Störf frambjóðenda hjá ríkisfjölmiðlum
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég er út af fyrir sig sammála mörgu af því sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Austurl. en málið er vandasamt og flókið. Hvar á að draga mörkin? Hvað eru fréttatengdir þættir t.d.? Eru veðurfréttir fréttatengdir þættir? Einn af frambjóðendum Alþfl. í téðu prófkjöri er jafnframt einn af vinsælustu veðurfræðingum fréttastofunnar að mér sýnist. Hvar á að draga mörkin í þessu efni? Það er býsna vandasamt og ég held satt að segja að reglur sem útvarpsstöðvarnar kynnu að setja væru býsna haldlitlar ef framboðsaðilarnir sjálfir koma sér ekki saman um að fylgja einhverjum reglum líka. Og ég vil leggja á það áherslu að þegar um svona mál hefur verið að ræða þá hefur það í rauninni verið að undirlagi flokkanna og framboðsaðilanna að settar hafa verið reglur og tekið á málum með alveg ákveðnum hætti, m.a. vegna þess að þeir hafa átt fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins, í útvarpsráði, sem hafa verið kosnir hér á Alþingi samkvæmt gildandi og eldri útvarpslögum eins og kunnugt er. Síðan kemur það inn í þessa mynd að það eru starfandi hér fleiri miðlar sem telja sig í raun og veru ekki þurfa að sæta neinum slíkum reglum og þess vegna er í rauninni útilokað að ná árangri að því er varðar þau sjónarmið sem hv. þm. setti fram, sem ég er alveg sammála. Það er ekki hægt að ná árangri að því er varðar þau sjónarmið öðruvísi en að um það sé mjög víðtækt samkomulag, ekki aðeins handhafa útvarpsleyfanna heldur líka framboðsaðilanna alveg sérstaklega sem hér um ræðir.
     Ég vil svo að lokum segja það, virðulegi forseti, að ég er reiðubúinn til þess að afla mér ítarlegri upplýsinga um það hvernig þessi mál eru í grannlöndum okkar. Í öðru lagi koma sjónarmiðum hv. þm. með formlegum hætti á framfæri við Ríkisútvarpið þannig að þau verði þar til hliðsjónar þegar reglur verða ákveðnar núna. Ég tel það auðvitað mjög alvarlegt mál ef stofnuninni er stýrt þannig að ekki sé farið eftir þeim reglum sem í gildi eiga að vera. Það er auðvitað mjög alvarlegur hlutur og umhugsunarverður fyrir menntmrn.