Aflaúthlutun til smábáta
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að koma hér fram með fyrirspurn á þskj. 524 til hæstv. sjútvrh. um úthlutun til smábáta og minni skipa á Norðurlandi. Fyrirspurnin er í tveimur liðum og hljóðar þannig:
 ,,1. Verður tekið tillit til sjávarkuldans á viðmiðunarárunum fyrir Norðurlandi og aflaleysis sem af honum leiddi þegar endanleg aflaúthlutun fer fram fyrir smábáta og minni skip á Norðurlandi?
    2. Verður orðið við kröfu smábátaeigenda á Norðurlandi eystra að þeir fái til baka að minnsta kosti tvo þriðju af aflaskerðingunni sem miðað var við í frumúthlutun?``
    Eins og hefur komið fram í fjölmiðlum var fjölmennur fundur á Akureyri, fundur smábátaeigenda á Eyjafjarðarsvæðinu til Húsavíkur og Grímseyjar, sem þar sóttu. Formaður þeirra nefndar sem úthlutar leyfunum var á þeim fundi en ekki hæstv. ráðherra. Á máli hans mátti heyra að hann taldi að náttúruhamfarir --- það er ekki hægt að segja annað en að það séu náttúruhamfarir þegar það er svo kalt fyrir Norðurlandi, einmitt á þessum árum, og ef ekkert á að taka tilliti til þess. Venjulega hefur verið tekið fullt tillit til þess, eða a.m.k. eitthvert tillit til þess, þegar um náttúruhamfarir er að ræða að koma til móts við þá sem fyrir því verða.