Mannanöfn
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er þá eru gildandi lög um mannanöfn á Íslandi orðin gömul og það hefur gengið illa að framfylgja ákvæðum þeirra. Það hefur verið gerð tilraun til þess áður að endurskoða þessi lög, fyrir tæpum 20 árum eða svo. Þá fékkst ekki endanleg niðurstaða á Alþingi heldur var málinu vísað til ríkisstjórnarinnar til meðferðar. Síðan gerist það fyrir nokkrum árum að menntmrh. felur tveimur mönnum að gera tillögur til breytinga á lögum um mannanöfn og árið 1988 féllst ég á þá hugmynd frá tveimur talsmönnum Orðabókar Háskóla Íslands að þeirri vinnu yrði haldið áfram. Niðurstaðan var svo það frv. sem hér var lagt fyrir.
    Ég tel að það sé mjög mikilvægt að lögin um mannanöfn séu skýr og auðframkvæmanleg, það sé ekki verið að setja aðrar reglur en ætla má að menn geti framfylgt með sæmilegum hætti og ekki aðrar regur en þær sem ætla má að þjóðin geti með sæmilegum hætti fellt sig við.
    Ég vil leyfa mér að nota þetta tækifæri, virðulegi forseti, til að þakka hv. menntmn. Ed. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Í fyrsta lagi og ekki síst fyrir þær brtt. sem hún gerir við frv. sem mér sýnist að séu allar til bóta, en í öðru lagi fyrir það að hún skyldi ná samhljóða niðurstöðu. Það held ég að sé mjög mikilvægt. Mannanöfn og mannanafnahefðir eru það mikilvægur þáttur í málþróun á Íslandi, eru undirstöðuþáttur íslenskrar málþróunar í raun og veru, að það skiptir miklu máli að um framkvæmd mannanafnahefðarinnar frá degi til dags sé víðtæk samstaða. Þess vegna held ég að það sé til að undirstrika nauðsyn þess að nefndin hefur náð samstöðu og það hjálpar til við að framkvæma lögin, ef frv. verður að lögum.
    Dómsmrn. hafði gert athugasemdir við frv. á sínum tíma. Það var fjallað um þær í menntmn. eftir því sem ég best fæ séð og mér sýnist að í ákvæðum brtt. hafi verið farið yfir það sem frá dómsmrn. kom um málið. Málaflokkurinn mun nú, samkvæmt ákvæðum frv., flytjast til dómsmrn. frá menntmrn. Ég vænti þess að frv. sé nú orðið þannig að ekki einasta nefndin heldur líka framkvæmdaraðilinn, þ.e. dómsmrn., sé sáttur við málið eins og það liggur fyrir núna. Eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, þá tel ég að það sé mikilsvert og endurtek þakkir mínar til hv. menntmn.