Málefni stundakennara
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegur forseti. Það er langt frá að ég hafi verið að finna að því að hæstv. forsetar leggi áherslu á að fylgja þingsköpum, heldur var ég aðeins að benda á að málið væri það snúið að það væri dálítið erfitt að svara því á þessum stutta tíma sem ætlaður er og vafalaust einnig erfitt fyrir fyrirspyrjendur að gera grein fyrir sínum málum á tveimur mínútum. Þannig að ég hygg nú út af fyrir sig að þetta sé nú kannski eitt af þeim ákvæðum í þingsköpum sem menn mættu skoða aðeins betur við þá endurskoðun þeirra sem nú fer fram.
    En út af orðum hv. 6. þm. Reykv., þá er ég sammála mörgu af því sem hún sagði. Hér er um að ræða mjög erfitt mál og sú lausn sem verður að grípa til í þessu efni getur orðið dýrari heldur en sú að það náist samningar um kjör þessa fólks í heild. En ég vil benda á tvennt sem er mikilvægt í þessu máli.
    Í fyrsta lagi. Í þeim reglum sem menntmrn. nú gaf út --- sem er ekki í fyrsta sinn sem slíkar reglur hafa verið gefnar út, þær hafa verið gefnar út alveg frá árinu 1974 eða 1975, ef ég man rétt --- er Háskólanum lagt í sjálfsvald að verulegu leyti hvernig hann framkvæmir þessar reglur í samræmi við þá stefnu sem við höfum um vaxandi sjálfstæði ríkisstofnana og þar á meðal og ekki síst Háskóla Íslands. Hér er því um að ræða útfærsluatriði sem við felum Háskóla Íslands að vinna að og þess vegna er það í rauninni þannig að okkar reglur eru þarna miklu opnari en þær hafa áður verið og þess vegna beinlínis ósanngjarnara en fyrr að gefa það í skyn að þær séu einhliða.
    Í öðru lagi. Í þeim reglum sem gefnar hafa verið út og gilda fyrir fyrri hluta ársins 1991 --- ég endurtek, það hefur ekki komið hér fram áður, fyrir fyrri hluta ársins 1991 --- er beinlínis sagt að við útfærslu á þeim reglum skuli enginn lækka í launum. Ef einhver lækkar í launum er það brot á reglunum og þess vegna með öllu óeðlilegt að kenna þessari reglusetningu um það ef svo færi að einhver, við útreikning á tímavinnu, lækkaði í launum.
    Loks þetta. Sá hópur sem hér um ræðir skiptist í fjóra flokka, má segja:
    Í fyrsta lagi: Fastir kennarar við Háskóla Íslands sem taka að sér stundakennslu í yfirvinnu.
    Í öðru lagi: Sérfræðingar hjá háskólastofnunum sem hafa lokið 40 tíma vinnuskyldu þar og taka að sér stundakennslu og fá það borgað sem yfirtíð.
    Í þriðja lagi: Þeir sem hafa stundakennslu að aðalstarfi. Með þeirra kjör er líka farið eins og kjör annarra í Félagi háskólakennara.
    Þeir sem eftir standa þá eru tímavinnumenn sem koma úr ýmsum félögum, héðan og þaðan, þannig að hér er um að ræða sundurleitan hóp en ekki einsleitan og það er mjög erfitt að nálgast þetta verkefni samkvæmt þeim lögum sem nú eru í gildi um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Og við getum í ráðuneytinu ekkert annað en framkvæmt lögin eins og þau eru. Það er enginn annar kostur uppi og þessi lög frá 1986 voru samþykkt samhljóða á Alþingi á sínum tíma með

atkvæðum allra, m.a. þáverandi þingmanna Kvennalistans. Þannig að hér er eingöngu verið að framkvæma lögin nákvæmlega eins og þau eru og ekkert annað. Enda sjá það allir í hendi sér að ef ég og t.d. hv. þm. Ingi Björn Albertsson, ef við réðum okkur hérna niður á eyri í uppskipunarvinnu, sem ég hef komið að og hann kannski einhvern tímann líka, þá myndum við að sjálfsögðu ekki gera kröfu um þingfararkaup í þeirri vinnu, heldur mundum við taka kaup eftir samningum þess félags sem fer með kaup og kjör og samningsrétt á því svæði. Þetta er vandinn. Menn eru að koma þarna í tímavinnu á fjarska mismunandi forsendum úr alls konar stéttarfélögum út og suður. Og ég get alveg fullvissað hv. þm. um að fátt væri mér þóknanlegra en að það tækist að greiða almennilega úr þessari flækju vegna þess að þó ég viti það að sumir hv. þm. hafi ekki mikla trú á því að við viljum framkvæma hlutina með eðlilegum hætti, þá er það nú samt þannig að okkur leiðist frekar að standa í flækjum af þessu tagi. En að því er svona mál varðar, (Forseti hringir.) hvað er það sem markar okkar starfsramma? Það eru landsins lög. Rétt eins og virðulegur forseti er að reyna að framkvæma landsins lög með því að láta ráðherrann hætta og ráðherrann er hættur núna.