Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Við heyrðum hér svar hæstv. ráðherra. Hann upplýsir okkur um það að uppbygging langbylgjukerfisins í landinu kosti um 1 milljarð kr. ef ég hef tekið rétt eftir, a.m.k. ef ætti að koma þeim málum í það horf sem þyrfti. Alþingi hefur árum saman staðið þannig að fjármálum Ríkisútvarpsins að það er til mikils vansa. Og því miður virðist mér sem núv. ríkisstjórn hafi ekki bætt þar um með þeim hætti sem ástæða væri til og var til. Ég var í hópi þeirra sem gagnrýndu harðlega fyrrv. ríkisstjórn fyrir að svipta Ríkisútvarpið lögboðnum tekjustofnum með einu ,,þrátt fyrir`` ákvæðinu í sambandi við tekjustofna þess. Það er þessi vandi sem er að hlaða upp á sig frá ári til árs. Og þetta snertir m.a. þann hóp manna sem dregur fisk úr sjó fyrir Ísland á Íslandsmiðum og ekki nýtur sendinga Ríkishljóðvarpsins, hvað þá sjónvarpsins, svo sæmilegt sé. Þetta er, eins og ráðherrann sagði, gjörsamlega óverjandi og óþolandi ástand. En hver á að leysa þetta mál ef ekki stjórnvöld landsins? Stjórnvöld landsins með ríkisstjórnina í forustu og þingið auðvitað sem fjárveitingavald. Því að þetta gengur ekki svona áfram.
    Eina huggunin sem nema mátti úr máli hæstv. ráðherra var að það stæði til að byggja upp langbylgjustöð við eða á Höfn í Hornafirði. Ég skildi það svo að það væri á svokölluðu ,,varnarsvæði``. Ég hefði nú athugasemdir við það að gera en það er ekki ráðrúm hér til að ræða þau mál. Hvaða trygging er fyrir því að Íslendingar stýri sendingum frá svokölluðum varnarsvæðum? Hvaða trygging er fyrir því? Eigum við að vera útlendu valdi háðir, erlendum hernaðarsamtökum, hvort við fáum að senda út frá íslenskum fjölmiðlum? Ég held að það sé líka nauðsynlegt að átta sig á því. Leysir þessi uppbygging á Höfn í Hornafirði vandann á miðunum út af Austurlandi í heild? Ég þekki það ekki tæknilega. En að það standi á samningum stjórnvalda vegna einhverrar flækju við varnarmáladeild að hefjast handa er auðvitað saga út af fyrir sig.
    Ég vil aðeins hvetja hæstv. ráðherra og ég vil að það sé hvatning til allra hæstv. ráðherra, líka hæstv. sjútvrh. sem sat hér við hlið hans áðan í þingsal og er kunnugur á Höfn í Hornafirði, að reyna að leysa þessi mál hið allra fyrsta og fá fjmrh. líka í lið með sér til að bæta þar úr. Þannig að sjómenn á Íslandsmiðum og farmenn við landið njóti íslensku ríkisfjölmiðlanna.