Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Svarið er að hlutaðeigandi ráðuneyti, landbrn., er að kanna hvaða breytingar eru nauðsynlegar á jarðalögum og ábúðarlögum til að tryggja þá nýtingu á bújörðum eigenda sem æskileg er talin og fullnægir þessum skilyrðum. Á ráðherrafundi EFTA - ríkja 23. október sl. og ráðherraráði Evrópubandalagsins degi síðar lýstu báðir aðilar vilja sínum til þess að leita pólitískrar lausnar á þeim vandamálum sem eftir stæðu í samningum Evrópubandalagsins og EFTA - ríkjanna. Af hálfu EFTA var því yfir lýst að ríkisstjórnir EFTA - landanna væru reiðubúnar að gera um það tillögur til ríkisstjórna landanna að EFTA - ríkin féllu frá varanlegum fyrirvörum ef fullnægt væri tilteknum skilyrðum. Skilyrðin voru þau að af hálfu Evrópubandalagsins yrðu lagðar fram tillögur sem ásættanlegar væru varðandi stjórnun hins evrópska efnahagssvæðis og rétt beggja aðila á jafnréttisgrundvelli til þess að hafa þar áhrif á mótun ákvarðana. Hin vandamálin vörðuðu annars vegar tollfrjálsan aðgang sjávarafurða og hins vegar greiðara aðgengi landbúnaðarafurða að mörkuðum EFTA-landanna.
    Að því er varðar það að falla frá varanlegum fyrirvörum, þá var lýst af hálfu EFTA þeim hugmyndum að vandinn yrði leystur í staðinn með eftirfarandi aðgerðum: Í fyrsta lagi með breytingum á löggjöf viðkomandi lands. Í annan stað með samningsákvæðum sem kölluð hafa verið varnaglaákvæðið, ,,safety clause``, og í þriðja lagi í einstökum tilvikum með því að semja um tímabundna aðlögun.
    Að því er þetta mál varðar sérstaklega, þá hefur það verið rækilega kynnt í ríkisstjórn og í utanrmn. og þar hefur verið lýst hugmyndum og tillögum af hálfu utanrrn. um það með hvaða hætti mætti tryggja sömu niðurstöðu að því er varðar heimildir erlendra ríkisborgara til fjárfestingar í landareignum í ágóðaskyni. Þær tillögur lúta að breytingum á ákvæðum um forkaupsrétt, búsetu, nýtingarskyldu og einnig breytingar á lögum um hlutafélög. Þessum hugmyndum hefur verið lýst. Aðalsamningamaður Íslands hefur rætt þetta mál rækilega við landbrh. og embættismenn í landbrn. Eftir því sem ég best veit er starfandi starfshópur í landbrn. til þess að undirbúa breytingar á jarða - og ábúðarlögum sem hefðu það að markmiði að tryggja sömu niðurstöðu og hinir varanlegu fyrirvarar sem áður höfðu verið settir.