Aflaúthlutun til smábáta
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Í lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, eru ákvæði um úthlutun veiðiheimilda allra íslenskra fiskiskipa eins og áður hefur komið fram. Varðandi veiðar smábáta, þ.e. báta undir 10 brúttólestum, gilda eftirfarandi reglur:
    1. Öllum bátum yfir 6 brúttólestir er úthlutað veiðileyfi með aflamarki.
    2. Bátar undir 6 brúttólestum eiga kost á veiðileyfi með aflahámarki eða veiðileyfi með banndögum.
    3. Þeim bátum, sem fá að velja veiðileyfi með aflamarki, er úthlutað veiðileyfi með aflamarki byggðu á aflareynslu áranna 1985 -- 1987 hafi þeir valið veiðileyfi með aflamarki á árinu 1990. Að öðum kosti fá þeir veiðileyfi með aflamarki byggðu á aflareynslu áranna 1987 -- 1989.
    Ofangreindar reglur um viðmiðunarafla og tíma eru lögbundnar og hefur ráðherra ekki heimild til að víkja frá þeim.
    Varðandi hlutdeild smábáta í afla er mjög erfitt að meta hvort um samdrátt hefur verið að ræða á Norðurlandi á umræddu tímabili. Kemur hér m.a. til að til þess þarf könnun á fjölgun smábáta á ýmsum svæðum. Sé litið til hlutfalls smábáta í heildarafla á Norðurlandi samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskifélags Íslands hefur það verið að mestu óbreytt milli 1987 og 1990. Árið 1987 16,26%, 1988 15,48%, 1989 15,54% og 1990 16,03%. Ekki liggja fyrir tölur fyrir 1987 sundurliðaðar með sama hætti.
    Varðandi sjávarkulda á viðmiðunarárunum má láta fram koma að eftir kuldaárin 1981 og 1982 þá hlýnaði og var hitastig sjávar á árunum 1985, 1986 og 1987 yfir meðallagi fyrir Norðurlandi. Upp úr því kólnaði og árin 1988 og 1989 voru undir meðallagi. Sama gilti í raun um hitastig fyrir Austurlandi.
    Það er að vísu nokkuð óljóst hvaða samband er á milli hitastigs sjávar og fiskgengdar og auðvitað hafa ýmsir aðrir umhverfisþættir þar áhrif á. Það er hins vegar alveg ljóst að hitastig sjávar hefur mikið að segja að því er varðar uppvöxt ungviðis og sem betur fer hefur nú aftur hlýnað og vonandi verður það til þess að styrkja þorskstofninn á nýjan leik. En það er ekki síst af þessum sökum sem þorskstofninn hefur farið minnkandi og það hefur augljóslega haft veruleg áhrif á aflamöguleika víðs vegar um landið.
    Af þessu svari má vera ljóst að jafnvel þótt finna megi rök fyrir leiðréttingum af þessum sökum og ýmsum öðrum af þessu tagi þá gera lagaheimildir ekki ráð fyrir slíku.