Sala á veiðiheimildum
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Í 11. og 12. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, er að finna ákvæði um framsal veiðiheimilda. Fyrri greinin fjallar um flutning á aflahlutdeild milli skipa, þ.e. það fasta hlutfall sem hvert fiskiskip hefur af leyfilegum heildarafla þeirrar tegundar sem nauðsynlegt er að takmarka veiðar á. Síðari greinin fjallar um framsal veiðiheimilda innan hvers fiskveiðiárs.
    Í 11. gr. eru þau takmörk sett á framsal aflahlutdeildar að veiðiheimildir þess fiskiskips sem flutt er til verði ekki bersýnilega umfram veiðigetu skipsins. Þetta er nauðsynlegt skilyrði þar sem öllum veiðiheimildum er úthlutað til fiskiskipa og því væri óeðlilegt ef eitthvert fiskiskip fengi veiðiheimildir sem bersýnilega væru umfram þá getu sem skipið hefði möguleika til að veiða sjálft. Forsenda þess að það markmið náist sem flestir geta verið sammála um, að okkur takist að minnka fiskiskipaflotann á allra næstu árum, er að heimilt sé að sameina veiðiheimildir. Með því móti skapast tækifæri til að bæta rekstrargrundvöll þeirra fiskiskipa sem eftir verða í flotanum og draga úr heildarkostnaði við veiðarnar sem skilar sér í bættum lífskjörum fyrir alla landsmenn.
    Þá er jafnframt nauðsynlegt að heimila fiskiskipum t.d. sem flytjast á milli landshluta að aðlaga veiðiheimildir sínar að þeim veiðimöguleikum sem eru á hverjum stað. Það mun gerast með því að fiskiskipin munu skipta á aflahlutdeild sín á milli eftir því sem hagkvæmt þykir á hverjum tíma.
    Ákvæði 1. gr. laganna er hins vegar mjög mikilvægt og ljóst að þeir sem útgerð stunda vita að hér er aðeins um ráðstöfunarrétt á veiðiheimildum að ræða. Reynslan sýnir að tekið er tillit til ákvæða greinarinnar þegar framsal á aflahlutdeild fer fram. Útvegsmenn sem fá framselda til sín aflahlutdeild af öðrum fiskiskipum vita að þeir eru ekki að fjárfesta í varanlegum réttindum. Það verð sem þeir eru tilbúnir að greiða fyrir slíkar heimildir hlýtur því að taka mið af þeim raunveruleika að Alþingi getur hvenær sem er breytt lögunum um stjórn fiskveiða, komist Alþingi að þeirri niðurstöðu að annað fyrirkomulag tryggi betur lífskjör í landinu.
    Að mínu viti gætir mikils misskilnings í þeirri umræðu sem fer fram um framsal veiðiheimilda. Slegið er upp fyrirsögnum um að hér sé um stórkostlega eignatilfærslu að ræða, jafnvel þá mestu sem orðið hefur í landinu. Staðreynd málsins er hins vegar sú að með því að skipta veiðiheimildum upp á milli fiskiskipa er ekki verið að taka verðmæti frá hinum almenna borgara. Fiskiskipin hafa haft veiðiréttinn svo lengi sem þetta land hefur verið byggt, en hinn almenni borgari hefur hins vegar notið afrakstursins af auðlindinni á hverjum tíma. Fyrir almenning er hins vegar mikilvægast að hinum tveimur meginmarkmiðum verði náð, þ.e. að beitt verði öllum ráðum til að lækka heildarkostnaðinn í sjávarútveginum og ekki verði gengið það nærri fiskstofnunum að tekjumöguleikar þjóðarinnar í framtíðinni verði skertir. Menn

geta hins vegar haft mismunandi skoðanir um það hvernig þessum tveimur mikilvægu markmiðum verði náð, en ég er sannfærður um að það verður ekki gert nema síður sé með því að setja frekari skorður á það að þeir sem treysta sér til að ná í afla með minni tilkostnaði geti fengið til sín auknar aflaheimildir og greitt þeim hæfilegt gjald fyrir sem eru tilbúnir til að láta aflaheimildir af hendi.
    Því er einnig við að bæta að Hagræðingarsjóður tók til starfa um síðustu áramót. Hann hefur heimild til þess að kaupa upp fiskiskip og þau kaup munu gagnast heildinni, en um það hafa verið nokkuð skiptar skoðanir hvort ætti að minnka flotann með slíkum sameiginlegum hætti eða hvort það ætti eingöngu að gerast milli eigenda skipanna. Héðan í frá mun það gerast með þeim tvennum hætti.
    Hin leiðin fyrir utan þessa til að fækka fiskiskipum er að hið opinbera standi fyrir stórfelldum uppkaupum á fiskiskipum og fækkað verði í flotanum með þeim hætti. Til þess þarf hins vegar mikla fjármuni og ég hef stórar efasemdir um að almenningur í landinu sé tilbúinn til að skattar verði hækkaðir til að standa undir þeim útgjöldum. Þetta er að vísu sú leið sem mörg ríki hafa farið en árangurinn hefur því miður ekki orðið sá sem að var stefnt.
    Ég vænti þess að þetta svar sé fullnægjandi að því er varðar þau sjónarmið sem koma fram í þeirri fsp. sem hér er beint til mín.