Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 01. febrúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Það er nú út af ræðu hv. 2. þm. Vestf. sem ég vildi koma hér í ræðustól vegna þess að það voru rök fyrir hans máli, að mér heyrðist, að ég hefði verið að benda á aðrar breytingar. Ég hef lært það á þessum árum sem ég hef verið hér að menn taka oft ekki stór skref. En ef skrefin eru í rétta átt að mínu mati, þá vil ég heldur taka þau skref heldur en að allt standi í stað.
    Ég tel að þarna séu nokkur atriði sem séu veigamikil og ekki síst með bráðabirgðalögin, ekki síst með það atriði, og að þingið sé í raun og veru til taks allt árið, þ.e. að því sé aldrei slitið fyrr en deginum áður en það er sett. Hins vegar eru rök bæði með og á móti deildaskiptingunni. Það er mér alveg ljóst. Ég hefði getað haldið hér langa ræðu í sambandi við hvernig á að tryggja meira sjálfstæði landshlutanna. En þetta er bara ekki á dagskrá hér og nú. Við erum að tala um það hvort við eigum að gera hér breytingar á nokkrum atriðum í stjórnarskrá eða ekki. Þess vegna talaði ég eins og ég gerði, en ég benti nefndinni á að athuga hvort ekki væri hægt að ganga lengra og benti á leiðina til þess. Auðvitað ráða þingmenn því hvort þetta kemst í gegn. Ef margir eru á móti þessu, þá er tíminn það stuttur að það er hægt t.d. að vera það lengi með þetta í þeirri nefnd sem fær þetta hér í Nd. að það sé borin von að það komist í gegn. En þá verða menn líka að hugleiða: Eru ekki þessi skref, þó stutt séu, betri en engin?