Atvinnuleysistryggingar
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Guðrún Helgadóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Herra forseti. Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. þm. á því að þessar fjarvistir sem hér eru augljósar eiga sér fullkomlega eðlilegar ástæður. Fulltrúar okkar í Norðurlandaráði eru á fundum erlendis, jafnframt eitthvað af ráðherrum, a.m.k. veit ég um hæstv. forsrh. Það standa yfir fundir í Evrópuráði. Og það er kannski íhugunarefni fyrir þá hv. þm. sem fækka vilja þingmönnum að gæta að því að þessi störf verða menn að stunda, og það á jafnt við um stjórn sem stjórnarandstöðu, þannig að mér finnst mikilvægt að fjölmiðlum sé það ljóst að hér eru menn ekki að vanrækja störf sín heldur eru bundnir við störf annars staðar. Og ég vil nú taka undir þá ósk hæstv. forseta Nd. að menn sýni þá hollustu við þá félaga sína sem eru við störf erlendis að taka hér þátt í atkvæðagreiðslu svo að málum verði þokað áfram þó að menn séu bundnir við störf annars staðar.