Reglur um fréttaflutning
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Eins og fram hefur komið í þessum fyrirspurnatíma hafa málefni Ríkisútvarpsins mjög borið á góma og fyrirspurnirnar bera svo sannarlega með sér að Ríkisútvarpið hafi verið og sé enn í langvarandi fjársvelti. Við þekkjum öll, og það hefur komið inn í þessa umræðu í dag, skerðinguna á þeim lögbundnu tekjustofnum sem Ríkisútvarpinu eru ætlaðir til þess að bæta sína þjónustu.
    Ég vil lýsa því hér sem minni skoðun að ég held að það þurfi að stórauka fé til innlendrar dagskrárgerðar. Það kom einmitt fram í lokaorðum bréfs Ríkisútvarpsins sá kjarni málsins að það er fjárhagurinn sem setur Ríkisútvarpinu skorður.
    Ég vil líka minna á tillögur sem fram hafa komið hér, bæði varðandi Suðurland og Vesturland, um að setja þar á laggirnar svæðisútvarp. Þar sem M - hátíð á Vesturlandi bar hér sérstaklega á góma er mér kunnugt um það að þeir sem voru í forsvari fyrir þeirri hátíð voru einmitt mjög undrandi hversu treglega gekk að vekja athygli ríkisfjölmiðlanna á þeim fjölbreytilegu menningarviðburðum sem þar áttu sér stað. Á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi nú í nóvember var sérstaklega ályktað um það mál, að ríkisfjölmiðlarnir hefðu þar ekki staðið sig sem skyldi.
    En ég vil enn og aftur þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu og vona að hlutfall frétta af menningarlífi á landsbyggðinni eigi eftir að aukast mjög hjá Ríkisútvarpinu í framtíðinni.