Reglur um fréttaflutning
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þann mikla áhuga á málefnum Ríkisútvarpsins sem fram hefur komið á þessum fundi. Það er kannski ekki eintóm tilviljun að þessar fyrirspurnir lenda allar á þessum fundi. Það er vegna þess að ég hef dálitla tilhneigingu til þess, allra náðarsamlegast, virðulegi forseti, að reyna að safna saman á einn fund þeim fyrirspurnum sem ég fæ. Engu að síður er ástæða til að þakka þennan mikla áhuga.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir spurði: Hver hefur tekið ákvörðun um það að ekki sé fjallað um starfsemi áhugaleikfélaga? Ég er sannfærður um að það hefur engin slík ákvörðun verið tekin. Ég er sannfærður um að það er á misskilningi byggt að Ríkisútvarpið hafi það sem starfsreglu. Það getur ekki verið og ég er viss um að enginn hafi tekið slíka ákvörðun.
    Varðandi fjárhagsmál Ríkisútvarpsins sem hér hafa aðeins borið á góma í dag vil ég fyrst segja: það er rétt að að því er varðar uppbyggingu dreifikerfis og viðhald þá er um að ræða fjárhagsvanda, það er rétt. Að því er varðar rekstur Ríkisútvarpsins hafa rauntekjur þess hækkað mjög verulega á síðustu árum. Það er rangt að Ríkisútvarpið þurfi að búa við fjársvelti í rekstri sínum frá degi til dags.
    Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins í fyrra og hittiðfyrra stafaði ekki af því að afnotagjöld hefðu ekki verið hækkuð. Það er rangt sem hér hefur komið fram hjá mörgum þingmönnum í dag um það efni. Hann stafar af því að Ríkisútvarpið var þá að borga niður stórkostlegar skuldir vegna kaupleigusamninga sem höfðu verið gerðir á árunum 1987 og 1988 og þáverandi stjórnvöld a.m.k. vildu ekki kannast við að hefðu verið gerðir. Fjárhagsmál Ríkisútvarpsins þurfa menn líka að skoða í því ljósi, þegar hv. þm. segja að það sé lítið efni til innlendrar dagskrárgerðar. Það er rétt, það er lítið. Það er hins vegar á annað hundrað millj. kr. Þegar Ríkisútvarpið er að gera sína fjárhagsáætlun, þá verða menn auðvitað að raða í forgangsröð. Það verða þingmenn líka að átta sig á að verður að gerast. Spurningin hlýtur að vera um það á þessu ári fyrir Ríkisútvarpið hvort eyða eigi peningunum í innlenda dagskrárgerð og aukningu hennar eða í verulegar endurbætur og áframhald á framkvæmdum við húsið þar sem Ríkisútvarpið er núna til húsa. Á að eyða í það 70 -- 80 milljónum eða á að eyða einhverjum hluta af því í það að bæta innlenda dagskrá? Ég segi hiklaust: Innlend dagskrá er algert forgangsverkefni. Að því er varðar þá stöðu sem Ríkisútvarpið er í núna, m.a. með hliðsjón af aukinni samkeppni við erlendar gervihnattastöðvar, þá verður þetta að vera forgangsverkefni hjá Ríkisútvarpinu. En það er ekki hægt, og það er rangt, bæði hjá þingmönnum, útvarpsstjóra og útvarpsráði, að bera því við að fjársvelti til rekstrar hafi hindrað eðlilega starfsemi af þessu tagi. Þar er bara um það að ræða að menn hafa viljað raða hlutunum í aðra forgangsröð. Það er mál stofnunarinnar, það er mál sem ráðherrann hefur ekki með að gera þá og þá.

    Að allra síðustu þetta, virðulegi forseti. Það er ekki þannig að menntmrh. sé að setja reglur um einstök atriði í Ríkisútvarpinu, eins og hversu miklum tíma er varið í einstaka liði. Það er ekki gert. Á mínum tíma sem menntmrh. á þriðja ár hef ég sett mér það að gera það alls ekki. Ég tel að það sé nauðsynlegt að auka verulega við frásögn af menningarefni, auka verulega við frásagnir af landsbyggð, eins og hér hefur komið fram og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur vakið rækilega athygli á. En ég vil hins vegar segja það að ég held að það væri misskilningur að gera það á kostnað knattspyrnuþáttanna í Ríkisútvarpinu.