Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 01. febrúar 1991


     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Það hefur nokkuð verið minnst hér á hina almennu endurskoðun stjórnarskrárinnar og jafnframt að það hefði tekið langan tíma og allmargar nefndir. Ég vil þó minna á að yfirferð yfir stjórnarskrána lauk að mestu leyti 1983. Þá var lagt fram af formanni nefndarinnar frv., en af honum einum, ekki í samvinnu eða með samþykki stjórnarskrárnefndar, frv. til laga sem var að meginefni þær tillögur sem stjórnarskrárnefnd hafði þá afgreitt. Hins vegar var það ljóst að um kjördæmaskipunina, þá eins og nú, var ekki full samstaða og vantar mikið á að svo verði.
    Umfjöllun um tiltekin efnisatriði stjórnarskrárinnar var engan veginn lokið og er ekki enn þrátt fyrir að leitað hafi verið til færustu sérfræðinga á því sviði. Ég skal minna á að mannréttindakaflinn er engan veginn tilbúinn. Hann þarfnast breytinga. Margir segja: Stjórnarskráin okkar er góð, hún þarfnast lítilla breytinga. Síðast heyrði ég það hér áðan og ég skal að sumu leyti taka undir það. Allir sem ég heyri vilja að stjórnarskráin sé stutt. Við eigum ekki að orðlengja of mikið í henni og ég hygg að flestir séu sammála um þá hluti.
    Mannréttindakaflinn þarf að taka breytingum vegna þess að við höfum gerst aðilar að alþjóðasamningum um margvísleg mannréttindi sem við þurfum að taka tillit til sem ekki voru í umræðunni þegar okkar ágæta stjórnarskrá tók gildi. Það er líka uppi mikill ágreiningur í nefndinni um eignarréttarákvæðin og einhvern veginn verður að finna ný ákvæði eða betri þannig að við getum sæst á breytingar á ákvæðum um eignarréttinn.
Enn þá er heldur ekki komin niðurstaða um málefni sveitarfélaganna og með hvaða hætti við eigum að breyta því. Í núverandi stjórnarskrá segir afskaplega lítið um sveitarfélögin, hlutverk þeirra og stöðu, og væri réttara að setja þar miklu skilvirkari ákvæði heldur en núna eru.
    Ég bendi á og tek undir það sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf. hér áðan að miðstýringin er orðin allt of mikil. Alþingi er að fjalla um hina lítilfjörlegustu skiptingu á fjármunum, smáupphæðir sem á engan veginn að vera hlutverk löggjafa. Þá þurfum við að koma þessum málefnum fólksins í landinu betur til skila. Margir hafa talað um þriðja stjórnsýslustigið. Að því leyti til er eðlilegt að gera slíka breytingu að með því erum við þá að færa meira vald úr miðstýringunni og yfir til hinna einstöku landsvæða eða sveitarfélaga. Hins vegar liggur ekki eins ljóst fyrir hvernig á að framkvæma þetta þriðja stjórnsýslustig. Allt er þetta enn þá í þessari hægu meðferð sem er á þessum málum, enda er lýðræðið eins og menn vita þungt í vöfum og það tekur sinn tíma.
    Starf stjórnarskrárnefndar hefur farið afar mikið í kosningalögin sem nefndin sendi frá sér til ríkisstjórnarinnar í síðasta mánuði liðins árs. Það frumvarp verður borið hér fram og eftir því sem ég best veit er það í prentun. Þar hefur verið unnið mikið undirbúningsstarf að létta störf þingsins með því að

hafa nána samvinnu við þá sem fara með framkvæmd þessara mála --- þá á ég við Hagstofu Íslands og dóms - og kirkjumálaráðuneytið --- en fulltrúar frá þeim hafa unnið mjög mikið í sambandi við þessa endurskoðun. En þetta er auðvitað það sem snýr að hinni tæknilegu hlið kosningalaganna. Þau voru orðin úrelt, frestir allt of langir miðað við allt aðrar samgöngur í landinu. Hins vegar er langt frá því að menn séu ánægðir með kjördæmaskipunina eins og frá henni var gengið fyrir nokkrum árum í nefndinni. Það mál verður að taka upp og þar verður að taka upp nútímalegri skipan. Ég ætla ekki að fara inn á það hér, en þær athugasemdir sem fram hafa komið hjá nokkrum þingmönnum þess efnis að það sé eiginlega óeðlilegt að flytja frumvarp sem þetta sem hv. 2. þm. Reykn. fylgdi hér úr hlaði með ítarlegri framsöguræðu, um þetta má auðvitað alltaf deila. Þó að ég sé í stjórnarskrárnefnd þá tel ég það af því góða að gera hér veigamiklar breytingar og sérstaklega eina breytingu, sem mest hefur verið rætt um og framsögumaður skýrði ítarlega, sem er afnám deildaskiptingarinnar. Ég tel það mjög mikilvægt atriði.
    Ég hlustaði að verulegu leyti á ræðu framsögumanns en þurfti að fara aðeins frá í síma, en ég held að hann hafi t.d. ekki minnst á það að með afnámi deildaskiptingar, þó að þingmenn verði jafnmargir og nú eru sem væri mjög æskilegt að yrði sem fyrst breyting á til fækkunar, þá held ég að þörfin fyrir nýtt þinghús sé ekki eins fyrir hendi með afnámi deildaskiptingar. Ég held að hann hafi ekki komið inn á þetta. Við erum hér með sal þar sem er þröngt um 63 þingmenn. En við erum þá með annan sal hérna sem yrði þá niður lagður og hér er aukið pláss í þinghúsinu þannig að það mætti vera hérna rýmra húsnæði. Okkur veitir ekkert af því Íslendingum að slá á frest að fara að byggja höll yfir Alþingi. Þetta hús er indælt og hefur reynst vel. Og því eigum við ekki að nota okkur það að fresta þessu því að ærið er nóg af verkefnum í okkar þjóðfélagi?
    Ég sé fyrir mitt leyti ákaflega mikil þægindi í því að hafa eina nefnd sem fjallar um hvert mál þannig að þingmenn þurfi ekki að vera í svona mörgum nefndum eins og þeir eru núna. Hversu mörg þingskjöl sjáum við þar sem sagt er að þessi og þessi nefndarmaður hafi verið fjarstaddur afgreiðslu málsins? Það er ekki af því að hann hafi endilega skrópað. Það getur verið af því að hann hefur verið á öðrum fundum í öðrum nefndum. Þetta eru allt of margar nefndir. Svo má líka taka tillit til útgáfustarfseminnar og annars slíks. Þetta hefur allt sitt að segja. Alþingi verður miklu betur í stakk búið að ganga til verks og sinna þeim málum sem vísað verður til nefnda.
    En ég tek alveg undir þá gagnrýni sem fram hefur komið að í sambandi við endurskoðun þingskapa má ekki svipta þingið málfrelsi og það er ekki gert. Þó má líta á tiltekin atriði í þingskapadrögunum sem fylgja að það mætti gjarnan rýmka þar, en þar má að mínum dómi líka þrengja. Ég tel málfrelsi nauðsynlegt og málfrelsi er í raun og veru fyrst og fremst

vörn minni hlutans á hverjum tíma. En ég vil ekki að þingmenn hafi þann rétt, sem þeir hafa nú, að beita hinu svokallaða málþófi vægðarlaust. Ég hef upplifað það að sjá þingmann hér í þessum ræðustól lesa upp úr bók í fjóra eða fimm tíma eða því sem næst og oftar en einu sinni. Þetta er auðvitað ekki sæmandi vinnubrögðum á Alþingi. Það er sjálfsagt að taka snarpar og góðar snerrur, en þær þurfa ekki endilega að taka svona langan tíma. Og sömuleiðis þegar við tölum um slíkt frelsi, þá eru ákveðnir þingmenn búnir að nota sér þetta frelsi svo út í öfgar að það verður þinginu til skammar. Ég segi fyrir mitt leyti að ég vil gjarnan að þessu sé breytt. En að það sé afmarkaður svo ræðutími að menn geti ekki skammlaust skýrt sjónarmið sín til ákveðinna mála, það nær heldur ekki nokkurri átt.
    Ég tel að það sé mjög þarft að flytja þetta frumvarp og helst af öllu að koma því í gegn. Í raun og veru finnst mér óþarfi að leggja þetta frumvarp fram nú svo seint ef það er ætlun manna að koma í veg fyrir að það fari í gegnum báðar deildir. Við getum deilt um lítilfjörleg atriði, kannski ein tvö eða þrjú, í þessu frumvarpi eins og með eiðstafinn og þess háttar. Það verður bara að athuga nánar í nefndinni. Hitt er aðalmálið, sem við eigum ekki að deila um, því að það eru svo ótvíræðir þeir kostir við afnám deildaskiptingar umfram gallana sem á því eru.
    Sú vinna sem að baki liggur er ekki eingöngu hjá þeim sem hafa verið núna að vinna að þessu heldur líka sem eru búnir að vinna að þessu mörgum, mörgum árum áður. Alþingi og ríkisstjórnir sem hafa setið síðan 1983 hafa haft tækifæri til þess að flytja stjórnarskrárfrumvarp. En það hefur bara ekki verið gert.
    Ég tel það af því góða að gera breytingu sem þessa eða í þessa átt og ég lýsi yfir fullum stuðningi mínum við þessa breytingu, en ég vitna aftur í að endurskoðun á þingsköpunum verði mjög vönduð því að þar eru nokkur atriði sem vafalaust verður ella mjög mikill ágreiningur um. Við eigum að gæta þess að halda trúan vörð um málfrelsið en ekki þannig að málfrelsið fari út í öfgar með því að lengja störf þingsins. Þar er hægt að vinna tíma í þinginu. Það má líka setja ákvæði um það að mönnum sé ekki --- og t.d. ríkisstjórn á hverjum tíma --- leyft að leggja fram mál í ótíma. Það má setja fastar, ákveðnar reglur og það er bara hollt fyrir hverja ríkisstjórn sem er. Ég hef setið í ríkisstjórnum og þekki þetta og ég held að þetta fari nú versnandi heldur en hitt á seinni árum, en alltaf hefur þessi vitleysa verið fyrir hendi. Það er ekkert á móti því að setja slík ákvæði að frumvörp verði að hafa ákveðinn tíma til meðferðar þannig að það sé ekki hamast á þinginu af framkvæmdarvaldinu, alveg eins og hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan, með óeðlilegum hætti að afgreiða á færibandi viðamikil og erfið og flókin mál eins og gerst hefur á undanförnum árum.
    Það má líka segja það um mörg lagafrumvörp að þau eru ekki á því gullaldarmáli sem þau voru hér á árum áður. Ég held að Alþingi verði að taka betur á

þessum málum og láta ekki alveg stjórna sér af framkvæmdarvaldinu. Framkvæmdarvaldið verður að taka meira tillit til löggjafarvaldsins en gert hefur verið.
    Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri en ég lýsi yfir stuðningi mínum við þetta frumvarp í öllum aðalatriðum af þessum ástæðum sem ég hef þegar getið um.