Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um það varðandi samninga um evrópskt efnahagssvæði að þar er ekki verið að ræða um eða semja um afsal yfirráða Íslendinga yfir auðlindum. Þetta er öllum hv. utanríkismálanefndarmönnum fullkunnugt um.
    Að því er varðar forræði Íslendinga yfir auðlindum sjávar innan íslenskrar efnahagslögsögu, þá eru þau alveg ótvíræð, enda er það mál ekki á samningssviði þessara samninga eftir að Evrópubandalagið vísaði á bug kröfum um fríverslun með fiskafurðir og þar af leiðandi samræmdum samkeppnisreglum. Rétturinn til fjárfestinga og eignarréttar til þess að nýta auðlindir sjávar er ekki á borðum í þessari samningagerð.
    Í annan stað að því er varðar orkulindir, aðra meginauðlind okkar, þá er það jafnskýrt að forræði Íslendinga yfir þeirri auðlind er alveg ótvírætt og til þess að styrkja það enn frekar og taka af öll tvímæli um það er flutt lagafrv. af hálfu ríkisstjórnarinnar, m.a. með vísan til frv. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur áður flutt, sem tekur af öll tvímæli í þessum efnum.
    Það sem hér er rætt um er eingöngu spurningin um rétt útlendinga til fjárfestinga í landareignum í ágóðaskyni, ekki til þess að kaupa eða eiga bújörð við eðlilegan rekstur. Svarið er nákvæmlega þetta: Það er auðvelt að ná nákvæmlega sömu niðurstöðu til þess að tryggja íslenskt forræði í þeim efnum, eins og tryggt hefði verið með varanlegum fyrirvara í samningnum, með því að gera tilteknar breytingar á íslenskri löggjöf varðandi jarðakaupalög og ábúðarlög.
    Að því er varðar spurninguna um hver eigi að gera þetta, þá er það svo að öll ráðuneyti íslenska lýðveldisins koma að þessu starfi og þau mál sem heyra beinlínis undir viðkomandi ráðuneyti eru á þess verksviði. Það er því hlutverk landbrh. og landbrn. að beita sér fyrir þeim breytingum á þessari löggjöf. Hugmyndirnar hafa hins vegar verið ræddar rækilega innan ríkisstjórnar í samninganefndum. Aðalsamningamaður hefur reyndar þegar sett fram slíkan texta, en það er, eins og ég segi, hlutverk landbrh. að flytja málið.
    Að því er varðar umræðu í þingflokkum, þá skal það tekið fram að það hefur verið upplýst á ríkisstjórnarfundum að málin hafa verið rædd rækilega í þingflokki Alþfl. og í þingflokkki Framsfl. og því lýst yfir af hálfu forsrh. og af minni hálfu að þessar hugmyndir hafa þar fengið góðar undirtektir. Ef eitthvað skortir á umræður í öðrum stjórnarflokkum, þá er tímabært að þær umræður hefjist.