Störf frambjóðenda hjá ríkisfjölmiðlum
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka það fram að ég er út af fyrir sig sammála þeim almennu viðhorfum sem fram komu í grg. hv. 2. þm. Austurl. með fsp. Hins vegar segi ég það að ég hygg að það sé mjög erfitt að ná samkomulagi um almennar reglur í þessu efni á milli þeirra sem hafa rétt til þess að starfrækja útvarp hér á landi. Ég hygg að í grannlöndum okkar sé ekki um það að ræða að menn hafi náð samkomulagi um að setja samræmdar reglur að þessu leyti.
    Þegar fsp. hafði borist í menntmrn. þá sendi ráðuneytið bréf til Ríkisútvarpsins dags. 2. jan. 1991. Svar barst ráðuneytinu með bréfi nokkru síðar og þar segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Því er til að svara að útvarpsráð hefur nokkrum sinnum á undanförnum áratugum samþykkt sérstakar reglur um þetta efni skömmu fyrir almennar kosningar. Reglurnar hafa tekið breytingum í tímans rás, m.a. með tilliti til prófkjörs eða forvals flokkanna, þar sem framboð hafa verið ákveðin talsvert löngu áður en framboðsfrestur hefur runnið út. Þessi aðdragandi kosninga hefur verið að lengjast og því kallað á viðbrögð innan Ríkisútvarpsins, ekki síst vegna hugsanlegrar þátttöku fastra starfsmanna stofnunarinnar í stjórnmálastarfi. Á fundi útvarpsráðs 13. febr. 1987 voru samþykktar nýjar reglur vegna alþingiskosninga sem þá fóru í hönd. Að gefnu tilefni hefur nýlega verið ítrekað fyrir deildarstjórum í stofnuninni að þessar reglur frá 1987 gildi óbreyttar þar til annað hafi verið ákveðið.``
    Ég hygg að þessi tilkynning til deildarstjóra stofnunarinnar frá útvarpsstjóra hafi orðið til þess að breyting varð á stjórn eins þáttar í Ríkisútvarpinu eins og ég geri ráð fyrir að hv. þm. þekki.
    Á 2900. fundi útvarpsráðs 13. febr. 1987 voru samþykktar þær reglur sem í gildi eru í þessum efnum. Þær hljóða svo, með leyfi forseta:
    ,,Frambjóðendur í aðalsætum í almennum kosningum skulu ekki koma fram í dagskrá frá því að framboð er ákveðið og þar til kosning hefur farið fram. Með sama hætti skulu starfsmenn Ríkisútvarpsins sem eru í framboði leystir frá dagskrárstörfum og verði þeim falin önnur verkefni hjá stofnuninni tímabundið. Ofangreindar reglur eiga að sjálfsögðu ekki við þegar um er að ræða sérstakar dagskrár eða fréttapistla sem dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins hefur samþykkt í tilefni af kosningaundirbúningi eða í öðrum tilvikum þegar beinlínis er gert ráð fyrir þátttöku frambjóðenda og fyllstu óhlutdrægni er gætt eins og meginreglur Ríkisútvarpsins mæla fyrir um.
    Fréttastofu ber að varast að leiða frambjóðendur fram í fréttum eða fréttatengdum þáttum eftir að framboð hafa verið tilkynnt og þar til kosningar eru um garð gengnar, nema unnt sé að leiða sterk rök að nauðsyn þess að viðkomandi komi fram í fréttum eða í hann sé vitnað sérstaklega vegna fréttnæmra atvika.
    Reglur þessar taka ekki alfarið til þátta sem byggjast á sameiginlegu framlagi margra flytjenda, svo sem í leikritum eða tónlistarþáttum. Deildarstjórar skulu

vísa vafaatriðum til útvarpsstjóra. Útvarpsstjóri metur hvort þeim skuli vísað til úrskurðar útvarpsráðs.``
    Þetta eru reglur Ríkisútvarpsins og eins og menn sjá er með öðrum orðum heimilt að flytja leikrit þar sem frambjóðendur væru í hlutverkum í aðdraganda kosninga. Sömuleiðis ef frambjóðendur eru í kór, þá er heimilt að láta kórinn syngja. Ef frambjóðendur eru í hljómsveit þá er heimilt að láta hljómsveitina spila en þegar um fréttatengt efni er að ræða þá gegnir öðru máli.
    Ég hygg þó, virðulegi forseti, að þessir þættir sem hér eru ræddir og oft hafa verið ræddir á Alþingi séu kannski ekki aðalvandamálið á þessu sviði í seinni tíð. Aðalvandamálið held ég sé það að flokkarnir hafa á undanförnum árum, m.a. eftir að útvarpslögunum var breytt, í nokkuð auknum mæli og sérstaklega í kosningunum 1987 notað þessa fjölmiðla til þess að birta auglýsingar af margvíslegu tagi. Og ég hygg að í rauninni sé það mikilvægast fyrir flokkana að íhuga hvernig unnt er að koma við reglum sem koma í veg fyrir að um stórkostlegt auglýsingaflóð verði að ræða frá flokkunum í aðdraganda kosninga.
    Í borgarstjórnarkosningunum 1990 náðu frambjóðendur allra flokka hér í Reykjavík samkomulagi um að ekki yrði um slíka auglýsingastarfsemi að ræða og það samkomulag hélt að fullu. Það er mín skoðun að forustumenn flokkanna ættu nú á sama hátt að beita sér fyrir því að á landsvísu tækist heildarsamkomulag af þessu tagi. Menn sjá það auðvitað í hendi sér, virðulegi forseti, að þó að settar yrðu reglur um fréttaflutning sem næðu kannski til allra miðlanna, ef á sama tíma birtist svo rétt á eftir fréttaþáttunum flóð af auglýsingum frá sömu aðilum, þá væru reglurnar um fréttaflutninginn sem slíkar í raun og veru lítils virði.
    Ég vil koma þessu hér á framfæri, virðulegi forseti, til að undirstrika um leið og ég reyni að svara fsp. að hér er um að ræða nýjan veruleika í þessum fjölmiðlaheimi sem stjórnmálaflokkarnir þurfa að fjalla um núna á komandi vikum.