakka hv. þm. Salome fyrir það að hún svaraði hreinskilnislega. Það er auðvitað eftirtektarvert að þingmenn flokksins sitji hér undir þessum umræðum verandi að því spurðir, beðnir um að svara, hvort þingflokkurinn sem heild hefur staðið að þessum ályktunum. Og af sex eru það tveir sem sjá sér fært að taka undir þessa ályktun og meira að segja var á einum, hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, að heyra hér í framíkalli áðan að það væri bara hv. þm. Halldór Blöndal sem væri með þessa skoðun.
    Ég ítreka þá beiðni til þeirra hv. þm. Sjálfstfl., sem enn hafa ekki orðið við því, að svara einföldustu spurningum í afstöðunni til þessa máls, hver hún er. Er það krafa þingflokks Sjálfstfl. sem heildar að kosningar fari fram með þessum hætti? Og svo í framhaldi af því: Er einhver munur á því, ef um brot er að ræða, hvort brot tekur tvo daga eða eitthvað fleiri daga --- hv. þm. Halldór Blöndal? Ef Sjálfstfl. gat samþykkt brot á stjórnarskránni í tvo daga, að leggja niður Alþingi í tvo daga, af hverju þá ekki lengur? Hvar eru mörkin? Hversu marga daga gat Sjálfstfl. samþykkt að leggja Alþingi niður umfram tvo? Það liggur fyrir frá ræðu hæstv. sjútvrh. að hann gat fallist á 27. apríl. Þannig að það þýðir ekki fyrir menn að neita því. Samþykkti tveggja daga niðurfellingu á Alþingi en svo kannski ekki meir. ( StG: Íhaldið bað um það.) Já, það liggur fyrir.
    Ég ítreka enn spurningar til hv. þm. Sjálfstfl. sem ekki hafa svarað: Eru þeir þessarar skoðunar sem varaformaður þingflokks Sjálfstfl. hefur hér haldið fram og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir tekið upp?
    Svari menn ekki þá lít ég auðvitað svo á að þeir séu samþykkir nema með einni undantekningu. Ég er þess fullviss að hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson er ekki þessarar skoðunar. Hann er jafnraunsær og hann hefur verið í gegnum árin, að telja það óskynsamlegt að velja kosningadag á þessum árstíma, a.m.k. úti á landsbyggðinni. Menn geta leikið sér að þessu hér í Reykjavík og á Reykjanesi á hvaða tíma árs sem er, en úti á landsbyggðinni er þetta óskynsamlegt.
    Verði það nú svo að hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson komi ekki í ræðustól þá skil ég að hann vilji ekki fara þá leið sem Sjálfstfl. hefur verið að tala um. Hann er sammála okkur hinum um að velja seinni tímann.
    Út af því sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir sagði hér um ,,frítt spil`` er kannski mismunandi hvaða merkingu menn leggja í orðin ,,frítt spil``. Nú hef ég aldrei orðað það svo að ég ætti ,,frítt spil`` hér á Alþingi. Það hefur aldrei verið eftir mér haft. Mér þætti

vænt um ef menn gætu flett upp orðalagi af því tagi úr mínum munni. Hins vegar hef ég sagt og segi það enn að ég er óbundinn af hæstv. ríkisstjórn, tek afstöðu til mála eftir minni sannfæringu samkvæmt stjórnarskránni, eftir undirskrifuðum þingmannseið. Það er ekki frítt spil í mínum huga. Ég hef skilið það svo að frítt spil sé það að menn vilji hvergi koma nálægt einu eða neinu, ekki hafa afstöðu. Það er sá skilningur sem ég hef lagt í ,,frítt spil``. Það er ekki í mínum huga.
    Að síðustu: Ég skil nú ekki hvað hæstv. menntmrh. er orðinn hallur undir Sjálfstfl., að vilja endilega ganga til liðs við hann gagnvart þessari kröfu en ýta hinum, dyggustu flokksmönnum Framsfl., úr stjórnarsamstarfi, til hliðar. Það er af sem áður var. Hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan: ,,Það er óheppilegt að um kosningadag standi deilur.`` Það kann að vera rétt. En eru ekki deilur um þetta, hæstv. ráðherra? Það eru deilur. En var það bara Sjálfstfl. sem menn vildu ekki deila við í þessum efnum? Er þeim sama um alla hina sem hafa aðra skoðun? Þurfti endilega að taka tillit til hv. þm. Halldórs Blöndals af því hann vildi eitthvað annað, sem hann hefur kannski ekkert meint með þegar á reyndi? Nei, trúlega ekki. En það eru bullandi deilur um þessa dagsetningu, hæstv. ráðherra. Og það er enginn vandi fyrir okkur sem erum andvígir því að halda hér uppi umræðum gegn þessari dagsetningu.
    Ég dreg í efa að það frv. sem kæmi fram með þessum hætti ætti mjög greiðan aðgang hér í gegnum þingið. Menn mundu deila um það með þessari dagsetningu. Út frá þeim sjónarmiðum sem ég hef meira að segja talað hér fyrir, hv. þm. Stefán Guðmundsson og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir. Einmitt vegna þess að það er sá árstími sem getur valdið því að fólk geti ekki notað kosningarréttinn, nema með óhemju fjármagni sem þarf að leggja til en kannski á ríkissjóður nóg af því nú. Það er kannski nóg til í ríkissjóði núna til að borga óhemju
kostnað af snjómokstri og flutningum, bæði á þingmönnum og öðru fólki, til þess að geta nýtt þennan sjálfsagða rétt. Ég held, hæstv. sjútvrh. og hæstv. menntmrh., að menn eigi að endurskoða þessa afstöðu sína. Menn eiga ekkert að þjóna hv. þm. Halldóri Blöndal eða fleirum sem innan Sjálfstfl. eru með þessa skoðun með því endilega að taka upp þeirra tillögur í þessum efnum. Og það er af sem áður var að hæstv. menntmrh. er farinn að þjóna með þessum hætti undir íhaldinu, taka beint tillögu frá því af hinni verstu tegund. ( Menntmrh.: Lengi getur vont versnað.) Já, og lengi má manninn reyna, má líka bæta við.