Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :
    Hæstv. forseti. Það er nú orðnar miklar umræður um þessa tillögu sem hér er á dagskrá og er það ekkert undrunarefni, svo þýðingarmikið mál sem hér er um að ræða. Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur flutningsmenn að meginhluti þeirra manna sem hér hafa látið í sér heyra eru sammála okkur í meginatriðum og vilja afnám kvótakerfisins. Frá þessu eru undantekningar að sjálfsögðu og á ég þá fyrst og fremst við hæstv. ráðherra sem mátti búast við að kæmi til varnar kvótakerfinu sem hann hefur átt mestan þátt í að móta og stjórna. Það kom líka stuðningur að mér skildist og greinilega frá tveim öðrum þingmönnum við þetta kerfi, þ.e. frá hv. síðasta ræðumanni sem hér var að ljúka máli sínu, hv. 1. þm. Vesturl. og frá hv. 4. þm. Reykn.
    Hv. 1. þm. Vesturl. tjáði sig mjög undrandi yfir því að þessi tillaga væri fram komin og það undrar mig kannski ekki miðað við þau sjónarmið sem fram komu í ræðu hans. Mér fannst að það kæmi fram viss misskilningur hjá hv. þm. Ef ég hef fylgst rétt með, þá sýndist mér að t.d. hefði komið fram misskilningur eða ruglingur annars vegar á sóknarmarki og hins vegar á sóknarstýringu sem tillagan gerir ráð fyrir.
    Hv. þm. sagði að það yrði að tala við útgerðarmenn og sjómenn. Hver hefur látið sér detta í hug að það yrði ekki talað við þessa menn? Auðvitað mun sú milliþinganefnd sem gert er ráð fyrir
hafa samráð við sem flesta í sínu starfi, en það er grundvallarmunur á því að þingkjörin nefnd hafi forustu í þessu endurskoðunarstarfi, endurskoðun á fiskveiðistefnunni, eða það sé undir forustu hagsmunaaðila.
    Hv. 1. þm. Vesturl. talaði sem svo að það væri ekki hægt að fá fullkomnari og betri stjórn á fiskveiðunum heldur en nú væri. Þetta er náttúrlega meira en ofmælt og ég skal nú ekki eyða tíma mínum í að ræða frekar um það því að öll mín ræða og ræður okkar sem erum á móti núverandi kerfi hafa fjallað um það að sýna fram á hvernig núverandi kerfi er óhæft og það er ekki um annað að gera heldur en að leysa það af hólmi.
    Hv. 4. þm. Reykn. talaði mjög á móti þessari tillögu og kom nú fram þar ýmis misskilningur hjá honum og mér fannst nú að það kastaði tólfunum sumt af því sem hann sagði, t.d. þegar hann sagðist undrandi á þeim markmiðum sem sett væru fram í þessari tillögu. Þetta eru svo stór orð að mér þykir rétt, með leyfi hæstv. forseta, að fara yfir hvað segir um þetta í tillögunni. Það segir:
    ,,Skal endurskoðunin hafa að markmiði að komið verði á þeirri skipan sem tryggir verndun fiskstofnanna og miðast við að atgervi þeirra sem sjóinn stunda fái að njóta sín og sjávarútvegurinn geti lagað sig sem frjáls atvinnuvegur að landsháttum, fiskimiðum og hagsmunum byggðarlaga svo að gefi sem bestan rekstrargrundvöll til að ná hámarksafrakstri af auðlindum hafsins.``
    Ég verð að segja það að ég skil ekki að menn

þurfi að undrast slík markmið sem þessi. Ég held að svona ummæli séu byggð á misskilningi og það eru ýmis ummæli sem hér hafa komið fram og átt að vera til stuðnings kvótakerfinu sem mér sýnast vera byggð á álíka miklum misskilningi og þessi ummæli.
    Hv. 7. þm. Norðurl. e. er á móti kvótakerfinu eins og það er núna og er þess vegna sammála okkur flm. að því leyti. En ég minnist á ræðu þessa hv. þm. einungis vegna þess að það kom greinilega fram alger misskilningur hjá henni. Hún ruglaði saman sóknarmarki og sóknarstýringu og fann þessu frv. til foráttu að það væri að taka upp skipan sem fylgdu þeir ókostir sem sóknarmarkinu höfðu fylgt. Þetta er að sjálfsögðu á misskilningi byggt.
    Skal ég þá víkja að því sem er mest bitastætt af því sem hefur verið sagt hér á móti þessari tillögu og það er það sem hæstv. sjútvrh. sagði. Hann lýsti mikilli undrun yfir tillögu þessari, enda sagði hann að hún væri dæmalaus og svo dæmalaus að honum þótti rétt að taka fram að þingmenn hefðu þó heimild til þess að flytja þessa tillögu. Gott er að vita það að hæstv. ráðherra er þó á þeirri skoðun.
    En hann hneykslaðist nokkuð á nokkrum atriðum. Fyrst kom hann að því að hann sagði að það þyrfti ekki að bera fram tillögu um endurskoðun á fiskveiðistefnunni vegna þess að í núgildandi lögum væri ákvæði um endurskoðun þeirra laga. Það er rétt. Það er ákvæði um endurskoðun þeirra laga. En hvað felst í því ákvæði? Það felst í því ákvæði að lögin verði endurskoðuð til þess að kvótakerfið geti verið betur framkvæmt. Ég hef skilið að það væri skoðun hæstv. ráðherra. En ég er á allt annarri skoðun og við sem flytjum þessa tillögu. Við erum ekki að tala um að lappa upp á það kerfi sem núna er. Við erum að tala um að endurskoða fiskveiðistefnuna í heild með tilliti til þess að mótuð verði ný stefna þar sem kvótakerfið verði aflagt.
    Hæstv. ráðherra fór nokkrum orðum um að það væri svo með kvótakerfið og þá skipun sem núna er að hún byggðist á almennum reglum. Hann talaði svo sem það væri einhver misskilningur hjá mér og okkur flutningsmönnum í þessu efni þegar við segjum að kvótakerfið sé einstaklingsbundin stjórnun. Það sem um er að ræða er það og það á ekki að valda neinum misskilningi. Við getum talað um staðreyndir án þess að deila um þær. Og það sem við erum að tala um þegar við tölum um einstaklingsbundna stjórnun en ekki almenna stjórnun er það að það er ákveðið aflamark á hvert skip. Auðvitað eru ýmsar reglur um framkvæmd kvótakerfisins sem má kalla almennar reglur, en það er annað mál.
    Hæstv. ráðherra vitnaði í nokkur orð í grg. þar sem var talað um að þeir sem ekki stæðust samkeppnina mundu falla fyrir borð og hann spurði: Hvað verður þá um landsbyggðina? En ég segi: Við þurfum ekki að spyrja að því hvað verður. Hvað er núna um landsbyggðina? Hvernig fer kvótakerfið núna í dag með landsbyggðina? Það sem við erum að ræða um er að koma á skipan sem felur í sér að landsbyggðin fái að njóta sín og það verði ekki farið með hana

eins og farið er með hana í dag. Það er engin tilviljun hvernig verstöðvarnar hafa byggst upp víðs vegar í kringum landið. Hvers vegna hafa þær byggst upp á þessum stöðum og orðið til? Það er vegna þess að þar hefur verið hagstæðust aðstaða til sjósóknar og þar hefur fólkið viljað lifa og starfa við sjó og fiskvinnslu. Og þessir staðir hafa vaxið og þeir hafa dafnað og hver kynslóðin tekið við af annarri á þessum stöðum. En kvótakerfið sker á þessa þróun. Nú á aðstaða þessara byggðarlaga ekki að fá að njóta sín þannig að þau geti haldið áfram að vaxa og dafna og fólkið geti haldið áfram að una glatt við sitt á þessum stöðum. Þetta er einn meginókostur kvótakerfisins og inn á þetta kom ég í minni frumræðu.
    Það má ekki, eins og hæstv. ráðherra gerir, snúa þessu við. Við flutningsmenn viljum aðra skipan en kvótakerfið er. Við viljum styðja að hagsmunum hinna ýmsu byggðarlaga úti á landi sem hafa besta aðstöðu til sjósóknar, en það er meira en að styðja að þessum byggðarlögum því að með því leggjum við grundvöllinn að því að sjávarútvegurinn geti verið rekinn þannig að hann skili sem mestum arði í þjóðarbúið.
    Hæstv. ráðherra taldi sig þurfa að leiðrétta töflur sem fylgja grg. Það var þá fyrst taflan um yfirlit um veiði helstu botnfisktegunda. Og hann vék að því sem þar greinir árið 1984 um veiði þorsks samkvæmt ákvörðun stjórnvalda og einnig 1985. Hann talaði eins og hann væri eitthvað að leiðrétta í þessu efni. Hæstv. ráðherra var ekki að leiðrétta nokkurn skapaðan hlut því að það sem hann var að segja er getið um í töflunni og vitnað á þessa staði um að það hafi orðið viðbót við það sem stjórnvöld ákváðu um veiði þorsks á þessum árum. Svo tekur ráðherrann fleiri ár og segir að í einhverri reglugerð sé tekið fram að það megi hækka þetta hámark eða takmark. Jú, en hæstv. ráðherra hefur gert þetta þó að engin reglugerð hafi verið til sem hann hefur vitnað til í sambandi við árin 1984 og 1985. Þessar upplýsingar koma frá Fiskifélagi Íslands.
    Þá er hann að gera tortryggilegar upplýsingar sem koma frá Siglingamálastofnun ríkisins. Ég skal nú ekki vera að elta ólar við það. Mér skildist helst að þarna væri um að ræða 10 eða 20 skip sem væru hætt veiðum. En hæstv. ráðherra er að gera þessar töflur tortryggilegar. Ég mótmæli að það sé gert vegna þess að þessar skýrslur eru gefnar af aðilum sem eru ábyggilegir og við höfum ekki traustari heimildir heldur en koma fram frá Fiskifélagi Íslands og Siglingamálastofnun um þetta efni. En þó að það væru nú einhver smáfrávik frá þessu, og hæstv. ráðherra telur sig geta fundið slíkt, þá er þarna ekki um að ræða nokkurn hlut sem nokkru minnstu breytir um aðalatriðin sem þessar skýrslur bera með sér. Það er það að eftir að kvótakerfið kom fram, þá hefur verið staðið verr að því að vernda fiskistofnana og staðið verr að því að minnka fiskiskipastólinn en var áður en kvótakerfið kom til. Einmitt þetta er grundvallarástæðan fyrir því og næg ástæða fyrir utan alla aðra galla kvótakerfisins að við eigum að hverfa frá því.