Málefni fatlaðra
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem hún gaf hér en það er ljóst að málið er í nokkurri óvissu eins og stendur og tengist óhjákvæmilega frumvarpi til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga eins og fram kom í máli hennar.
    Ég er sammála þeirri hugsun að auðvitað eiga sérlög um málefni fatlaðra að vera óþörf. Það hefur hins vegar sýnt sig að til þess að ná áföngum hefur þurft að hnykkja á réttindamálum fatlaðra með sérstökum lögum eins og reyndar reynt hefur verið að gera með sérstökum jafnréttislögum til þess að jafna stöðu kvenna og karla. En báðir þessir lagabálkar hafa sýnt að þeir tryggja ekki endilega að þeim markmiðum verði náð sem sett eru en geta orðið til þess að þoka málum áfram. Það er ljóst að stutt er eftir af þessu þingi og mikilvægt hefði verið að frumvarp hefði getað legið frammi sem allra fyrst. Ég vil einnig láta það koma fram að ég tel mjög mikilvægt að samstaða skuli vera í þessari nefnd og ég vona að það geti líka orðið samstaða þegar þar að kemur að frumvarpið verði lagt fyrir þingið. En það hefði auðvitað verið heppilegra um svo brýnt mál sem þetta að fulltrúar allra flokka ættu þess kost að fylgjast með vinnunni alveg frá upphafi og fylgja því svo eftir hér inni í þinginu.