Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um endurskoðun fiskveiðistefnunnar. Það hefur ekki verið deilumál þingsins að fiskveiðistefnan væri af þeirri stærð að hana þyrfti að endurskoða reglulega. Hins vegar má segja að með flutningi þessarar þáltill. sé tekin um það ákvörðun af hendi þeirra sem að flutningi hennar standa að þeir telji eðlilegt að fiskveiðistefnan sé endurskoðuð af löggjafanum einum. Og löggjafinn einn kalli svo til sín til skrafs og ráðagerða hina ýmsu hópa sem vilja hafa áhrif á gang mála. Kannski eru ávarpsorðin til Alþingis Íslendinga frá forustumanni LÍÚ skýringin á því hvers vegna: Við nennum hreinlega ekki að hafa slíka drulluháleista yfir okkur við slíka vinnu. Svo hreinar línur eru það. Sætabrauðsdrengir eiga ekkert erindi inn á slíka fundi. Það er hægt að kalla á þá til þess að þeir geri þá grein fyrir sínum sérsjónarmiðum, en þeir eiga ekkert erindi til að sitja eins og varðhundar yfir mönnum meðan þetta er unnið.
    Ég verð að segja að það alvarlega sem er að gerast í íslenskri fiskveiðistefnu er það að við erum stöðugt að byggja meira og meira atvinnuleysi inn í okkar aðalatvinnuvegi. Þetta er ekki bara í þessum atvinnuvegi heldur mörgum öðrum og afleiðingin af því er sú að hagvöxturinn stöðvast hjá þjóðinni.
    Ég ætla að víkja hér að fréttum sem mér berast, SAS - fréttir, 1. tölublað 3. árgangi 1991. Þar stendur á bls. 3: ,,Veiðigeta flota EB þarf að minnka um 40% á næstu 10 árum ef hann á að vera í einhverju samræmi við helstu fiskistofna þess. Niðurskurður þyrfti að vera um 70% á flotanum sem veiðir þorsk, ýsu og síld í Norðursjó.`` Þeir tala um að um 100 þúsund sjómenn muni vissa atvinnu sína. Hér kæmi það hreinlega ekki í ljós hvað mikið innbyggt atvinnuleysi væri komið hjá okkur nema ef flotinn fengi að fara á fulla ferð og menn sæju á hvaða tíma hann skilaði þeim afla á land sem við getum veitt. Þá lægi það alveg ljóst fyrir hver staðan væri orðin.
    Ég vil aftur á móti líka vekja athygli á því hér að frændur okkar Norðmenn, sem við höfum margt lært af, glíma við fiskeldið af alvöru á sama tíma og við höfum það í hrakyrtu formi, helst til að gera grín að því. Þeir segja svo á bls. 3 í sama blaði: ,,Fiskeldi er einn af máttarstólpum Noregs. Ef heldur fram sem horfir verður fiskeldi í Noregi einn af undirstöðuatvinnuvegum landsins innan tveggja áratuga. Verðmæti eldisfisks nemi árlega 25 -- 30 milljörðum norskra króna árið 2010 og veiti 75 þúsund manns atvinnu. Í Noregi hefur þorskeldi sums staðar gengið með ágætum og eru dæmi um að eldisþorskurinn hafi aukið þyngd sína að jafnaði úr 2,5 kg í um 5 kg á sjö mánuðum.``
    Við tölum um það sem sjálfgefinn hlut að fiskifræðingarnir séu þeir sem viti meira en aðrir um stærð fiskistofna. Ég get hvorki tekið undir það að ég treysti þeim eða trúi þeim en ég viðurkenni fúslega að þeir vita mun meira en aðrir um stærð fiskistofna við landið. Samt er nú svo komið að þeir komust að því nú um jólaleytið að loðnustofninn dygði fyrir hvalina og

ekki fyrir skipin. Það var staðan. Ég veit ekki betur en þeir hafi verið að fylgjast með þessu undanfarið. Við erum að þreifa okkur í átt til hjarðbúskapar og það skyldi enginn gera lítið úr því að það hefur verið erfitt að feta þá braut og ég tel að það þurfi ekki að líta á það sem nokkurt vantraust á núv. sjútvrh. þó að menn ræði þetta út frá hinum stóru stefnumarkandi atriðum sem koma inn í þetta. Á sama tíma og við segjum við fiskifræðingana: Við treystum ykkur, við trúum ykkur, segja sumir. Ég segi: Þeir vita meira en aðrir en ég hvorki trúi né treysti þeim. Á sama tíma afgreiðum við alla þá sem hafa verið í hagfræði ( SV: Vita þeir hvað þeir vita lítið?), alla sem hafa verið í hagfræði, Stefán Valgeirsson, og hafa álíka langt nám á bak við sig og fiskifræðingarnir og telja sig vita vegna sinnar þekkingar hvernig eigi að stjórna fiskveiðum, við afgreiðum þá alla út í ystu myrkur, að þeir viti ekkert hvað þeir eru að tala um. Kannski þyrfti nú að ræða við báða hópana og leita að málamiðlun.
    Það er nefnilega staðreynd, t.d. ef svo fer að þorskeldi verður gert að stóratvinnugrein hér á landi, að þá er hugsanlegt að þar inni verði bæði sleppingar á seiðum
og eldi á smáþorski. Það er ekki útilokað undir slíkum kringumstæðum að menn verði að endurskoða sína afstöðu til þess að það verði greitt aflagjald fyrir þann fisk sem veiddur er ef við getum stóraukið sóknina, stóraukið aflann, með því að klekja út þorskseiðum. En af því að rætt var hér um grg., sem er nú kannski ekki fullkomin frekar en önnur mannanna verk, það er svo með þau flest að þau eru ekki fullkomin, þá vil ég segja það að ég var að lesa blað sem heitir ,,Stjórnun``. Þið þekkið myndina af þessum heiðursmönnum hér á fremstu síðu. Þetta eru menn sem hafa komið mikið við stjórnun í þessu landi. Maður telur þegar maður fer að lesa fyrirlestur eftir stjórnarformann ABB og SAS í Svíþjóð að þá hljóti maður að mega trúa því nokkurn veginn sem þar stendur, að þar sé ekki neitt fleipur á ferðinni. En hann segir á bls. 42 í þessu ágæta blaði, þ.e. tímariti Stjórnunarfélagsins, 1. árg. 1991: ,,Nicolin sagði að fyrirtæki ættu að gera allt sem þau gætu til þess að forðast að eiga vöru á lager því það væri óarðbært fjármagn. Sömuleiðis ætti að stilla fasteignakaupum í hóf eins og mögulegt væri. Gólfpláss væri geysilega dýrt og óarðbært. Hann hvatti til að fyrirtæki gaumgæfðu þetta sérstaklega og seldu svo óþarfa fasteignir. Og ef ekki er hægt að selja óþarfa fasteignir þá er best að kveikja í þeim.``
    Þetta eru tillögur Stjórnunarfélags Íslands og ég veit ekki hvort textinn er nokkuð verri í grg. sem fylgir þessari till. til þál.