Skipti á dánarbúum o.fl.
Föstudaginn 01. febrúar 1991


     Frsm. allshn. (Skúli Alexandersson) :
    Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. Markús Sigurbjörnsson prófessor kom á fund nefndarinnar, en umsagnir bárust frá Sýslumannafélagi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Dómarafélagi Íslands, gjaldheimtustjóranum í Reykjavík, Verslunarráði Íslands og Lögmannafélagi Íslands. Mæltu fjórir umsagnaraðilar með samþykkt frv. án athugasemda en tveir gerðu lítils háttar athugasemdir, sem í sjálfu sér er óþarft að rekja nánar.
    Hér er um mikinn lagabálk að ræða. Fv. þetta er flutt í tengslum við gildistöku laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, enda geta núgildandi lög um skipti á dánarbúum ekki fallið að nýskipan þessara málaflokka. Um leið hefur löggjöfin verið endurskoðuð og miðuð við þá framkvæmd sem skapast hefur. Má þar nefna að einkaskipti dánarbúa verða aðalregla við skipti dánarbúa en ekki opinber skipti eins og verið hefur að formi til. Einnig hafa ákvæði um skuldaröð krafna við skipti, þar á meðal gjaldþrotaskipti, verið felld brott úr skiptalögum en þess í stað tekin upp í frv. til laga um gjaldþrotaskipti, 97. mál þessa þings sem verður vonandi til afgreiðslu hér í deildinni bráðlega og er til umfjöllunar í allshn.
    Núgildandi lög um skipti á dánarbúum eru frá 1878 og þrátt fyrir að þau hafi gegnt hlutverki sínu af mikilli prýði er nú þörf á nýjum lögum.
    Allshn. leggur til að frv. þetta verði samþykkt án breytinga.