Fangelsi og fangavist
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er mikið neyðarúrræði að þurfa að svipta fólk frelsi sínu og setja það í fangelsi fyrir afbrot sem það hefur framið. Þó hlýtur að vera enn þá meira neyðarúrræði að þurfa að grípa til þeirrar ráðstöfunar að setja fanga í einangrun eða beita öðrum agaviðurlögum. Varðandi efni þessa frv. þá vil ég geta þess strax í upphafi máls míns að ég tek að sjálfsögðu undir tilganginn sem í því felst, þar sem m.a. er verið að tryggja að ekki sé verið að refsa fanga tvisvar fyrir sama verknað. Eins og kom fram í máli hæstv. dómsmrh. er talið að þetta brjóti í bága við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins og í mínum huga er spurning hvort það brjóti ekki einnig í bága við stjórnarskrá lýðveldisins þar sem segir að dómendur fari með dómsvaldið, því að í raun og veru er verið að dæma menn aftur fyrir sama brot með því að dæma þá til einangrunar.
    Ég vil geta þess við 1. umr. að mér finnst þær brtt. sem gerðar voru í hv. Nd. um að hafa tímamörk á kærum sem berast til dómsmrn. til bóta. Ég hefði hins vegar viljað sjá, og það kom einnig fram í umræðunni í Nd., Fangelsismálastofnun ríkisins eiga aðild að málum þegar ákveðið er að beita fanga agaviðurlögum eða setja þá í einangrun. Það kom reyndar fram brtt. um þetta atriði í hv. Nd. en hún var felld. Ég held að það sé nauðsynlegt að við stöndum vel við bakið á þeirri stofnun sem við sjálf með lögum stofnum hér á Alþingi á þessu kjörtímabili, þ.e. lögin þar sem Fangelsismálastofnun er formlega stofnuð. Hún hefur mjög mikilvægu og ákveðnu hlutverki að gegna inni í fangelsunum. Með því að fela þessari stofnun yfirstjórn fangelsismálanna, þá ætti þróun og umbætur allar í fangelsismálum að geta orðið markvissari og það sama gildir um þjónustu við fanga.
    Nú hefur okkur þingmönnum öllum að því er ég held borist ársskýrsla Fangelsismálastofnunar fyrir árið 1989 sem gefin er út í nóvember 1990. Þar kemur fram að stofnunin hefur viðamikil verkefni og þegar við samþykktum lög um hana á þingi hér á sínum tíma, 1988, lá fyrir það mat dómsmrn. að þörf væri á 12 stöðugildum við þessa stofnun. Þau hafa hins vegar aldrei orðið fleiri en átta. Mér er kunnugt um það að þeir sem þarna starfa eru mjög störfum hlaðnir og get nefnt sem dæmi að þeir sérfræðingar sem þarna eru, bæði sálfræðingar, félagsráðgjafar og afbrotafræðingur, ferðast milli fangelsa landsins og veita skjólstæðingum sína ýmiss konar þjónustu, bæði sálfræðilega og einnig varðandi ýmis hagnýt mál sem upp koma þegar fólk er skyndilega svipt frelsi sínu. Ég held að það sé mikið þjóðþrifamál að reynt verði að ná því markmiði sem við settum okkur hér í upphafi, að fá fleiri stöðugildi fyrir þessa stofnun þannig að hún geti staðið við sínar lögboðnu skyldur.
    Þar sem ég er einmitt að minnast á Fangelsismálastofnun, þá langaði mig til þess að spyrja hæstv. dómsmrh. varðandi það mál sem við erum hér að fjalla um hvort það gæti ekki komið til greina að forstöðumaður fangelsis tæki ákvörðun skv. 25. og 26.

gr., eins og hér er talað um, en að ákvörðun hans væri háð samþykki Fangelsismálastofnunar. Það leiðir af hlutverki Fangelsismálastofnunar að þörf er á nánu samstarfi við starfsfólkið í fangelsunum, að ekki sé talað um fangana sjálfa. Ég tel afar óheppilegt að hún skuli ekki eiga neina aðild að svo alvarlegum málum, sem upp koma í fangelsunum, að gripið er til þess óyndisúrræðis að dæma menn til einangrunar.
    Þess vegna hef ég velt fyrir mér hvort möguleiki væri á að breyta þessum ákvæðum í þá átt að ákvörðun forstöðumanna fangelsanna væri háð samþykki Fangelsismálastofnunar. Og síðan væri allt annað óbreytt, bæði um málskotsréttinn til dómsmrn. og þau tímamörk sem gerðar voru tillögur um í hv. Nd.
    Það væri í sjálfu sér hægt að ræða um fangelsismálin vítt og breitt. Þau hafa verið til umfjöllunar nú hin síðari ár og í einu dagblaðanna núna tvær helgar í röð. Ég ætla að geyma mér það til betri tíma þar sem ég hef lagt fram sérstaka till. til þál. á þskj. 553. Sú tillaga er í raun og veru þess efnis að lokið verði starfi þeirrar nefndar sem skipuð var 1982 og skilaði af sér frv. til laga um fangelsi og fangavist, en gerði í raun og veru ekki þá úttekt sem henni var ætlað og mótaði ekki framtíðarstefnu í fangelsismálum sem er nauðsynlegt að gera. Ég ætla að spara mér efnislega umfjöllun um það þangað til síðar, en ég vil inna hæstv. dómsmrh. eftir því hvort hann telji ekki nauðsynlegt að það fólk sem starfar við Fangelsismálastofnun og er í sambandi bæði við starfsfólkið í fangelsunum og yfirleitt að ég held í góðu persónulegu sambandi við fangana sem til þeirra leita og þekkja þeirra vandamál og þeirra hegðun, ef svo má að orði komast. Væri ekki eðlilegt að Fangelsismálastofnun fjallaði líka um slíkar ákvarðanir forstöðumannanna sem hljóta alltaf að vera örþrifaráð?