Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Hingað til hefur það verið sögð ein grundvallarforsenda í samningum við erlendar þjóðir að við Íslendingar héldum yfirráðum yfir auðlindum lands og sjávar. Ég tel þetta mjög mikilvægt og tel mjög mikilvægt að við höldum yfirráðum yfir fiskimiðunum, fallvötnunum, háhitasvæðum, ferskvatnslindum og fleiri auðlindum sem við eigum hér á landi.
    Í yfirlýsingu forsrh. landsins á leiðtogafundi EFTA-ríkjanna í Ósló þann 14. -- 15. mars 1989 lagði forsrh. mikla áherslu á þetta og taldi að við yrðum ætíð að hafa stjórn á náttúruauðlindum landsins. Þetta hef ég skilið að væri sameiginlegt stefnumið allra stjórnmálaflokka hér á landi og ætti að vera grunnurinn í okkar samningagerð við aðrar þjóðir. Lengi framan af var talað um það í samningum við Evrópubandalagið, í þeim samningum sem nú standa yfir, að Ísland mundi halda fast í að yfirráð yfir auðlindum væru í höndum Íslendinga með varanlegum fyrirvörum inn í hugsanlegan samning. Í seinni tíð virðist hafa orðið samkomulag um það milli samningsaðila, þ.e. EB og EFTA, að falla frá nánast öllum varanlegum fyrirvörum að því er varðar þessi atriði og reyndar öll atriði, en setja hugsanlega einhverja varnagla inn í lög hvers ríkis. Það hefur ekki komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig hún ætlar að standa að þessu máli. T.d. hefur ekki komið fram neitt frv. hér á Alþingi þar sem á þessu er tekið. Það virðist heldur ekki vera neinn vilji hér á Alþingi að því er séð verður til þess að náttúruauðlindir landsins verði lýstar þjóðareign. Sama gildir um hálendi landsins og önnur svæði sem ekki eru í einkaeign heldur eru almenningur sem ekki neinn aðili á meira tilkall til en annar. Ekki hefur sést hér á Alþingi hvernig ríkisstjórnin hefur hugsað sér að halda á þessum málum. Þess vegna hef ég borið fram fyrirspurn til hæstv. utanrrh. sem er á þskj. 540 og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Með hvaða hætti er ráðgert að koma í veg fyrir að útlendingar festi kaup á íslensku landi, bújörðum og hlunnindum ef Ísland yrði hluti af evrópsku efnahagssvæði?``