Almenn hegningarlög
Föstudaginn 01. febrúar 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um viðauka við almenn hegningarlög nr. 19 frá 12. febr. 1940 sem flutt er á þskj. 564.
    Í frv. þessu er lagt til að tilraun verði gerð með samfélagsþjónustu hér á landi. Á síðustu tveimur áratugum hefur verið mikil umræða á Norðurlöndum og í Vestur - Evrópu um stöðu refsivistar í viðurlagakerfinu. Sú stefna hefur verið ríkjandi að draga beri úr notkun óskilorðsbundinnar refsivistar eins og unnt er. Til að það sé hægt þarf að finna önnur úrræði í staðinn. Frjálsræðissvipting er alvarlegustu viðbrögð við afbrotum og hefur oft mikla röskun í för með sér fyrir brotamann og fjölskyldu hans. Frjálsræðissviptingu á ekki að beita meira en nauðsynlegt er til að halda aftur af afbrotum og þá fyrst eftir að önnur og vægari úrræði hafa verið reynd eða þegar reynslan hefur sýnt að vægari úrræði koma ekki að gagni. Samfélagsþjónusta er eina nýja viðurlagategundin sem náð hefur almennri útbreiðslu og hefur nú verið tekin upp sem varanlegt úrræði eða til reynslu með einum eða öðrum hætti í öllum ríkjum Vestur - Evrópu nema fjórum auk Íslands.
    Flestir fangar hér á landi sem og erlendis eru það sem kallað er venjulegir fangar, þ.e. menn sem fremja ítrekað auðgunarbrot, svo sem innbrot, þjófnaði, fjársvik og skjalafals. Oftast eiga þessir menn við persónuleg og félagsleg vandamál að etja. Samfélagsþjónusta hefur ekki síst átt fylgi að fagna vegna þess að þetta viðurlagaform hefur sannað gildi sitt gagnvart hluta af þessum venjulegu föngum. Samfélagsþjónusta með vinnuskyldu, ströngu eftirliti og félagslegri aðstoð skilorðseftirlits hefur vakið vonir um að í mörgum tilfellum megi beina brotamönnum inn á nýjar brautir og vekja áhuga á breyttu lífsmynstri.
    Þótt ekki séu sett hærri markmið en þau að brotamaðurinn haldi sig frá afbrotum á meðan hann er að inna samfélagsþjónustu af hendi, en það er jafnlangur tími og refsivist dómsins, er verulegum árangri náð.
    Almennt er samfélagsþjónustu ætlað að koma í stað styttri óskilorðsbundinna refsivistardóma. Helstu kostir samfélagsþjónustu eru að brotamaður getur haldið sambandi við fjölskyldu og vini meðan á fullnustu dóms stendur. Auk þess getur hann jafnframt stundað sína föstu vinnu eða nám. Hann er ekki slitinn úr tengslum við þjóðfélagið meðan á fullnustu stendur. Með samfélagsþjónustu tekur dómþoli út refsingu sína á jákvæðan hátt og má líta á hana sem bætur hans til samfélagsins fyrir afbrotið. Reynsla erlendis hefur sýnt að margir brotamenn halda tengslum við vinnustaði eftir að fullnustu dóms um samfélagsþjónustu er lokið. Þetta sýnir að samfélagsþjónusta hefur í mörgum tilfellum breytt lífsviðhorfum brotamannsins og vakið áhuga hans á nýjum áhugamálum.
    Hér á landi hefur föngum fjölgað verulega síðustu tvo áratugi. Nú eru um hundrað manns að jafnaði á dag í afplánun. Þetta þýðir að um 40 fangar eru á hverja 100 þús. íbúa. Þótt föngum hafi fjölgað hér á landi síðustu ár eru Íslendingar með einhverja lægstu

fangatölu sem þekkist í Vestur - Evrópu.
    Samfélagsþjónusta er ekki úrræði sem leysir fangelsi af hólmi. Að ná því markmiði að hún geti komið í stað 5 -- 7% refsivistardóma vegna hegningarlagabrota er góður árangur. Margir brotamenn vilja og geta hætt á afbrotabrautinni. Það eftirlit og aðhald og sú aðstoð sem veitt er á meðan samfélagsþjónustan er innt af hendi getur snúið mönnum til betri vegar.
    Í frv. þessu er lagt til að gerð verði tilraun með samfélagsþjónustu hér á landi. Skilgreina má samfélagsþjónustu með þeim hætti að hún sé ein tegund viðurlaga við afbrotum sem felst í því að á brotamann er lögð sú skylda að vinna ákveðinn tímafjölda launalaust og í frítíma sínum að verkefnum sem koma þjóðfélaginu að gagni.
    Skv. 1. gr. frv. er lagt til að á tilraunatímabilinu verði það fyrirkomulag á samfélagsþjónustu að heimilt verði að breyta allt að tíu mánaða óskilorðsbundnum refsivistardómi við fullnustu á þann veg að í hans stað komi ólaunuð samfélagsþjónusta í minnst 40 klst. og mest 200 klst. Skv. 5. gr. frv. er það þriggja manna nefnd sem dómsmrh. skipar sem tekur ákvörðun um hvort refsivist skuli breytt í samfélagsþjónustu. Þegar ákveðið er að breyta refsivist í samfélagsþjónustu er samkvæmt sömu grein gert ráð fyrir að nefndin taki einnig ákvörðun um inntak samfélagsþjónustu í hverju tilviki.
    Ástæður þess að þetta fyrirkomulag er valið eru þær helstar að með þessum hætti nást best þau markmið að samfélagsþjónusta komi í stað óskilorðsbundinnar refsivistar og kostnaður við framkvæmd verður í lágmarki. Auk þess er mikilvægt að á tilraunatímabilinu verði hægt að hafa fullkomna stjórn á tilrauninni þannig að hún verði á hverjum tíma aðlöguð að aðstæðum hér á landi.
    Í 2. gr. frv. eru ákvæði um það hvaða skilyrði þurfi að vera til staðar svo að breyta megi refsivist í samfélagsþjónustu. Skv. 2. mgr. skal, áður en ákvörðun um samfélagsþjónustu er tekin, fara fram athugun á persónulegum högum dómþola þar sem m.a. koma fram rökstudd álit á því hvort hann sé líklegur til að geta innt samfélagsþjónustu af hendi og hvaða samfélagsþjónusta komi til greina í viðkomandi tilfelli. Skv. 6. gr. er Fangelsismálastofnun falið að annast þessa athugun. Ekki er gert ráð fyrir að refsivist verði breytt í samfélagsþjónustu nema líklegt sé talið að dómþoli vilji og geti innt samfélagsþjónustuna af hendi og að þetta úrræði teljist líklegt til að koma dómþola út úr hringiðu afbrota.
    Í 3. gr. frv. eru ákvæði um inntak samfélagsþjónustunnar. Samkvæmt greininni er gert ráð fyrir að 20 klst. ólaunuð samfélagsþjónusta komi að jafnaði í stað eins mánaðar refsivistar þannig að ef e.t.v. fjögurra mánaða refsivist er breytt í samfélagsþjónustu komi 80 klst. samfélagsþjónusta í hennar stað. Miðað er við að sú vinna sé einnig innt af hendi á fjórum mánuðum. Skv. 2. mgr. er miðað við að vinnan verði aldrei innt af hendi á skemmri tíma en þremur mánuðum. Ekki er talið að uppeldisleg markmið samfélagsþjónustu náist ef vinnuskyldan er innt af hendi á skemmri tíma.

    Skv. 4. gr. er samfélagsþjónusta háð þeim skilyrðum að dómþoli fremji ekki neitt brot á refsitímanum
og verði háður eftirliti á þeim tíma sem það tekur að inna samfélagsþjónustuna af hendi. Auk þess er samkvæmt greininni heimilt að setja frekari skilyrði fyrir samfélagsþjónustu. Er þar miðað við þau skilyrði sem heimilt er að setja í venjulegum skilorðsdómum.
    Skv. 6. gr. frv. er gert ráð fyrir að Fangelsismálastofnun ríkisins sjái um framkvæmd samfélagsþjónustu eftir að ákvörðun er tekin um að breyta refsivist í samfélagsþjónustu. Í þessu felst m.a. að stofnuninni er ætlað að finna heppilega vinnustaði og að semja við þá um að taka dómþola í samfélagsþjónustu. Þar sem samfélagsþjónusta hefur verið tekin upp hefur fyrir fram oft verið óttast að ekki tækist að útvega nægilega mörg atvinnutilboð til að þetta viðurlagakerfi gæti gengið upp. Almennt hefur sá ótti reynst ástæðulaus.
    Í 8. gr. frv. eru ákvæði um hvernig við eigi að bregðast ef dómþoli rýfur skilorð samfélagsþjónustu. Er þar í öllum meginatriðum miðað við sambærilegt fyrirkomulag og er í 42. gr. almennra hegningarlaga um skilorðsrof vegna reynslulausnar.
    Hæstv. forseti. Ég tel mig nú hafa gert grein fyrir þeim viðurlagapólitísku forsendum sem ákvæði frv. þessa byggjast á, svo og helstu efnisatriðum þess. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.