Mannanöfn
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Frsm. menntmn. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 544 um frv. til laga um mannanöfn frá menntmn.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund til viðræðna um það Hallgrím Snorrason hagstofustjóra, Skúla Guðmundsson, skrifstofustjóra Þjóðskrár, Guðrúnu Kvaran orðabókarritstjóra og Árna Böðvarsson, málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins. Þá bárust nefndinni umsagnir um frv. frá Prestafélagi Íslands, Íslenskri málnefnd, heimspekideild Háskóla Íslands, biskupi Íslands, Jafnréttisráði og Hagstofu Íslands.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj. Breytingarnar eru eftirfarandi:
    1. Breytingin við 2. gr. er vegna mistaka í prentun. Fjórði málsl. 2. gr. á að vera sérstök málsgrein.
    2. Breytingin við 3. gr. er til að kveða skýrar á um mannanafnaskrá. Samkv. brtt. eru tekin af öll tvímæli um það að skráin sé viðmiðunarskrá en ekki tæmandi heimild um þau nöfn sem leyfa mætti. Jafnframt er kveðið á um að hún skuli gefin út á þriggja ára fresti í stað fimm ára og gerð aðgengileg almenningi.
    3. Breytingin við 5. gr. er til að taka af öll tvímæli um að skírn og nafngift sé tvennt ólíkt og því geti skírn farið fram þó að ágreiningur um nafn barns hafi verið lagður til úrskurðar mannanafnanefndar. Það kom fram ábending um að óeðlilegt væri að setja lög sem legðu þá skyldu á herðar presta að hafna því að skíra barn vegna ágreinings um nafn.
    4. Breytingin við 6. gr. tryggir að ekki dragist á langinn að mannanafnanefnd kveði upp úrskurð í máli sem henni hefur borist. Er miðað við að ekki líði lengra en tvær vikur frá því að málið barst henni og þar til að úrskurður liggur fyrir.
    5. Breytingin við 8. gr. felur í sér að gefa má barni, sem á erlendan ríkisborgara fyrir annað foreldri, erlent nafn sem annað tveggja eiginnafna. Frv. gerði ráð fyrir að erlenda nafnið yrði hið síðara af tveimur eiginnöfnum. Nefndin telur hins vegar að það eigi að vera á valdi foreldranna að ákveða hvort hið íslenska eða hið erlenda sé fyrra eiginnafnið þar sem það getur verið tilfinningamál.
    6. Breytingar á 12. gr. eru orðalagsbreytingar.
    7. Breytingin við 23. gr. varðar málsmeðferð þegar barni er ekki gefið nafn innan þess tíma sem lögin tiltaka. Frv. gerði ráð fyrir að Þjóðskrá mundi tilkynna um slíkt til dómsmrh. er gæti beitt viðhlítandi þvingunarúrræðum. Niðurstaða nefndarinnar varð hins vegar sú að heppilegra væri að Þjóðskrá vekti fyrst athygli forsjármanns eða forsjármanna barnsins á þessu ákvæði laganna og skoraði á hann eða þá að gefa barninu nafn án tafar og að ekki kæmi því til kasta dómsmrn. að beita þvingunarúrræðum nema áskoruninni væri ekki sinnt. Talið var rétt að úrskurður um þvingunaraðgerðir (dagsektir) væri á hendi dómsmrn. þar sem ráðuneytið fer með yfirstjórn þessa málaflokks. Í ljósi reynslunnar annars staðar á Norðurlöndum er þó líklegt að málið leysist oftast í framhaldi af áminningarbréfi Hagstofunnar og því komi sjaldan til

þess að dómsmrn. þurfi að beita þvingunarúrræðum.
    8. Breytingin við 24. gr. er til að taka af öll tvímæli um að frv. gerir ráð fyrir að það sé dómsmrh. er fari með mál er varða mannanöfn en ekki menntmrh. eins og verið hefur samkvæmt auglýsingu um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969.
    9. Breytingin við ákvæði til bráðabirgða I er til að hraða því að skipuð verði mannanafnanefnd. Gert er ráð fyrir að dómsmrh. leiti strax eftir tilnefningum í nefndina og skipi hana innan mánaðar frá birtingu laganna.
    Með þessum breytingum leggur nefndin einróma til að frv. verði samþykkt, en Halldór Blöndal var fjarverandi afgreiðslu málsins.