Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Hér er til meðferðar till. til þál. um að efna til endurskoðunar á fiskveiðistefnunni með ákveðnum hætti. Út af fyrir sig er það umræðuefni hvernig skuli standa að endurskoðun á löggjöf og hver og einn hv. alþm. hefur að sjálfsögðu fullar heimildir og rétt til þess samkvæmt okkar þingræðisreglum, sem betur fer, að leggja fram hvað eina á Alþingi. En það vill nú svo til að í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða var samþykkt og ákveðið að efna til endurskoðunar á þeirri löggjöf sem nú hefur tekið gildi með tilteknum hætti og skal það gert fyrir árslok 1992 og um það skuli haft samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Ég var þessu ákvæði sammála og tel eðlilegt að það sé unnið að þessu máli með þeim hætti. Ég er hins vegar ósammála því að á sama tíma og þetta ákvæði er í lögum sé ákveðið að efna til slíkrar endurskoðunar með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.
    Ég ætla ekki að fara að elta ólar við allt sem stendur í greinargerð þessarar þáltill. En hún er með slíkum eindæmum að ég trúi því vart að allir hv. flm. taki undir það sem þar stendur. Ég ætla aðeins að grípa hér niður í það sem kallaðar eru staðreyndir. Þar stendur: ,,Öll stjórnun atvinnulífsins getur verið annaðhvort einstaklingsbundin eða almenns eðlis.`` Síðan segir að sú stjórnun sem nú er sé einstaklingsbundin. Hún er kennd við miðstýringu. Hún er kennd við Austur - Evrópu --- og annað því um líkt og sagt að hún stuðli alls ekki að hagsæld og velmegun með efnahagslegum framförum heldur þvert á móti. Þetta eru stór orð.
    Það liggur að sjálfsögðu alveg fyrir að þær reglur sem nú gilda eru almenns eðlis. Fiskstofnunum, veiðiheimildunum, er skipt á milli tiltekinna aðila, milli fiskiskipanna eftir almennum reglum og þeir hafa heimild til þess að nýta sér þessar veiðiheimildir.
    En hvað er það sem hv. flm. er að leggja til með þessari þáltill.? Ég vænti þess að a.m.k. einhverjir þeirra, sem uppáskrifa þetta dæmalausa plagg, séu sambærilegrar skoðunar, þótt ég viti að þeir hafa ekki allir haft tækifæri til þess að kynna sér greinargerðina. Það er sagt að það eigi að gera með sóknarstýringu. Það er stjórnunaraðferðin sem hv. þm. er að leggja til, sóknarstýring, að stýra sókn allra fiskiskipa með þeim hætti að það megi tryggja að aflinn fari ekki yfir tiltekin mörk. Það eigi að gera með því að ákveða gerð skipa, útbúnað, veiðarfæri, meðferð afla og veiðitíma. Að sjálfsögðu er þetta hægt og að hluta til eru slíkar reglur í gildi sem hafa ekki reynst haldgóðar og því hefur þurft að grípa til þess að skammta aflann á sérhvert skip. En auðvitað mætti hugsa sér að grípa til þeirra aðferða sem hann er hér að leggja til, að loka veiðisvæðum, loka stórum svæðum og gera skipunum svo erfitt fyrir að þau geti ekki veitt nema tiltekið magn. Það er það sem hv. þm. er að leggja hér til. Ætli það sé ekki alveg ljóst að slíkir atvinnuhættir mundu valda því að kostnaður við útgerðina mundi vaxa mjög í landinu og ætli það sé ekki alveg

ljóst að lífskjörin mundu þá versna jafnhliða?
    Það er minnst hér á vanda byggðarlaga og talað um sóknarstýringuna sem bjargvætt í þeim efnum. Hér stendur: ,,Þeir halda velli sem kunna best til verka. Hinir falla fyrir borð. Þannig heltast úr lestinni þau skip sem eru óhagkvæm og úrelt til reksturs. Það borgar sig hreinlega ekki að gera þau út.`` Það er náttúrlega alveg ljóst að þegar verður búið að grípa til þessara aðferða, þá munu menn lenda í svo miklum kostnaði að þeir sem lenda í mestum vandræðunum munu heltast úr lestinni, eins og kemur fram í greinargerð hv. þm. Þeir munu fara á hausinn og þá mun lögmál samkeppninnar og lögmál markaðarins njóta sín eins og kemur hér fram í greinargerðinni. Halda hv. þm. að þau fiskiskip verði ekki frá einhverjum byggðarlögum og það verði ekki einhver byggðarlög sem lenda í vanda vegna þessarar sóknarstýringar? Það er náttúrlega alveg deginum ljósara að það verða mikil vandamál út af slíkri stýringu veiðanna. Ég ætla að vona að Alþingi grípi aldrei til þess að taka upp slíka atvinnuhætti hér í landinu þótt vissulega sé það ekki gallalaust, langt frá því, sem við búum við í dag.
    Ég ætla ekki að fara um þetta mikið frekari orðum. En aðeins vil ég nota tækifærið til þess að leiðrétta það sem kemur fram í þeim töflum sem hér eru birtar sem eru ekki réttvísandi. Í fyrsta lagi varðar það heildaraflann og vil ég fara yfir árin sem þar eru tilgreind.
    Árið 1984 var það ákvörðun stjórnvalda að veiðin yrði 242 þús. tonn, þá er ég að tala um þorskinn, en veiðin var 282 þús. tonn. Skýringin á mismuninum er sú að veruleg aukning varð í smábátaafla og hann var vanáætlaður þetta fyrsta ár. Það var jafnframt heimild til færslu á milli fisktegunda og það voru ýmsar leiðréttingar á fyrsta kvótaárinu.
    Árið 1985 var alveg ljóst að afli samkvæmt sóknarmarkinu varð meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Ég get raunverulega skýrt öll þessi ár en hef ekki tíma til þess. Hins vegar vil ég taka það fram varðandi árið 1988, þegar í greinargerð hv. þm. stendur, sem má vel vera að sé fengið frá Fiskifélagi Íslands, að það hafi verið ákvörðun stjórnvalda að aflinn yrði 315 þús. tonn, að það kom fram í reglugerð fyrir það ár að gert væri ráð fyrir því að hann yrði um 350 þús. lestir en varð 376 þús. lestir. Það kom líka fram í reglugerð 1989 að það mætti gera ráð fyrir því að aflinn yrði 325 þús. lestir. Hann varð að vísu 354 þús. lestir. Það kom jafnframt fram í reglugerð fyrir árið 1990 að aflinn gæti verið 300 þús. lestir. Samanburðurinn í þessu er því mjög villandi og það sama á við um þá töflu sem hér er birt yfir fiskiskipaflota landsmanna. Vísa ég þar til svars sem ég gaf hv. þm. Skúla Alexanderssyni á síðasta þingi, sem er á þskj. 698, þar sem kemur fram að við upphaf kvótakerfisins voru fiskiskip á þeirri skrá 673, voru í ársbyrjun 1990 626. Síðan hefur þeim fækkað um 5. Það kom fram í þessu svari að auk þess sé vitað um nokkur skip sem ekki eru gerð út til veiða heldur eru veiðiheimildir þeirra nýttar af öðrum skipum í eigu sömu útgerðar. Lausleg athugun bendir til að um geti verið að ræða

10 -- 20 skip. Þessum skipum hefur nú mjög fjölgað, enda er það eitt af helstu gagnrýnisatriðum margra á þá fiskveiðistjórnun sem nú er framfylgt að verið sé að sameina veiðiheimildir. Það er jafnframt ljóst að veiðiheimildir ýmissa smábáta verða sameinaðar innan þess flokks eða yfir á önnur skip. Þessi mynd er því mjög að breytast til hins betra, þótt á það sé litið sem galla af mörgum. En ég fullyrði að þótt það verði til þess að hætt sé við að gera ýmis skip út, sem er rétt að valdi vandkvæðum, þá er það mikil hátíð miðað við það ef sú aðferð yrði tekin upp sem hv. þm. var að mæla hér fyrir, hefur að vísu mælt fyrir áður á hv. þingi. En það kom mér á óvart að svo margir hv. þm. vildu taka upp það búskaparlag.