Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég er einn af þeim sem skrifuðu upp á þessa till. til þál. um endurskoðun fiskveiðistefnunnar og ég vil taka það fram vegna orða hæstv. sjútvrh. og fleiri sem eru að reyna að gera hér að aðalatriði í þessum tillöguflutningi hártogun á greinargerð. Aðalatriði þessarar þáltill. er fyrsta setningin sem hljóðar svo: ,,Alþingi ályktar að kjósa hlutfallskosningu sjö alþingismenn í milliþinganefnd er hafi það hlutverk að endurskoða fiskveiðistefnuna.`` Þetta er kjarni málsins. Fyrsta setningin.
    Ástæðan fyrir því að ég tel að það þurfi að endurskoða fiskveiðistefnuna er m.a. sú að hæstv. sjútvrh. ásamt hrossakaupadeild þessarar hæstv. ríkisstjórnar sem nú situr reif þetta mál af neðri deild Alþingis hér síðasta vor, ekki einu sinni hálfklárað. Neðri deild Alþingis fékk ekki einu sinni 24 klukkustundir til að fjalla um þetta mikilvæga mál. Það stoppaði ekki neitt hér í deildinni. Þetta var rifið hér út í hrossakaupum um húsnæðisfrumvarp, ráðherrastól og fleira. (Gripið fram í.) Nú erum við að ræða þetta hér í sameinuðu þingi, hárrétt hv. þm. Það má líklega. En það er eins og ekkert megi ræða í kringum þessa fiskveiðistjórnun, þá kemur kvótaklíkan á fullu og stígur á tærnar á öllum þeim sem vilja opna munninn í kringum þetta mál. Það liggur við að þessir hv. menn sem ekki vilja láta ræða þetta ættu að flytja hér þáltill. um að það sé bannað að ræða þessi mál.
    Ég ætla að vekja athygli á því að frá því að þetta kerfi var tekið í notkun, fyrir bráðum átta árum, hefur þorskstofninn ekki stækkað neitt. Samkvæmt mínum upplýsingum er hann minni nú heldur en þá. Og ekki nóg með það, hann er miklu smærri, meðalvigtin er langtum minni þannig að verðmæti heildarkvótans í sjónum er langtum minna nú heldur en það var þá.
    Það er alvörumál, hæstv. forseti, hvernig er að fara fyrir mikilvægasta fiskistofni þessa lands og þar að auki er hann grindhoraður. Og hver er nú skýringin á því að eftir svona mikla fiskfriðun og fiskvernd hefur meðalvigtin stórlækkað og fiskurinn hefur aldrei verið horaðri? Mér finnst að hæstv. sjútvrh. sem yfirmaður þessara mála og yfirmaður hafrannsókna skuldi okkur raunhæfari skýringar á þessu máli heldur en komið hafa fram.
    Ég hef margsinnis ítrekað það og geri það enn og aftur að ég tel að þýðingarmesta mál íslensku þjóðarinnar um þessar mundir séu auknar hafrannsóknir og aftur auknar hafrannsóknir og enn þá einu sinni auknar hafrannsóknir. Ég tel það vera alvörumál að það skuli ríkja nánast stöðnun í þessum rannsóknum og allt of litlir fjármunir og sömu leiðangrarnir á sama tíma, frá ári til árs, en ekki stöðug rannsókn, t.d. á fæðukerfi nytjastofna. Stöðug rannsókn allt árið. Hefðum við upplýsingar núna, hæstv. forseti, um stöðugar rannsóknir á fæðukerfi nytjastofna þá hefðum við þó alla vega einhverjar upplýsingar um hvers vegna fiskurinn er horaðri. Svo maður nefni nú ekki dæmin sem nú eru hér til umræðu í þjóðfélaginu. Hvar er

loðnustofninn?
    Fyrir ári síðan var forstjóri Hafrannsóknastofnunar á fundi hjá sjútvn. og upplýsti þar að þorskurinn æti milljón tonn af loðnu á ári og það var verið að ræða það þá að upplýsingar bentu jafnvel til þess að veiða mætti milljón tonn af loðnu. Eitthvað þarf að hrygna. Og í dag finnast ekki nema 300 þús. tonn. Sem sagt tvær millj. tonna af loðnu hafa horfið sporlaust á tólf mánuðum og engin skýring. Þetta eru staðfestingar á því að það vantar meiri hafrannsóknir. Það vantar skýringar.
    Allt of lítil umræða tel ég að hafi farið fram í sambandi við veiðar á vannýttum fiskistofnum. Það er ein leið. Kvótaklíkan segir gjarnan: Þið verðið að benda á einhverjar leiðir. Það er alltaf verið að benda á leiðir. Þeir vilja bara ekki ræða það sjálfir. Það mætti t.d. reyna að veiða meiri kolmunna. Þó það hafi ekki tekist vel hingað til þá hefur bara allt of litlum fjármunum verið varið í það. Kolmunnastofninn er stærsti fiskistofninn í Norður-Atlantshafi. Af hverju eigum við ekki að reyna að veiða hann? Þá kemst jafnvægi á á milli flotans og fiskistofnanna, ef við aukum verkefni fyrir flotann.
    Það eru líka til fleiri möguleikar en kolmunni. Það er úthafskarfaveiði, það er veiði á gulllaxi, það er veiði á langhala og kúfiski og krabbaveiðar, fyrir utan að það eru fleiri þúsund fermílur af vannýttum rækjusvæðum á Íslandsmiðum. En það er engum tíma eytt í að ræða þetta heldur leggst þessi klíka, sem stjórnar þessum málum og ráðskast með þessi mál, á það, það má ekkert ræða. Það á bara að herða og stjórna og ofstjórnast og stjórna og stjórna en
ekkert að komast út úr vandanum, hvorki með auknum hafrannsóknum eða leitun að nýjum verkefnum.
    Ég tel, hæstv. forseti, að það sé eitt mál sem sé öðru verra í sambandi við núverandi fiskveiðistjórnun og það er frjáls sala á aflakvóta eftir leikreglum sem eru mjög svo misjafnar og þá meina ég verðlagningu afurðanna. Ef ég nefni dæmi um þetta, þá hljóta sumir náð fyrir augum Aflamiðlunar og mega fá hæsta verðið. Aðrir frysta úti á sjó, sumir landa á fiskmörkuðum. En hverjir eru neðstir? Það eru þeir sem landa á lágmarksverði verðlagsráðs. Og hvar er sá flokkur staddur? Hann er staddur á landsbyggðinni. Síðan, hæstv. forseti, er kvótasalan gefin frjáls og sjálfvirk hagræðing á að ráða ferðinni, hvernig á að grisja, hagræða heitir það, fækka veiðitímum. Hvar verður veiðiskipum hagrætt? Hvar verður veiðiskipum fækkað? Úti á landi. Sá sem fær lægsta fiskverðið verður fórnarlambið í þessari stöðu, þessum óréttlátu leikreglum.
    Ég er hér, hæstv. forseti, með skýrslu og þó að tíminn sé búinn óska ég leyfis að fá að segja hér eina setningu. Frá Lagastofnun Háskólans barst plagg örfáum dögum áður en þetta mál var afgreitt frá Alþingi í fyrravor. Það hefur aldrei verið tekið fyrir í sjávarútvegsnefndum, aldrei verið tekið fyrir, mikilvægt plagg um eignarrétt á fiskinum í sjónum, aldrei verið tekið fyrir, það má ekki heldur ræða það. Hér stendur ein setning: ,,Löggjafanum er heimilt að setja

þeim almenn takmörk,`` þar er átt við fiskveiðistjórnun, ,,enda sé jafnræðis gætt.`` Og er það jafnræði sem ég var að segja frá áðan?
    Ég sé ekki, hæstv. forseti, annað en að það verði einungis Akureyri, Ísafjörður, Vestmannaeyjar og Reykjavíkursvæðið sem eigi lífdaga fram undan við óbreyttar kringumstæður og það er ástæðan fyrir því að ég legg mikla áherslu á að þessi mál verði rædd hér í hv. Alþingi af alvöru og menn taki sig nú saman og reyni að fara að hugsa þessi mál en ekki einskorða sig við það að drottna og deila og koma í veg fyrir að þessi alvarlegu mál verði rædd.