Aflaúthlutun til smábáta
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka svarið en það var nú ekki mikið á því að græða. Ég held að hæstv. sjútvrh. viti að það var verulegur aflasamdráttur á þessum viðmiðunarárum þannig að meira að segja sá sem var sendimaður ráðherrans á umræddum fundi viðurkenndi það. Hann viðurkenndi aflaleysið en sagði að það væri of seint að taka tillit til þess. Þannig að ég er eiginlega hissa á þessu svari hæstv. ráðherra. Þó að þetta sé svona í lögum þá er hann nú með heimildir í hér um bil hverri grein laganna um breytingar. Það eru ekki til lög á Íslandi sem gefa ráðherra eða ráðuneyti jafnmargar heimildir eins og í þessum lögum. Ég vona að ráðherrann bendi mér þá á það. Ég hef ekki séð slík lög. Ég held því að þetta sé nú að færast undan að endurskoða þetta, að kanna það.
    Ég held að það sé ýmislegt sem bendi til að fiskurinn bara færist til miðað við sjávarkuldann. Það hafa skipstjórar sagt mér sem hafa mikla reynslu að á köldu árunum hafi hann farið mikið meira suðaustur í haf. Einu sinni á köldu árunum var t.d. mikil fiskigengd við Færeyjar þegar hann hvarf hér. Þannig að þetta er af náttúruhamförum eða getur verið það. Við skulum sjá hvort afli verður meiri í ár, en þá mega bátarnir ekki veiða og bjarga sér.