Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 529 hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um það hvort fyrirhugað sé að bæta úr lélegum hlustunarskilyrðum útvarps í Hveragerði og Ölfushreppi.
    Útsendingar Ríkisútvarpsins nást illa og sums staðar alls ekki á ákveðnum svæðum í Hveragerði og Ölfushreppi. Sérstaklega á þetta við um útsendingar á Rás 2 á FM-bylgju og gildir þá einu hvort um er að ræða útsendingar frá Selfossi, Vestmannaeyjum eða Skálafelli og þó sent sé út á mismunandi bylgjulengdum. Sérstakan útbúnað þarf við útvarpstækin ef fólk á að geta hlustað og á nokkrum stöðum duga góð loftnet ekki til. Íbúar svæðisins hafa búið við þessi lélegu hlustunarskilyrði lengi og ítrekað sent frá sér athugasemdir og kvartanir og nú nýlega birtist í Bæjarblaðinu, blaði sem gefið er út í Hveragerði, svar sem hafði fengist við einni slíkri kvörtun og beiðni um lagfæringu. Svarið var á þá leið að ef fjárhagur stofnunarinnar, þ.e. Ríkisútvarpsins, leyfði þá yrði kannski hægt að athuga málið. Slíkt svar er varla ásættanlegt því íbúar Hveragerðis og Ölfushrepps telja sig eðlilega eiga sama rétt og þeir sem búa í næsta nágrenni og við allt önnur hlustunarskilyrði.
    Því spyr ég hæstv. menntmrh.: Má vænta þess að bætt verði úr lélegum hlustunarskilyrðum útvarps í Hveragerði og Ölfushreppi?