Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Sú endurbót sem Ríkisútvarpið stefnir að í nánustu framtíð á Austurlandi, og m.a. þjónar sjómönnum, er bygging nýrrar endurvarpsstöðvar við Höfn í Hornafirði, en leigusamningur vegna lóðar undir núverandi stöð er löngu runninn út. Af einhverjum ástæðum hefur gengið erfiðlega að finna hentugan stað fyrir sendistöð en viðræður standa nú yfir við svokallaða varnarmálanefnd utanrrn. um lóð innan svonefnds varnarsvæðis á Stokksnesi. Í sendistöð á Höfn eru FM-sendar fyrir Rás 1 og Rás 2 og miðbylgjusendir fyrir Rás 1. Að því er stefnt að sami búnaður verði í nýju stöðinni.
    Langbylgjustöð Ríkisútvarpsins á Eiðum, sem hv. þm. nefndi og sendir út Rás 1, er skv. upplýsingum Póst- og símamálastofnunar, sem rekur langbylgjustöðina, rekin núna á síðustu lömpunum sem fáanlegir verða fyrir þennan sendi. Stöðin er orðin svo gömul og fornfáleg að það eru ekki lengur framleiddir í fjöldaframleiðslu lampar í þessa stöð. Ef aðstæður í rekstri hennar verða með allra heppilegasta móti þá er von til þess að hún endist í fjögur ár í viðbót.
    Af fjárhagsástæðum, sem fyrst og fremst má rekja til þess að mörg undanfarin ár hefur Alþingi, þ.e. við sem hér erum, svipt Ríkisútvarpið tekjustofni til þess að standa undir endurnýjun á þessum búnaði hefur ekki verið unnt að gera endanlegar áætlanir um endurnýjun þessa sendis. Það er að mati Ríkisútvarpsins hins vegar langmikilvægasta verkefnið á þessu sviði að vinna að endurnýjun langbylgjustöðvarinnar á Vatnsenda, enda eru loftnetsmöstrin þar þegar að falli komin fyrir alllöngu. Kostnaður við að endurnýja langbylgjustöðina á Vatnsenda er núna í kringum 700 millj. kr. Ég geri ráð fyrir að sú endurnýjun á dreifikerfi útvarpsins sem þarf að fara fram, bæði viðhald og ég tala nú ekki um nýjungar, kosti fráleitt undir 1000 millj. kr.
    Ég hef nýlega rætt við útvarpsstjóra, Markús Örn Antonsson, og framkvæmdastjóra tæknisviðs, Eyjólf Valdimarsson, um þau mál sem hér um ræðir og um að það verði gerð sérstök áætlun um uppbyggingu, endurnýjun og viðhald á dreifikerfi Ríkisútvarpsins með hliðsjón af því að við gerum ráð fyrir að á einhverju árabili, þremur, fjórum, fimm árum eða svo, verði farið í heildarendurbætur á þessu kerfi. Auðvitað fyrst og fremst af öryggisástæðum vegna þess að það ástand sem uppi er í þessum efnum með langbylgjustöðina á Vatnsenda svona lélega er í raun og veru gjörsamlega óverjandi og gjörsamlega óþolandi að horfa upp á ganga fyrir sig eins og það hefur verið.
    Ég bendi á í þessu sambandi að við höfum nýlega fjallað um það í ríkisstjórninni að af Ríkisútvarpinu verði létt útgjöldum sem það hefur borið vegna niðurfellingar afnotagjalds útvarps til handa öldruðum og öryrkjum sem njóta eingöngu tekjutryggingar. Hér er um að ræða upphæð sem á ári hverju nemur 120 millj. kr. og ætti auðvitað með réttu að greiðast af Tryggingastofnun ríkisins frekar en af Ríkisútvarpinu

eins og hefur verið frá því að sett var reglugerð um það efni árið 1986, í rétt einu ríkisfjármálakastinu sem menn fengu þá eins og menn fá venjulega, eins og kunnugt er, tvisvar til fjórum sinnum á ári.
    Þessi mál eru því til meðferðar með þeim hætti sem ég hef hér rakið, virðulegi forseti, og ég vænti þess að þegar lóðamál þau, sem drepið var á í fyrri hluta svarsins, eru leyst verði hægt að hefjast handa við undirbúning að þeim framkvæmdum sem óhjákvæmilegar eru á Austurlandi.