Málefni stundakennara
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Það hafa birst í fréttum nú undanfarið frásagnir af deilum milli stundakennara og stjórnvalda, menntmrn. og fjmrn. Þar er um að ræða stundakennara við Háskóla Íslands, við Kennaraháskólann, Tækniskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri og e.t.v. einhverja fleiri. Þetta hefur haft í för með sér mikla röskun á kennslu og hafa m.a. borist fréttir um það að meinatæknadeild Tækniskóla Íslands, eða hluti hennar, sé alveg óstarfhæf og í Háskólanum sé í mörgum deildum um mjög skerta kennslu að ræða. Ég hef fregnir af því að t.d. á þriðja ári í líffræði sé um það bil helmingur kúrsa ekki kenndur og á sumum sviðum alls enginn, eins og t.d. í grasafræði. Þannig að nemendur sem hafa hugsað sér að fara t.d. í framhaldsnám í grasafræði geta ekki fengið neina kennslu í þeirri grein líffræðinnar á þriðja ári, sem er auðvitað mjög bagalegt.
    Grunnforsendan fyrir því að ég legg fram þessa fyrirspurn eru áhyggjur mínar af því hvernig þetta muni koma niður á nemendum og kennslu í þessum skólum og ekki síst Háskólanum. Það sem deilunum hefur fyrst og fremst valdið er að stundakennarar virðast ekki hafa samningsrétt í þessu máli heldur hefur verið tekin einhliða ákvörðun um þeirra kjör. Ég tel það vera mjög miður ef ekki er viðurkenndur samningsréttur aðila eins og hér um ræðir.
    Ég hef þess vegna lagt fyrirspurn fyrir hæstv. menntmrh. á þskj. 520, þar sem ég m.a. spyr að því hvers vegna stundakennarar hafi ekki samningsrétt. Einnig spyr ég:
    ,,Hvaða rök eru fyrir því að stundakennarar njóti ekki kjara samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga, sbr. lög nr. 55/1980, heldur samkvæmt einhliða ákvörðun ráðherra?`` En í lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, segir í 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því, er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.`` Þess vegna spyr ég í þriðja lagi:
    ,,Hvers vegna njóta stundakennarar ekki hliðstæðra kjara fyrir stundakennslu og sérfræðingar við Háskóla Íslands?`` En í því stéttarfélagi er samið fyrir stundakennara.