Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Það er að vonum að fram komi krafa um endurskoðun fiskveiðistefnunnar, svo fáir sem eru sáttir við hvernig hún er framkvæmd og hversu margt menn telja henni til foráttu. Hins vegar virðist mér að felist þversögn í tillögunni þar sem greint er frá því markmiði sem stefna beri að við endurskoðunina þar sem segir: ,,Skal endurskoðunin hafa að markmiði að komið verði á þeirri skipan sem tryggir verndun fiskstofnanna og miðast við að atgervi þeirra, sem sjóinn stunda, fái að njóta sín og sjávarútvegurinn geti lagað sig sem frjáls atvinnuvegur að landsháttum, fiskimiðum og hagsmunum byggðarlaga``.
    Hér er annars vegar talað um að sjávarútvegurinn lagi sig sem frjáls atvinnuvegur að landsháttum, fiskimiðum og hagsmunum byggðarlaga en hins vegar er talað um að hann lúti stjórn. Ég verð að játa að ég skil ekki og hef ekki á máli manna hér heyrt skýringu á því hvernig þetta tvennt geti farið saman, að atvinnuvegur sé frjáls en hann sé jafnframt undir stjórnun.
    Meginmarkmið þessarar tillögu virðist það að sóknarmarkið sé tekið upp á ný og það hlýtur þá að vera skoðun þeirra sem að tillögunni standa að það veiðifyrirkomulag sé það ákjósanlegasta í stöðunni, bæði gagnvart fiskstofnunum, afkomu útgerðarinnar og með tilliti til byggðarlaganna. Það er ekki lítið hlutverk sem þeirri nefnd er ætlað sem samkvæmt tillögunni á að endurskoða fiskveiðistefnuna undir formerki sóknarmarksins, ef hún á að finna leið til að koma stjórn á stærð fiskiskipastólsins, gerð skipa, útbúnað veiðarfæra og meðferð afla. Ég vil minna á þá staðreynd að sóknarmarksfyrirkomulagið leiddi ótvírætt af sér þá stækkun fiskiflotans sem nú er árangurslítið glímt við að ná að takmarka. Enn fremur er það ljóst að með tilkomu sóknarmarksins hefur smáfiskadrápið farið sívaxandi og er í þeim mæli nú að óverjandi er. Allir vita þetta þó að fáir vilji við það kannast.
    Það er fyrst og fremst sóknarmarkið sem hefur orsakað það að á undanförnum árum hafa veiðarnar ætíð farið fram úr því sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til. Séu kenningar Hafrannsóknastofnunar réttar um ástand fiskstofna á miðum okkar, en því hljóta menn að trúa fyrst tillögur stofnunarinnar eru lagðar til grundvallar við úthlutun aflaheimilda, hlýtur sú framúrveiði sem stunduð hefur verið hingað til að hitta okkur fyrir fyrr en seinna og spurning er hvort það hefur ekki þegar gerst.
    Samtök um kvennalista eru síður en svo mótfallin því að skipuð sé nefnd til þess að endurskoða fiskveiðistefnuna. En við lítum svo á að sé það gert undir formerkjum þessarar tillögu, þá séu hendur nefndarinnar bundnar um of og ekki valin heppilegasta leiðin. Flestir virðast geta tekið undir það að þörf sé á veiðitakmörkunum enda blasir það við að okkar stóri floti með sínum afkastamiklu veiðitækjum getur veitt langt umfram þol fiskstofnanna séu honum ekki sett takmörk í þeim efnum. Það eru þær takmarkanir sem

menn eru nú að glíma við.
    Framkvæmd fiskveiðistefnunnar eins og hún er nú er óviðunandi. Það á ekki að líðast að menn hafi aðstöðu til og leyfi sér að versla með auðlind þjóðarinnar allrar og geti auðgast um milljónir á að selja óveiddan fisk í sjónum. Í heildina skaðar þetta þjóðarbúið meira en menn almennt gera sér ljóst. Það tíðkast nú að aflaheimildakaup eru gjaldfærð þegar um einnota kvóta er að ræða og þá fær útgerðin skattfrádrátt vegna kaupanna. Þannig greiða skattgreiðendur að hluta til kvótakaup útgerðarfyrirtækjanna. Þegar varanlegar aflaheimildir eru keyptar eru þær eignfærðar. Hvernig er hægt að eignfæra hjá einstökum fyrirtækjum sameign allrar þjóðarinnar? Ég spyr.
    Alvarlegasta málið er þó hvernig einstök byggðarlög fara út úr aflaheimildaskerðingunni og kvótasölu sem af henni leiðir. Menn velta því gjarnan fyrir sér á þessum dögum hvort það sé af einberri skammsýni eða af ráðnum hug að ekki eru settar skorður við þessari verslun. Hún leiðir óhjákvæmilega til þess að aflaheimildir safnast á fárra hendur sem aftur leiðir til fækkunar í flotanum, sem er að vísu yfirlýst markmið hæstv. sjútvrh. Þá er ekki tekið tillit til þeirra byggðarlaga sem eiga allt sitt undir sjávarsókn og mannlegi þátturinn er sniðgenginn. Fækkun skipa getur leitt af sér fækkun byggðarlaga, jafnvel þeirra sem best liggja við sjósókn.
    Það væri víst að bera í bakkafullan lækinn að ræða frekar um þau mál núna, enda er það ekki ætlunin. Hins vegar get ég ekki tekið undir þann rökstuðning sem felst í greinargerð tillögunnar fyrir því að taka upp sóknarmark á ný, að þá muni flotinn minnka í heppilega stærð og barnaleikur að takmarka sóknina, segir þar. Það er óumdeilanlegt að á meðan sóknarmarkið var við lýði, þá stækkaði flotinn, allar smugur voru notaðar við endurnýjun og stækkun skipa, hver koppur sem flotið gat var settur á sjó og smáfiskadrápið jókst sem aldrei fyrr. Við því verður að setja skorður með ströngu eftirliti.
    Samtök um kvennalista hafa áður lagt fram skýra stefnu um hvernig best verði staðið að fiskveiðum, hvernig þeim verður best fyrir komið. Við hefðum kosið að við endurskoðun fiskveiðistefnunnar væru þau markmið sem þar eru efst á blaði höfð í fyrirrúmi. Þessi markmið okkar má skilgreina á eftirfarandi hátt: Það er hindrun ofveiði og verndun og uppbygging fiskstofna, aukin hagkvæmni og minni tilkostnaður, bæði við veiðar og vinnslu, bætt meðferð sjávarafla, hámarksnýting sjávaraflans, bætt kjör þeirra sem vinna í sjávarútvegi, bættur aðbúnaður, meira öryggi og hærri laun. Okkar stefna til að ná þessum markmiðum er sú að árlegur heildarafli verði ákveðinn af sjútvrh. að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar og svigrúm verði til þess að hækka eða lækka aflamarkið innan ársins ef aðstæður krefjast þess.
    Í öðru lagi að 80% þess heildarafla sem ákveðinn hefur verið verði skipt milli byggðarlaga eða útgerðarstaða með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára. Vilji viðkomandi byggðarlag halda sínum hlut

miðað við fyrri ár ber því að greiða fyrir það sem á vantar. Gjald byggðarlaga fyrir fiskveiðikvótann miðist við ákveðið hlutfall af meðalverði afla upp úr sjó og renni í sérstakan sjóð í vörslu ríkisins sem verði varið til eftirfarandi verkefna:
    1. Fræðslu sem nýtist sjávarútvegi.
    2. Rannsókna tengdum sjávarútvegi, grunnrannsókna á lífríki og sjávarrannsókna á ónýttum og vannýttum tegundum.
    3. Vöruþróunar í sjávarútvegi, markaðsöflunar og markaðshönnunar fyrir sjávarafurðir.
    4. Verðlauna til handhafa aflamarks fyrir sérstaka frammistöðu í nýtingu og meðferð aflans og lofsverðan aðbúnað starfsfólks.
    Þetta eru okkar aðalmarkmið og tillögur. Með þessu viljum við draga úr miðstýringu og ofstjórn og gera byggðasjónarmiðum hærra undir höfði, stuðla að eflingu rannsókna og fræðslu og hvetja til meiri nýtingar og bættrar meðferðar aflans og betri aðbúnaðar starfsfólks. Það yrði unnt að byggja inn hvata til meiri nýtingar og bættrar meðferðar sjávaraflans og til þess að betur yrði búið að starfsfólki í sjávarútvegi. Með þessum tillögum teljum við að tekið sé á helstu vandamálum við stjórnun fiskveiða og á þennan veg sé þeim málum best borgið. Við trúum því að endurskoðun hefði átt að fara fram á þessum nótum.