Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 01. febrúar 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Herra forseti. Mér finnst rétt að leggja hér örfá orð í belg því að hér er flutt mikilvægt mál og fram borið af ágætum mönnum. Ég vil fyrst taka fram að ég tel að stjórnarskrá okkar sem við höfum lengi búið við sé harla góð og í raun þurfi ekki að gera á henni ýkja miklar breytingar. En eigi að síður ber að viðurkenna að það eru að sjálfsögðu ýmsar formbreytingar sem þarf að gera. Eftir lýðveldistöku 1944 hafa starfað að þessu margar góðar nefndir. Ein er starfandi nú að því er ég best veit undir forustu hins ágætasta manns, en því miður hefur ekki ýkja mikið heyrst um þetta mál í heild nú nýlega.
    Sannleikurinn er sá að auðvitað má benda á að ýmsar greinar stjórnarskrárinnar séu ófullkomnar eins og kom fram í máli hv. 6. þm. Norðurl. e., sem hann hafði eftir umboðsmanni Alþingis. En ég held nú að við eignumst aldrei alfullkomna stjórnarskrá. Og kaldhæðni örlaganna er svo mikil í veraldarsögunni að jafnvel hinar albestu stjórnarskrár sem hafa verið samdar af mestu hyggindum og áttu lengi að duga hafa reynst heldur valtar þegar á reyndi og stjórnmálamenn komu til sögunnar. Mætti tilfæra um þetta dæmi.
    Ég held að yfirleitt sé ekki ýkja mikill vandi að ná samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni, ef frá er skilin 31. gr., um kjördæmaskipun og þingmannafjölda. Og sannleikurinn er sá að þar má auðvitað eitt og annað tína til, eins og það að að mínum dómi hefði þingmannafjöldi á hv. Alþingi Íslendinga aldrei átt að fara fram úr 60 manns. Það er svo mikil freisting stjórnmálamanna að leysa ýmsan aðkallandi vanda með því að bæta við einum og einum þingmanni að sagan sýnir að þar er nauðsynlegt að hafa eitthvert hóf og eitthvert þak. Og ég endurtek að þingmannafjöldi hefði aldrei átt að fara yfir 60. En margt annað sem stendur í 31. gr. stjórnarskrárinnar hefur vafist fyrir mönnum. Þar verður náttúrlega seint hægt að ná fullu samkomulagi.
    Eins og hér hefur komið fram hefði maður getað ímyndað sér að stjórnarskrárnefnd sú sem nú situr hefði lagt fram brtt. eða drög að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Hér er því dálítið einkennilega að verki staðið. Þar verð ég að taka undir með hv. 2. Vestf. Að taka hér út úr nokkur ákvæði. Mér virðist sem sagt sem hér hafi verið valin ,,létta leiðin ljúfa``, eins og einhvern tíma var nefnt, það er að taka út úr nokkur ákvæði sem flestir alþingismenn geta í raun og veru orðið sammála um.
    Meginbreytingin í þessu frv. er held ég talin sú að deildaskipting Alþingis er afnumin. Ég get vel tekið fram að ég hef verið þessu sammála lengi og tel að Alþingi Íslendinga hefði átt að vera komið í eina málstofu fyrir þó nokkru síðan. En það er ýmislegt fleira sem þarf að huga að þegar kosningar eru á næsta leiti.
    Sumar þær breytingar sem hér eru gerðar eru næsta lítilvægar. Þar er um að ræða ákvæði sem hafa að vísu staðið í stjórnarskránni en þeim hefur ekki verið beitt. Það er eitt sem mér dettur í hug að nefna.

Hér segir á einum stað: ,,Fellt er brott úrelt ákvæði um eiðvinningu þingmanna.`` Hver kveður upp svona dóma? Ég veit ekki betur en staðið hafi í 47. gr. stjórnarskrárinnar um áraraðir og standi enn: ,,sérhver nýr þingmaður skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni``. Þetta er í hvívetna jafngilt að lögum og þarna velur maðurinn sjálfur á milli. En að hér sé verið að taka aðra aðferðina út úr og dæma hana úrelta. Ég held að það sé nú ekki mjög vel rökstuddur dómur.
    Og það er ýmislegt annað sem við þurfum að gera þegar við horfumst í augu við kosningar. Ég álít t.d. bráðnauðsynlegt að kippa einhverju í liðinn að því er varðar kosningalögin sem við búum við núna og eru sennilega meðal vitlausustu kosningalaga sem spurnir fara af. En hvað um það. Það er hægt að láta svona athugasemdir falla. En ég vil þó segja það að ég get verið sammála flestu því sem hér er minnst á og er þess vegna ekki ástæða til að vera að hreyfa hvössum athugasemdum. Sé meginbreytingin sú að afnema deildaskiptinguna þá er ég því sammála, en um ýmis atriði önnur sem hér eru getur maður velt vöngum og hugsað sér að alveg eins hefði mátt taka einhver önnur ákvæði stjórnarskrárinnar til athugunar. Þannig leyfist vonandi að bíða enn eftir þeirri heildarskoðun sem fyrir löngu átti að hafa farið fram.