Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegur forseti. Því er nú fyrst til að svara að það stendur ekki til að láta herinn reka þessa stassjón þarna fyrir austan. Það er meiningin að nota landið sem hefur verið notað undir svokallað varnarsvæði í þessu skyni. Það stendur ekki til og ég skil ekki hvernig menn fara að því að lesa það út úr mínum orðum að það sé meiningin af hálfu menntmrn. að láta herinn reka þessa stöð. Það kemur auðvitað ekki til greina. Auðvitað lýtur hún algerlega íslensku forræði eins og segir sig sjálft. Það vil ég segja í fyrsta lagi.
    Í öðru lagi má kannski segja að kjarni þessa máls hafi komið fram í því sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði hér áðan. Hann er sá að um allt land er við veruleg vandamál að eiga í þessu efni. Og þau voru ekki fundin upp af mér. Það er ekki stefna núv. ríkisstjórnar að koma í veg fyrir að menn heyri í Ríkisútvarpinu. Þó þar sé nú ýmislegt misjafnt þá er það ekki okkar stefna. Ég bendi á að síðar á þessum fundi er á dagskrá fsp. um hlustunarskilyrði Ríkisútvarpsins í Hveragerði og í Ölfusi. Ég bendi á að á síðasta þingi var á dagskrá fsp. um hlustunarskilyrði og sérstaklega sjónvarpsmóttökuskilyrði í Vík í Mýrdal. Og á hverju ári er varið tugum og sjálfsagt á annað hundrað milljónum króna í endurbætur á þessu kerfi.
    En það er alveg rétt sem hv. þm. hafa hér sagt: Það er of lítið í þetta lagt. Spurningin í þessu er þá um vilja allra þingmanna til þess að knýja fram fjármuni í þessu efni. Ef tekjustofn sá sem hér hefur verið vitnað til væri látinn ganga í verkið þá munar það litlum tvö hundruð milljónum króna á ári sem ríkissjóður stæði verr en ella. Það er auðvitað mál út af fyrir sig sem þarf að skoða. Ég tel að í raun og veru sé Alþingi, hver svo sem hefur verið í meiri hluta, búið að afskrifa þennan tekjustofn fyrir löngu. Þess vegna sé í raun og veru fyrst og fremst spurningin um það: Eru menn tilbúnir til að kalla fram almenna skattpeninga í þetta verk?
    Ég skýrði frá því hér áðan að við erum að reyna að rýmka fjárhag Ríkisútvarpsins þannig að það munar verulegum upphæðum, upp á u.þ.b. 120 millj. kr. á ári, með sérstöku átaki. Hins vegar gat ég þess ekki áðan að við höfum verið að fjalla um það líka að gerð verði framkvæmdaáætlun til nokkurra ára um uppbyggingu þessa kerfis. Ég gat þess að vísu að ég teldi að til hennar þyrfti um þúsund milljónir króna og ef hún væri framkvæmd á fimm árum þá tvö hundruð milljónir króna á ári. Ég skýrði frá því að um þetta værum við að fjalla.
    Út af orðum hv. þm. Kristínar Einarsdóttur vil ég segja það að þó hún vilji kannski trúa því, hv. þm., að ég sé sú tegund af stjórnmálamönnum sem skýt mér undan ábyrgð á mínum eigin verkum þá er það ekki svo. Ég ber auðvitað ábyrgð í þessu efni, ekki aðeins sem þingmaður heldur einnig sem ráðherra. En ég vísa því algerlega á bug að menn séu að gera mér það upp í ræðum hér að ég sé að skjóta mér undan verkum mínum og ábyrgð á verkum mínum á Alþingi

eða í ríkisstjórn Íslendinga. Ég tel að ég hafi ekkert tilefni gefið til þess, hvorki í þessu máli né í öðrum málum. Og satt að segja tek ég það illa upp þegar mér er borið það á brýn.