Málefni stundakennara
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Reykv. hefur borið upp nokkrar fyrirspurnir um málefni stundakennara og mér er ljúft og skylt að svara þeim, en tek þó fram að orðalag fyrirspurnarinnar finnst mér vera á köflum á nokkrum misskilningi byggt eins og ég mun koma að hér nánar í svari mínu.
    Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hvers vegna hafa stundakennarar ekki samningsrétt?`` Að því er þá spurningu varðar höfum við byggt afstöðu okkar á 1. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Lög þessi gilda um alla starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélögum sem skv. 4. og 5. gr. laganna hafa rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim og eru ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra, með föstum tíma - , viku - eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf.``
    Hluti stundakennara við Háskóla Íslands hefur stundakennslu sem aðalstarf og þeir eru kallaðir fastráðnir stundakennarar. Þessir stundakennarar eru í Félagi háskólakennara sem fer með samningsumboð fyrir þá, sbr. viðauka 2 í kjarasamningi Félags háskólakennara og fjmrn. sem nýlega var gerður og í raun og veru var þetta ákvæði endurnýjað. Aðrir stundakennarar taka hins vegar að sér stundakennslu í tímavinnu og falla ekki undir ákvæði laganna um aðalstarf.
    Í öðru lagi er spurt um rök fyrir því að stundakennarar njóti ekki kjara samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga, sbr. lög nr. 55/1980, heldur samkvæmt einhliða ákvörðun ráðherra. Það síðastnefnda í fyrirspurninni er rangt. Um einhliða ákvörðun ráðherra er ekki að ræða.
    Eins og þegar hefur komið fram njóta svokallaðir fastráðnir stundakennarar kjara samkvæmt samningum Félags háskólakennara. Aðrir stundakennarar taka einnig laun samkvæmt þeim samningi, þ.e. grein 1.3 um röðun í launaflokka og grein 1.4 um tímakaup í dagvinnu. Þetta gerist með nákvæmlega sama hætti og hjá öðrum launamönnum sem ráða sig í tímavinnu hjá ríkisstofnunum. Að þessu leytinu til eru uppfyllt ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980, sem ég geri ráð fyrir að hv. fyrirspyrjandi hafi í huga með tilvísun sinni í lögin, enda kom það reyndar fram í greinargerð hennar hér áðan. En til glöggvunar vil ég endurtaka upphaf þessarar greinar en þar segir:
    ,,Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því, er samningurinn tekur til.``
    Þessi ákvæði laganna eru sem sagt uppfyllt og fullyrðing um það í öðrum lið fyrirspurnarinnar að svo sé ekki er því miður ekki rétt.
    Ég tel að það sé mjög villandi í þessu sambandi, virðulegi forseti, að tala um einhliða ákvörðun ráðherra þegar rætt er um kjör stundakennara. Með fyrirspurninni er það gefið í skyn að ráðherrann ákveði kaupið í einstökum atriðum tíma fyrir tíma án hliðsjónar af einu eða neinu. En þær reglur sem við byggjum í raun og veru ákvörðun okkar á og taka til stundakennara á tímakaupi eru auðvitað byggðar á kjarasamningi Félags háskólakennara. Auk þess er að vísu gert heldur betur í reglunum en í kjarasamningi Félags háskólakennara vegna þess að það er tekið tillit til sérstöðu starfsins og ýmissa krafna sem gerðar eru til stundakennara. Þess vegna eru þetta að sjálfsögðu ekki einhliða ákvarðanir ráðherra sem byggjast á hugdettum hans sjálfs. Þessi ákvæði hafa þróast í um 20 ár í samvinnu menntmrn., fjmrn. og Háskóla Íslands eftir viðræður við samtök stundakennara á hverjum tíma. Sá hluti stundakennara sem fær greidd laun samkvæmt tímakaupi tilheyrir ekki einu stéttarfélagi og hefur ekki samningsrétt skv. 1. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem ég vitnaði til hér áðan. Þessar aðstæður leiddu til þess á sínum tíma að ráðuneytið hóf að gefa út þessar reglur til þess að það væri alveg skýrt við hvað ætti að miða þegar menn eru ráðnir í tímavinnu við Háskóla Íslands.
    Í þriðja lagi er spurt hvers vegna stundakennarar njóti ekki hliðstæðra kjara fyrir stundakennslu og sérfræðingar við Háskóla Íslands. Þessi fyrirspurn er einnig á misskilningi byggð. Sérfræðingar við Háskóla Íslands eru ýmist í Félagi háskólakennara eða öðrum stéttarfélögum sem hafa samningsumboð fyrir viðkomandi starf. Samkvæmt ákvæðum í ráðningarsamningi þeirra er unnt að ráðstafa hluta af vinnuskyldu þeirra til kennslu. T.d. segir svo um starfssvið sérfræðinga við Raunvísindastofnun Háskólans í reglugerð nr. 537/1975: ,,Kennsla þeirra við Háskólann skal háð samkomulagi milli deildarráðs og stjórnar stofnunarinnar, og skal þá m.a. ákveðið, hvort kennslan skuli teljast hluti af starfsskyldu viðkomandi sérfræðings.`` Ef kennsla sérfræðinga við háskólastofnanir fer fram eftir að þeir hafa skilað 40 stunda vinnu á viku við önnur störf fá þeir hana auðvitað greidda sem yfirvinnu. Það sama á við um stundakennara. Hafi þeir lokið 40 stunda vinnuviku við Háskólann fá þeir að sjálfsögðu yfirvinnu greidda sem slíka.
    Það er nauðsynlegt að geta þess hér, virðulegi forseti, að 10. júlí sl. kvað Félagsdómur upp þann úrskurð að stofnanir Háskólans væru ekki sjálfstæðar í skilningi laganna heldur væru þær starfsdeildir innan Háskóla Íslands.
Í ljósi þeirrar niðurstöðu ber að líta á alla sérfræðinga, og það gerum við, sem starfsmenn einnar og sömu stofnunar. Vinna þeirra sem fer umfram 40 stundir á viku greiðist því sem yfirvinna, hvort sem um er að ræða kennslu eða önnur sérfræðistörf. Af framansögðu má vera ljóst að þeir sérfræðingar stofnana Háskóla Íslands, sem kenna við deildir Háskólans, geta ekki talist stundakennarar. Samanburður á launagreiðslum þeirra og stundakennara sem ráðnir eru á tímakaupi er því í raun og veru ekki raunhæfur.
    Þeir sem taka að sér stundakennslu í tímavinnu eru alla jafnan í aðalstarfi annars staðar, ýmist sem starfsmenn annarra ríkisstofnana eða njóta í sínu aðalstarfi kjara samkvæmt hinum ýmsu samningum opinberra

starfsmanna eða eru starfandi á almenna markaðnum og eru þá í ýmsum stéttarfélögum eða utan stéttarfélaga. Sem stundakennarar fá þeir greidd laun á tímavinnukaupi þar sem tekið er mið af ákvæðum í kjarasamningum ríkisstarfsmanna fyrir slíka vinnu. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Þannig háttar til iðulega að það eru lagðar fyrir ráðherra spurningar um mjög flókin úrlausnarefni. Svo er um þetta. Satt að segja mætti margt fleira um þetta mál segja en ég hef þegar sagt og ég bið forseta afsökunar á því að hafa reynt á þolinmæði hennar. En hér er um að ræða að mörgu leyti óvenjulegt mál og mjög erfitt. Hér er gefið í skyn að ráðherra eftir sínum geðþótta sé að skammta mönnum tímavinnukaup utan við kjarasamninga. Það er rangt. Við erum einmitt þessa dagana að fjalla sérstaklega um þau vandamál sem upp hafa komið í Tækniskólanum. Það er í raun og veru einn alvarlegasti þáttur þessa máls eins og sakir standa. En ég vænti þess að þau muni leysast farsællega á næstu dögum og vikum.