Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er eitt af sérkennum íslenskrar þjóðar að við erum mjög tregir oft og tíðum til að hagnýta okkur erlenda þekkingu, hvort heldur það er í hagstjórn eða á öðrum sviðum, heldur viljum við gjarnan finna upp okkar eigið kerfi og nota það.
    Ég tel að það fari ekki á milli mála að það var mikið gæfuleysi hjá íslenskri þjóð þegar við tókum þá ákvörðun að í staðinn fyrir að samþykkja það að verðtrygging íslensku krónunnar yrði miðuð við erlendan gjaldeyri, það yrði heimilað að verðtryggja hana á þann hátt í fjárskuldbindingum, þá ákváðum við að verðtryggja hana með lánskjaravísitölu. Og hverjar voru nú afleiðingarnar?
    1. Það vissi enginn lengur hvað hann skuldaði né hvað hann ætti að borga á hinum ýmsu gjalddögum. Þetta var allt útreikningsdæmi.
    2. Bankakerfið tók sig til og kom upp þeim leikfléttum að það er ekki sama hvort þú ert að greiða af láni í banka eða hvort þú átt þar innstæðu. Það eru ekki sömu leikreglur notaðar við útreikningana. Og í annan stað blasir það við að útreikningar vísitölunnar eru byggðir á mjög flóknum atriðum og í sumum tilfellum er niðurstaðan röng vegna þess að forsendurnar sem eru notaðar standast ekki.
    Hæstv. viðskrh. hefur verið mikill áhugamaður um að lækka vöruverðið í landinu. M.a. vildi hann flytja smjörlíki til landsins og sagði að það yrði mjög ódýrt. Ef Íslendingar hefðu nú almennt farið
að borða þetta smjörlíki, segjum að það hefði náð 90% af markaðnum, þá hefði það í engu lækkað vísitöluna því útreikningarnir á vísitölunni eru bundnir við ákveðna tegund af smjörlíki með allt öðru vörumerki. Segjum nú að það sama gerist með ostlíkið. Þó að pitsa með slíku ostalíki yrði lækkuð í verði, þá mundi það ekki lækka vísitöluna. Gamli Volvóinn var settur inn í vísitöluna fyrir mörgum árum og svo hefur Volvó verið að hækka í verði. Hver getur greint á milli þess í reynd hve mikið af þeim verðhækkunum stafar af því að sá Volvóbíll með sama farþegafjölda er allt annar og betri bíll en gamli Volvóbíllinn var og hve mikið er verðbólga? Hve mikið af verði gamla Volvóbílsins er vegna þess að það er verðbólga og hve mikið er vegna tækniframfara? Þetta er ekkert greint í sundur. Þarna kemur nýr bíll á hverju ári. Hann er ekki svo breyttur frá árinu á undan og þetta er allt skráð bara sem verðbólga.
    Útreikningarnir sem byggja á þennan hátt á vörumerkjum eru e.t.v. það sem Hagstofan telur að sé heppilegasta leiðin til þess að reikna út verðbreytingar, en það er náttúrlega af og frá að þetta standist þegar menn eru að tala um verðtryggingar. Það gengur einfaldlega ekki upp. Ég hygg að það sé hægt að taka aðrar vörutegundir, fleiri en þessa einu sem ég nefndi, þ.e. Volvóbílinn, og benda á að á því tímabili frá því að við fórum að reikna út vísitöluna hafi sú vara verið að batna, meiru hafi verið til kostað með ýmsum aðferðum til þess að auka gæði hennar. Og þá er það spurning: Hve mikið af hækkuninni er

vegna gæða og hve mikið er verðbólga?
    Ég er sannfærður um það að sú niðurstaða sem við höfum fengið út úr þessu kerfi eins og við búum við það í dag er einfaldlega á þann veg að vísitölutryggða krónan íslenska er að styrkleika næst japanska jeninu, ef þessu er raðað upp, sem sérstakur gjaldmiðill meðal annarra gjaldmiðla þjóða heimsins. Og japanska jenið hefur svifið með ævintýralegum hraða upp, miklu hraðar en hægt er að tala um að byggist á einhverri verðtryggingu. Það hefur verið að styrkja sína stöðu meðal gjaldmiðla þjóðanna.
    Nú munu margir segja að ef lánskjaravísitalan sé tekin í burtu þá muni hér verða öngþveiti af því að þá vilji enginn spara. Ég tel að það hljóti að vera eðlilegt að íslenskir sparifjáreigendur hafi sömu möguleika á verðtryggingu og sparifjáreigendur Evrópu. Við erum hluti af því efnahagssvæði og íslenskir þegnar þurfa að eiga sama rétt og þar er, hvorki meiri rétt né minni. Til þess að þeir eigi sama rétt og þar er er miklu eðlilegri verðtrygging að leyfa mönnum að binda fjárskuldbindingar miðað við erlendan gjaldeyri. Það er hægt að hugsa sér að menn bindi þetta við einstaka gjaldmiðla, en það er líka hægt að hugsa sér það, sem kannski er auðveldara, að það verði ákveðin karfa af gjaldmiðlum, hvort sem það yrðu helstu gjaldmiðlar í Evrópu, og þessi karfa verði viðmiðun, þ.e. í staðinn fyrir lánskjaravísitölu verði miðað við þessa gjaldmiðla. Með því að breyta þessu á þennan veg er það einfalt reikningsdæmi fyrir hvern og einn að finna það út hvað hann skuldar. Það er ekki flókið mál og það er auðvelt eins og það var áður en þessar reglur voru uppteknar að reikna það út á hverju menn eiga von þegar kemur að gjalddaga.
    Nú veit ég að auðvitað sveiflast gengi krónunnar til. Í sumum tilfellum mundi þetta þýða að menn byggjust almennt við því að gengi íslensku krónunnar félli og margir vildu þá reyna að hreinsa upp og greiða sínar skuldir. En á hvað mundu slík hópviðbrögð í reynd kalla? Þau mundu kalla á mjög jákvæða þróun fyrir íslenskan efnahag. Þau mundu kalla á það að menn reyndu að spara undir þeim kringumstæðum og menn reyndu að greiða upp skuldir þannig að líkurnar fyrir þörfinni á því að fella íslenskan gjaldmiðil jafnmikið og ella hefði þurft að gera verða miklu minni. Það er þess vegna allt sem mælir með því að mínu viti að við tökum upp þá breytingu að miða fjárskuldbindingar frekar við erlendan gjaldeyri en lánskjaravísitöluna.
    Ég sé að í 2. gr. er gert ráð fyrir því að spariskírteini ríkissjóðs lúti annarri reglu. Mér finnst það ekki rökrétt. Ríkið á ekki að hafa neinn rétt þarna umfram þegnana. Það er beinlínis óeðlilegt að mínu viti að hafa tvenns konar möguleika í gangi í þessum efnum og það hvetur mjög þá hugsun í framtíðinni, ef þetta verði gert, að sparifjáreigendur munu líta á það sem aðför að sér að slíkar tryggingar skuli hafa verið bannaðar á öllu nema spariskírteinum ríkissjóðs. Mér er jafnframt ljóst að hér er miðað við vísitölu vöru og þjónustu og hún hefur vissulega ekki hækkað jafnmikið og t.d. byggingarvísitalan, enda hafa inn í byggingarvísitöluna verið teknar ýmsar sveiflur. M.a. var það gert fyrir nokkrum árum að byggingarvísitalan var hækkuð bara vegna þess að það var samkomulag þeirra aðila sem það sáu um að líta bæri svo á að byggingar á Íslandi væru orðnar mun vandaðri en þær hefðu verið og þess vegna hækkuðu þeir byggingarvísitöluna. En um leið og þeir hækkuðu byggingarvísitöluna á þeim forsendum hækkuðu þeir allar skuldir þeirra sem skulduðu fé á Íslandi og var þó algerlega vonlaust að líta svo á að nokkurt samhengi ætti að vera á milli þess að byggingar væru vandaðri á Íslandi og hins að vegna þeirrar ástæðu bæri að greiða hærra gjald fyrir afnot af fjármagni.
    Ég játa það að ég treysti því á sínum tíma, og það var mín einfeldni, að núverandi ríkisstjórn mundi standa við það ákvæði stjórnarsáttmálans að afnema vísitöluna þegar ákveðnu marki hefði verið náð í hagstjórn á Íslandi. Við erum búnir að ná þessu marki í hagstjórn á Íslandi. En hæstv. viðskrh. virðist ekki líta svo á að honum beri nein skylda til að virða stjórnarsáttmálann. Það er nú einu sinni svo að traust manna á ráðherrum fer mjög eftir því hvort hægt er að líta svo á að þeirra orð standi og að þeir virði þau atriði sem þeir hafa skrifað undir í stjórnarsáttmála. Þess vegna hygg ég að það sé nokkurt vandamál fyrir þann hæstv. ráðherra að gera grein fyrir því og verja það hvers vegna hann fer ekki eftir stjórnarsáttmálanum í þessum efnum. E.t.v. er það skýringin á því að hann er fjarverandi í dag, ég veit það ekki. En það liggur ljóst fyrir að mín afstaða er sú að það beri að samþykkja þetta frv. með þeirri breytingu að efnisatriði 2. gr. falli út.