Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svar hans og fagna því að úrbætur eru væntanlegar. Það er fyllilega eðlileg krafa að þjónusta opinberra aðila sé hin sama hvar sem er á landinu, ekki síst þjónusta stofnunar eins og Ríkisútvarps þar sem greitt er gjald fyrir veitta þjónustu, sama gjald hvar sem notandinn er á landinu. Það er líka mikilvægt atriði til þess að sporna við þeirri þróun sem nú er, að fólk flytur í auknum mæli frá landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið, að opinber þjónusta sé sambærileg hvar sem búið er á landinu. Því fagna ég sérstaklega að vænta má úrbóta á því svæði sem hér um ræðir.