Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um endurskoðun fiskveiðistefnunnar sem ég flyt ásamt fjórtán þingmönnum úr fimm stjórnmálaflokkum.
    Þegar rætt er um fiskveiðistefnuna kemur kvótakerfið strax til sögunnar. Ég ætla samt ekki að fara að fjölyrða hér um kvótakerfið og tíunda galla þess. Reynslan af því er augljós og blasir við öllum sem vilja sjá. Það verður ekki gengið fram hjá staðreyndum. Það er staðreynd að kvótakerfið hefur sýnt sig í fullkomnu haldleysi við að ná hinum tvíþætta tilgangi fiskveiðistjórnunar, hámarksafrakstri fiskstofnanna og verndun þeirra. Það er staðreynd að réttarvitund Íslendinga þolir ekki þá ráðstöfun á almannaeign sem fiskurinn í sjónum er og fylgir kvótakerfinu. Það er staðreynd að kvótaviðskiptunum fylgja slík fjörráð við einstakar byggðir, sem jafnvel hafa bestu aðstöðu til sjósóknar, að þeim er fyrirmunað að njóta hennar sem skyldi svo sjávarútvegurinn megi skila sem mestum arði í þjóðarbúið. Það er staðreynd að afleiðing þessa blasir við í fólksflótta og skelfilegri byggðaröskun. Þá er mörg staðreyndin ótalin sem ber með sér reynsluna af kvótakerfinu á óyggjandi hátt.
    Þessar staðreyndir eiga sér sínar orsakir. Öll stjórnun atvinnulífsins getur verið annaðhvort einstaklingsbundin eða almenns eðlis. Það skiptir sköpum hver stjórnunaraðferðin er viðhöfð. Með einstaklingsbundnum stjórnunaraðferðum eru hverjum einstaklingi gefin bein fyrirmæli um athafnir sínar, um hvað hann megi gera og mikið aðhafast. En stjórnun almenns eðlis er fólgin í reglum þar sem einstaklingnum er heimilað að athafna sig eins og hann hefur vilja og getu til innan ramma þeirra stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru á hverjum tíma. Hér skilur á milli frelsis og ófrelsis, valddreifingar og miðstýringar. Önnur leiðin er dragbítur á efnahagslegar framfarir, hin stuðlar að hagsæld og velmegun.
    Með kvótakerfinu eru veiðiheimildir bundnar við einstök skip og því takmörk sett hvað hvert skip má veiða mikið. Þannig er kvótakerfið einstaklingsbundin stjórnun fiskveiða með þeim göllum og annmörkum sem slíkri skipan fylgir. Grundvallargalli kvótakerfisins er að aflatakmörk eru sett á hvert einstakt skip. Á þessari skipan byggist sú forsjá hafta og miðstýringar sem kvótakerfið er. Það er haldið þeirri eigind að því skilvirkari sem framkvæmd þess er þeim mun fráleitara er það. Ekki er þess vegna hægt að breyta kerfinu til batnaðar því að reynslan hefur sýnt að þó sníða megi einn vankantinn af koma tveir nýir í staðinn hálfu verri. Meiri miðstýring sem stjórnvöld hafa gripið til við hverja framlengingu kvótalaganna hefur verið að fara úr öskunni í eldinn.
    En á meðan þessu fer fram magnast eldurinn sem fer eyðandi hendi um þjóðarbúið. Annmarkar kvótakerfisins færast meir og meir í aukana. Stöðugt verður augljósara að með kvótakerfinu næst ekki tilgangurinn með fiskveiðistefnunni, hámarksafrakstur fiskveiða og verndun fiskstofnanna. Alltaf verður þungbærara að kvótakerfinu fylgir kostnaður langt umfram

það sem þarf til að bera að landi það aflamagn sem kostur er á. Af þessum ástæðum er ekki einungis sjómannshluturinn æ rýrari og rýrari og útgerðin lakar sett en vera þarf. Þess vegna er framleiðslukostnaður hráefnis til vinnslunnar meiri og meiri en nauðsyn krefur. Af því leiðir að útflutningsframleiðslan kallar á lægra gengi krónunnar en vera þyrfti. Það leiðir hins vegar til hærra og hærra verðs á lífsviðurværi almennings. Þannig dregur kvótakerfið dilk á eftir sér. Það er þjóðin í heild sem verður að axla byrðarnar af kvótakerfinu í stöðugt lakari lífskjörum en vera þyrfti.
    Það stefnir nú í fullkomið öngþveiti og ráðleysi. Það er ekki nema um eitt að gera. Það verður að stöðva vitleysuna áður en lengra er haldið. Það er ekki um annað að ræða en að hverfa frá miðstýringunni, hverfa frá kvótakerfinu. Það verður að taka upp frjálsa samkeppni svo að markaðsöflin fái að njóta sín í aðalatvinnuvegi landsmanna.
    Til þessa er um tvær leiðir að ræða. Annars vegar að taka upp sölu veiðileyfa. Hins vegar að afnema veiðileyfi með aflatakmörkum á hvert skip og taka upp sóknarstýringu. En á þessum leiðum er sá munur sem skiptir sköpum í þróun sjávarútvegs á Íslandi.
    Það er hægt að koma við frjálsri samkeppni svo að markaðsöflin fái að njóta sín með því að selja veiðileyfin. Í samkeppninni um veiðileyfin standa þeir best að vígi sem reka útgerðina með sem mestum arði og hafa þannig sterkasta fjárhagsstöðu. Það er lögmál markaðarins þar sem arðsemin ræður. En með þessu er ekki öll sagan sögð um sölu veiðileyfa. Þeir sem ráða yfir fjármagni sem ekki er runnið frá sjávarútveginum eiga þess líka kost að komast yfir veiðileyfi jafnvel umfram þá sem sjóseltu hafa í æðum og hæfastir eru til sjósóknar og útgerðar. Það er engin trygging fyrir því að slíkir handhafar veiðileyfa reki þá útgerð sem skilar mestum arði í þjóðarbúið. Auk þess sem með sölu veiðileyfa væru opnaðar gáttir fyrir erlent fjármagn til yfirráða yfir mestu auðlind þjóðarinnar. Væri það raunar eitt næg ástæða til að hafna slíkri skipan.
    Til þess að ná hámarksafrakstri af fiskveiðum verður hæfni til sjósóknar og aðstaða til fiskimiða að fá að njóta sín hindrunarlaust. Í stað þess að taka upp sölu veiðileyfa liggur þess vegna beint við að taka upp fiskveiðistjórnun með sóknarstýringu. Í stað þess að fiskveiðistjórnun sé einstaklingsbundin, þar sem veiðitakmarkanir eru bundnar við hvert einstakt skip, ber að taka upp fiskveiðistjórnun almenns eðlis. Fiskveiðistjórnun er þá fólgin í takmörkunum á heildarafla og sóknarstýringu með almennum fyrirmælum um veiðitíma, veiðisvæði, gerð skipa, útbúnað veiðarfæra og meðferð afla. Fiskveiðar eru þá frjálsar innan þeirra marka sem leyfilegt aflamagn á hverja fisktegund heimilar.
    Slík skipan gerir mögulegt það úrval sem þarf að fara fram til að fækka fiskiskipum og minnka þannig sóknargetuna til samræmis við það sem nægir til að fullnýta fiskstofnana. Þetta úrval geta engar stjórnvaldsákvarðanir gert. Það verður einungis gert í frjálsri samkeppni þar sem hæfni og arðsemi fá að ráða.

    Aðferðin er fólgin í sóknarstýringu þar sem beitt er reglum um tímabundin og svæðisbundin veiðibönn, gerð skipa og útbúnað veiðarfæra. Slíkar sóknartakmarkanir eru almennar og réttlátar og mismuna ekki einum fremur en öðrum. Með slíkri aðferð eru lagðar þær kvaðir á útgerðina sem ekki verður undan vikist nema með því móti að dregið sé úr sóknargetunni með fækkun skipa. Grisjun fiskiskipastólsins fer þá að lögmálum samkeppninnar en ekki að duttlungum stjórnvalda. Þeir halda velli sem kunna best til verka, hinir falla fyrir borð. Í frjálsum atvinnurekstri geta þeir einir verið þátttakendur sem standast samkeppnina. Þannig verður best tryggður hagkvæmur rekstur sjávarútvegsins. Þannig heltast úr lestinni þau skip sem eru óhagkvæm og úrelt til reksturs. Það borgar sig hreinlega ekki að gera þau út. Þannig gæti sóknargetunni miðað þegar til lengdar lætur í átt til jafnvægis við fiskstofnana svo að beita þurfi sem minnstum veiðitakmörkunum.
    Til þess að flýta fyrir þessari þróun og að fiskiskipaflotinn verði ekki stærri að sóknargetu en hámarksnýting fiskstofnanna krefur og stuðla að því að svo geti jafnan verið þarf að gera sérstakar ráðstafanir. Þess vegna þarf úreldingarsjóð fiskiskipa til að styrkja útgerðina til að taka af skipaskrá skip sem ekki eru hagkvæm til reksturs. En til frambúðar varðar mestu að ekki verði ótímabær aukning á sóknargetu fiskiskipastólsins. Verða því að vera fyrir hendi reglur um endurnýjun skipastólsins ef á þarf að halda. Koma verður á þeirri skipan að endurnýjun fiskiskipastólsins megi ekki leiða til stækkunar hans meðan sóknargetan er umfram það sem nægir til að tryggja hámarksnýtingu fiskstofnanna.
    Samt sem áður verður ekki hjá því komist að beita áfram tímabundnum veiðibönnum. En það á að vera í stöðugt minnkandi mæli eftir því sem fiskiskipastóllinn minnkar og leitar jafnvægis við veiðiþol fiskstofnanna. Það er mælikvarði á góða fiskveiðistjórn að skipin þurfi ekki að vera bundin við landfestar langtímum saman og fjárfesting í þessum framleiðslutækjum megi verða sem arðbærust. Hins vegar verður að gæta hagsmuna fiskvinnslunnar eftir því sem þörf krefur með því að beita sóknarbanni eftir veiðitímabilum til að stuðla að sem jafnastri hráefnisöflun og stöðugastri vinnslu fyrirtækjanna. Þá er aldrei of mikil áhersla lögð á þann þátt fiskveiðistjórnar sem varðar beinar ráðstafanir til verndar og friðunar hrygningar- og uppeldisstöðva með svæðisbundnum og tímabundnum veiðibönnum.
    Það heyrist ekki ósjaldan sagt að sóknarstýringin sem lögð er til í þessari till. til þál. sé óraunhæf og ónothæf aðferð til fiskveiðistjórnunar. En því fer víðs fjarri. Þessi frjálsa aðferð, sóknarstýring, er til í veruleikanum og ekki óraunhæfari en svo að hún var viðhöfð 1976 -- 1984 við stjórn fiskveiða. Og þessi aðferð reyndist ekki ónothæfari en svo að vandamál fiskveiðistjórnunar voru þá barnaleikur einn borið saman við erfiðleikana sem nú fylgja kvótakerfinu. Ógæfan var sú að hverfa frá sóknarstýringunni 1984 og taka upp kvótakerfið í stað þess að bæta þá aðferð sem

fyrir var.
    Það orkar ekki tvímælis að það mál sem við nú ræðum, fiskveiðistefnan, er það mikilvægasta sem staðið er frammi fyrir hér á landi. Hér er um að ræða aðalatvinnuveg landsins. Hér er um að ræða mál sem skiptir sköpum um efnahagslega þróun um langa framtíð. Hér er um að tefla lífæð efnahagslegs sjálfstæðis og undirstöðu velferðarríkis hér á landi. Það ætti öllum að vera ljóst að aðalatvinnuvegur þjóðarinnar verður ekki til frambúðar reyrður í þær viðjar miðstýringar, ríkisafskipta og hafta sem við köllum kvótakerfi. Það fær ekki samrýmst hinni frjálsu samkeppni og frjálsa hagkerfi sem stöðugt sannar gildi sitt sem aflvaki efnahagslegra framfara og hagsældar meðal þjóða heims. Það er þess vegna kaldhæðnislegt að á sama tíma og hver þjóðin af annarri í Austur - Evrópu kastar frá sér sem ónýtri flík skipulagi ríkisáþjánar í efnahagslífi sínu, rembast menn hér á landi við að halda kvótakerfinu gangandi. Og tólfunum kastar þegar jafnvel sömu menn sem vegsama frelsið sí og æ með hástemmdu lofi finna hvöt hjá sér til þess að standa vörð um andhverfu þess, kvótakerfið.
    Við svo búið má ekki lengur standa, hæstv. forseti. Allir sem sjá ógöngur þær sem kvótakerfið hefur leitt til þurfa að sameinast um að leysa það af hólmi. Til að vinna að því marki þarf að leita nýrra leiða. Það dugar t.d. ekki að líta áfram á fiskveiðistefnuna sem mál einstakra stétta eða hagsmunahópa svo sem gert hefur verið. Hér er um að ræða mál alþjóðar og almannahagsmuni, svo sem frekast má vera. Þess vegna leggjum við flm. þessarar till. til þál. til að Alþingi sjálft kjósi sjö alþingismenn í milliþinganefnd er hafi það hlutverk að endurskoða fiskveiðistefnuna.
    Herra forseti. Ég legg til að þegar þessari umræðu er lokið verði málinu vísað til hv. atvmn.