Reglur um fréttaflutning
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að Ríkisútvarpið hefur auðvitað skyldur á þessu sviði umfram aðra fjölmiðla. Á því er ekki nokkur vafi. En Ríkisútvarpið hefur sent mér skýringar af sinni hálfu á þessu máli í bréfi sem er dags. 29. jan. 1991, þ.e. í fyrradag, og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Engar reglur hafa verið settar um fréttaflutning Ríkisútvarpsins af menningar- og listaviðburðum utan höfuðborgarsvæðisins sérstaklega. Í útvarpslögum, nr. 68/1985, svo og í reglugerð um Ríkisútvarpið eru stofnuninni sett helstu markmið í dagskrárstefnu.
Ýmis þau ákvæði eru tíunduð í inngangi að reglum um fréttaflutning Ríkisútvarpsins sem gefnar voru út 1. mars 1989. Þar segir m.a.:
    ,,Ríkisútvarpið skal leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Ríkisútvarpið skal stuðla að almennri menningarþróun. Ríkisútvarpið skal veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi eða almenning varða.``
    Í kaflanum um reglur um fréttaflutning segir svo í 1. gr.: ,,Ríkisútvarpið flytur fréttir og fréttaskýringar um hvað eina sem að dómi fréttastofa þess hefur almennt fréttagildi.`` Og í kaflanum um efnisþætti frétta segir í 16. gr.: ,,Ríkisútvarpið leggur áherslu á að flytja sem fyllstar frásagnir um atvinnuvegi landsins á hverjum tíma, afkomu þeirra, nýjungar, ástand á vinnumarkaði og afkomu þjóðarbúsins í heild, enn fremur um félags - og fræðslumál, heilbrigðis - og menningarmál og aðra helstu þætti þjóðmála.`` Og loks segir svo í 21. gr.: ,,Ríkisútvarpið segir fréttir af hvers konar vísindastörfum, lista - og menningarlífi, útgáfu nýrra bóka, hljóðritana, blaða og tímarita, allt með hliðsjón af hinum lögbundnu meginreglum um hlutverk Ríkisútvarpsins og samkvæmt almennu fréttamati.``
    Það er síðan hlutverk starfsmanna fréttastofanna og fréttaritara, undir yfirumsjón fréttastjóra, svo og svæðisstöðva Ríkisútvarpsins úti á landi að meta hvaða fréttir eigi erindi við hlustendur og áhorfendur um land allt í fréttatímum útvarps og sjónvarps og hvað eigi heima í fréttum svæðisstöðvanna.
    Fréttastofan ræður yfir dagskrárliðnum ,,Dagbókin`` sem fluttur er rétt fyrir hádegi á Rás 1. Þar er m.a. sagt frá menningar - og listaviðburðum af ýmsu tagi. Hin almenna vinnuregla fréttamanna Ríkisútvarpsins, útvarps og sjónvarps, er ekki sú að frásagnir af öllum leiksýningum, af öllum nýútgefnum bókum og öllum tónleikum teljist eiga erindi við alla hlustendur og áhorfendur um land allt í fréttatímum, enda er það ekki framkvæmanlegt. Hér reynir því á almennt fréttamat. Nýtt íslenskt leikrit er t.d. að öllu jöfnu mun líklegra fréttaefni en sviðsetning eldri íslenskra leikrita eða sviðsetning þýddra gamanleikja, svo að dæmi sé tekið. Nýtt íslenskt skáldverk er að öllu jöfnu fréttaefni en þýdd spennusaga sjaldnast.
    Menningarmálum og listaviðburðum eru gerð ítarleg skil í fjórum föstum dagskrárþáttum Rásar 1, þ.e.

í Kviksjá, Hornsófanum, Sinnu og Leslampanum. Í öllum þessum þáttum er leitast við að fjalla sem ítarlegast um það sem hæst ber á sviði menningar og lista, jafnt á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Flestir listviðburðir fara fram á suðvesturhorni landsins en lögð er áhersla á að fjalla um það sem hæst ber í öðrum landshlutum,`` og ég tek fram að hér er ekki um að ræða orðalag mitt, heldur er ég hér að lesa upp úr svari Ríkisútvarpsins.
    ,,Viðtöl við listafólk utan höfuðborgarsvæðisins eru flutt í þessum þáttum. Fjallað er reglulega um sýningar Leikfélags Akureyrar og í vetur hefur oftlega verið skýrt frá myndlistarsýningum og öðrum menningarviðburðum, t.d. á Ísafirði. Útvarpið hefur gert M-hátíðum víða um land góð skil,`` og ég tek fram, virðulegi forseti, að ég er ósammála þessu. ,,Sumartónleikaröð á Norðurlandi var viðfangsefni sl. sumar og á sl. vori var uppfærsla Leikfélags Hornfirðinga á Sálminum um blómið kynnt ítarlega, svo að fáein dæmi séu nefnd.
    Dagskrárstarfsmenn Rásar 1 njóta ábendinga og beins framlags starfsmanna svæðisstöðvanna í þessari umfjöllun. Því miður setur þröngur fjárhagur stofnunarinnar starfsmönnum við menningarmálaþætti allþröngar skorður varðandi efnisöflun úti um land, en þó er slík viðleitni ávallt fyrir hendi og er t.d. nýlokið ferð um Suðurland þar sem leitað var sérstaklega fregna úr menningarlífinu.
    Sú deild innan sjónvarpsins sem annast gerð innlendra menningar - og listaþátta hefur kynnt ýmsa viðburði sem fram fara utan höfuðborgarsvæðisins, m.a. í þættinum ,,Litróf``. Þá hafa verið gerðir þættir um menningarstarf áhugamanna á ýmsum sviðum, t.d. í þáttaröðinni ,,Fólkið í landinu``, svo og um einstaka listamenn sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðis. Hefur efni á landsbyggðinni aukist mjög að hlutfallstölu undanfarin tvö ár samkvæmt upplýsingum dagskrárstjórans. Núna er m.a. í undirbúningi hjá sjónvarpinu þáttur um Leikfélag Húsavíkur, verið er að ljúka við þátt um M-hátíð á Vesturlandi og hafinn er undirbúningur að þáttagerð um M - hátíð á Suðurlandi í vor. Fjöldi annarra sjónvarpsþátta sem falla undir þá skilgreiningu sem í fyrirspurninni felst er á verkefnaáætlun hjá sjónvarpinu.``
    Svo mörg voru þau orð hjá Ríkisútvarpinu. Mín skoðun var sú að í rauninni sé nauðsynlegt að átta sig á því að sú menningarstarfsemi sem fer fram utan hinna hefðbundnu stofnana, hvort sem sú menningarstarfsemi er á Suðurlandi, í Kópavogi, á Vesturlandi eða á Norðurlandi, virðist í raun og veru ekki vera umfjöllunarefni sem skyldi. Hér á ég t.d. við starfsemi leikfélaga hér í landinu sem eru geysimörg og flytja 70 -- 80 verk á ári. Ég á hér við starfsemi kóranna t.d., ég á hér við starfsemi áhugaleikfélaga á Reykjavíkursvæðinu, atvinnuleikhópanna hér á Reykjavíkursvæðinu, sem eru 20 -- 30, og ég get nefnt margt fleira. Þegar við héldum M - hátíð á Vesturlandi í sumar, sem kom við í öllum byggðarlögum á Vesturlandi, voru 30 -- 40 atburðir af ýmsu tagi sem við efndum til í samvinnu við héraðsnefndina fyrir vestan. Það var

ótrúlega lítið sem þetta skilaði sér inn í fjölmiðlana og sérstaklega Ríkisútvarpið því að auðvitað gera menn sérstaklega kröfu til þess. Þetta er slæmt, ekki bara frá almennu sjónarmiði séð, heldur er þetta fyrst og fremst slæmt vegna þess fólks sem er að sinna þessum verkum sem telur að með því að atburðunum séu ekki gerð skil í fjölmiðlum, þá séu menn að vanmeta það framlag sem þarna á sér stað. Og það er auðvitað fagnaðarefni eins og hér kemur fram að Ríkisútvarpið hefur aukið verulega hlut efnis utan af landi á undanförnum tveimur árum en þarna þurfa menn að standa sig mikið betur. Ég hef látið ræða sérstaklega við Ríkisútvarpið út af M - hátíð á Suðurlandi sem verður sett núna 16. mars nk. Vonandi verður staðið betur að málum en var að því er varðar M - hátíðina á Vesturlandi.
    Ég vænti þess að með þessum orðum hafi ég svarað fsp. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og jafnframt skýrt mín sjónarmið í þessu máli.