Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 01. febrúar 1991


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil láta koma fram hér, eins og minnst hefur verið á í framsögu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, að samstaða er með nefndarmönnum um flutning þessa frv. og samkomulag hefur náðst um þær breytingar sem þar eru lagðar fram. Því er ekki að neita að
í sumum efnum hefur verið gengið skemmra en ýmsum í nefndinni þótti æskilegt, en aftur á móti gengið í lengra lagi til móts við aðrar breytingar. Allt um það er samkomulag um það að nefndin standi óskipt að þessu frv. þó að nefndarmenn telji ekki að þeir hafi með því bundið hendur félaga sinna í þingflokkunum um að leggja fram tillögur til breytinga.
    Ég vil játa það að persónulega hef ég ávallt haft efasemdir um að rétt sé að gera þingið að einni málstofu. Ég hef óttast það að mál ættu þá um of greiða leið í gegnum þingið og fengju e.t.v. ekki eins vandaða umfjöllun og nauðsyn væri. En ég hef beygt mig fyrir þeim rökum sem fram hafa verið færð fyrir þessari breytingu og hv. flm. hefur rakið í máli sínu og ég hef gengið til samkomulags við aðra nefndarmenn um þetta atriði. En þá verður þingið líka að hafa burði til þess að hindra að framkvæmdarvaldið gangi of langt í því að þrýsta sínum málum fram í þinginu með þeim aðferðum sem gjarnan eru notaðar og viðhafðar, svo sem með afbrigðum. Í trausti þess að þingsköpum verði beitt á þann veg að slíkt gangi ekki of langt samþykki ég þessa breytingu.
    Ekki náðist samstaða innan nefndarinnar um að fella niður heimild til útgáfu bráðabirgðalaga. Ég vil minna á að hv. þm. Kristín Einarsdóttir hefur mælt hér fyrir frv. til laga um afnám þessara heimilda sem þingkonur Kvennalistans í Nd. hafa lagt fram. Það gefur því auga leið að erfitt er fyrir fulltrúa Kvennalistans í nefndinni að ganga til samkomulags um að þessi heimild sé áfram við lýði. En í ljósi þess að samkvæmt þessu frumvarpi eru verulegar takmarkanir á að beita þessari heimild gekk ég til samkomulags við nefndarmenn um þetta atriði. Þessa heimild hafa stjórnvöld annarra landa ekki leyft sér að nota þó að hún sé fyrir hendi þar og það væri ásættanlegt e.t.v. að þetta ákvæði væri til staðar hér hefði ekki reynslan sýnt hve gróflega því hefur verið misbeitt á stundum.
    Margar mikilvægar breytingar eru í þessu frumvarpi á störfum Alþingis og yfirleitt allar til bóta og þær eru einnig til þess að gera ýmis ákvæði og reglur skýrari. Í ljósi þess að störf Alþingis muni við þetta verða skilvirkari og markvissari og að með nokkrum hætti verði betur greint á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, þá lýsi ég sem vænta má stuðningi mínum við þetta frumvarp og mun standa heils hugar með því svo sem og aðrir nefndarmenn.