Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 01. febrúar 1991


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. Ég ætla mér ekki að fara hér út í efnisumræður en vil þó í upphafi segja að ég harma hversu fámennt er hér í salnum þegar jafnmikilvægt mál er til umræðu og hér er. Þegar verið er að ræða um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, þá horfum við á galtóma ráðherrastóla, ekki einn einasti ráðherra sýnir jafnmikilvægu máli og hér er verið að ræða um áhuga. Og það sem meira er, í þingsalnum sitja núna aðeins fjórir deildarþingmenn og allir stjórnarandstæðingar og verðandi stjórnarliðar vonandi, flestir. ( Gripið fram í: Það er nú ekki víst.) Nei, flestir, segi ég. ( Gripið fram í: Það eru ekki miklar líkur.) Það er aldrei að vita. En þetta harma ég og vona að slíkt hendi ekki þegar jafnmikilvægt mál er á dagskránni.
    Ég vil í upphafi þakka frummælanda fyrir framsögu hans sem var mjög skýr og greinargóð og gagnleg. Ég vil einnig sérstaklega þakka fyrir það þingskjal sem hér er lagt fram. Mér þykir það sérstaklega vel unnið og til eftirbreytni. Þá er ég sérstaklega að tala um skýringar með einstökum greinum því að þar er sú nýbreytni að þar eru gildandi lagagreinar settar fram og svo hins vegar eins og greinarnar líta út eftir breytingu. Þetta tel ég mjög til fyrirmyndar og þetta eru vinnubrögð sem við ættum að sjá í hvert sinn sem brtt. við lög eru lagðar fram þannig að menn geti strax gert sér grein fyrir því um hvað er að ræða.
    Eins og fram kom í máli frummælanda metur hann það svo að hér sé um fjórar meginbreytingar að ræða. Sú eina sem ég ætlaði að tæpa aðeins á er sú breyting að fara með þingið í eina málstofu. Ég fyrir mitt leyti hef ákveðnar efasemdir um ágæti þessa. Ég get vel skilið hug þeirra manna sem styðja þá breytingu og ég er í sjálfu sér ekki að mæla á móti henni, en ég fæ ekki í fljótu bragði séð hvernig menn ætla að standa að því. Hér eru færð fram ýmis rök eins og skilvirkni og meiri hraði og meiri gæði á lagasetningu og annað slíkt. Þetta er allt gott og blessað en ég sé einfaldlega ekki hvernig menn ætla að ná þessu fram.
    Meiri hraði. Ég fyrir mitt leyti sé hann ekki. Ég tel að það sé meiri hraði fólginn í því að menn geti talað hér í tveim deildum fyrir frv. en þegar 63 þingmenn sitja í einni deild og ræða frv. Ég get á hinn bóginn séð það fyrir mér að það taki miklu lengri tíma að ræða mál en það gerir í dag. Þar fyrir utan tel ég að fari þetta svo muni reynslan fljótlega leiða í ljós að málfrelsi verður skert hér í deild. Það er engin leið út úr því önnur en að skerða málfrelsið. Það þykir mér hið versta mál, einfaldlega vegna þess að málfrelsi er í mínum huga nánast það eina vopn sem stjórnarandstaðan hefur í dag. Það er eina vopnið og það vopn vil ég ekki slá úr hendi stjórnarandstöðu. Þetta tel ég mikinn ljóð á þessum tillögum.
    Þar fyrir utan sé ég ekki að það verði nein breyting á því að hæstv. ráðherrar, hverjir sem þeir eru og úr hvaða flokki sem þeir eru, fari að taka upp ný vinnubrögð. Ég sé það alveg fyrir mér að þeir halda

áfram að moka inn frv. á síðustu dögum þingsins og þá verður hér nákvæmlega sama færibandavinnan og við erum að upplifa ár eftir ár. Ég hef sjálfur á stuttum ferli hér inni orðið var við það að breytingar hafi verið gerðar í seinni deildum og ég tel það gott og er reyndar fylgjandi því að svo verði áfram.
    Hvað varðar nefndarstörfin þá eru þau náttúrlega til háborinnar skammar í dag. Ég held að þingmenn yfirleitt viðurkenni það að þegar búið er að mæla fyrir málum og þau farin til nefndar þá eru þau að sjálfsögðu send til umsagnar. Umsagnir berast og menn ræða málin en eftir það fara málin í salthaug fram að síðustu dögum og þá byrjar færibandið aftur. Ég sé þessa hluti ekkert breytast, alls ekki neitt.
    Fækkun nefnda er í sjálfu sér ágætt mál. En alveg á sama hátt sé ég nefndastarfið sem slíkt alls ekki breytast með því, ekki á nokkurn hátt. Það vantar meiri tryggingu fyrir því hvernig menn sjá þetta fyrir sér, hvernig þeir ætli að tryggja skilvirkari vinnubrögð og betri. Hvernig ætla menn að tryggja það að á síðustu dögum verði ekki seinni umr. eða 3. umr. um eitthvert ákveðið mál hér inni í hliðarherbergi eða í stigaherbergi eða í myndaherbergi eins og við þekkjum? Ég vil fá fullvissu fyrir svona hlutum áður en ég samþykki þá.
    Við höfum reyndar reynslu af því síðast í dag hvernig ráðherrar haga sér. Hér var á dagskránni frv. frá hæstv. dómsmrh. um hegningarlög. Því var dreift í gær. Það hefur ekki nokkur maður tök á því að lesa það frv., það skjal. Samt ætlaðist hæstv. ráðherra til þess að það yrði afgreitt hér út úr deildinni í dag og færi til nefndar algerlega ólesið. Hvernig er hægt að ætlast til þess að menn fjalli um viðamikið frv. þegar svona er staðið að málum?
    Hér var nefnt sem rök fyrir þessari breytingu að landsmenn þekktu ekki nógu vel til starfa Alþingis. Mér finnst þetta léttvæg rök og ég held nú reyndar að þau hafi verið sett fram undir því fororði reyndar. Það er þá bara okkur sjálfum að kenna ef við getum ekki kynnt landsmönnum nógu vel starfsemi þingsins. Það er okkur sjálfum að kenna og við getum mjög auðveldlega bætt úr því.
    Hæstv. forseti. Ég hef miklar efasemdir um þetta mál, þ.e. um eina málstofu. Ég tel að mörgum spurningum sé ósvarað. Ég vil fá tryggingu fyrir því eða að mér sé sýnt fram á það hvernig menn ætla að ná meginmarkmiðunum áður en ég get fallist á það. Ein haldbærustu rökin fyrir því, og undir þau get ég tekið, eru náttúrlega þau sem við sjáum í dag þegar þing hefur jafnnauman meiri hluta og raun ber vitni, þá fær meiri hlutinn ekki við allt ráðið og mál geta strandað í annarri deild eins og við sjáum í dag. Það eru einu haldbæru rökin sem ég sé í þessu máli.
    Hæstv. forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar. Ég vænti þess að sú nefnd leggi mikla vinnu í málið og skoði það frá öllum hliðum og fari ekki í þessa færibandavinnu sem ég kallaði hér áðan.