Ástandið í fjarskiptamálum
Mánudaginn 04. febrúar 1991


     Árni Johnsen :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta og hæstv. menntmrh. fyrir það tækifæri að fá að vekja hér athygli á brýnu máli sem þarf að taka á nú þegar.
    Einn helsti hlekkurinn í öryggiskerfi landsmanna brast í fárviðrinu um helgina þegar annað útvarpsmastrið á Vatnsenda hrundi og sendingar útvarps á langbylgju stöðvuðust, þeirri bylgju sem er öruggust þegar neyðarástand skapast á Íslandi. Líkur benda til að fella þurfi hitt mastrið af öryggisástæðum, svo slæmt er ástand þess. Þorri skipastóls landsmanna, um 1000 skip með um 6000 mönnum, missir þar með hefðbundna þjónustu sem getur skipt sköpum hjá mannskapnum í þessum 1000 fljótandi fyrirtækjum því aðeins langbylgjusendingar þjóna sjómönnum á hafinu að nokkru gagni. Mikilvægasti þátturinn sem skipaflotinn er nú án er veðurfréttir. Óveðrið um helgina undirstrikar best mikilvægi þess að sjómenn og aðrir landsmenn hafi örugga og fyrirvaralausa þjónustu á þessu sviði. Þá hefur langbylgjusending tryggt langmest öryggi í útvarpssendingum inn á hálendið. Íbúar einstakra staða á landinu ná aðeins langbylgjusendingum og þá skiptir miklu máli að langbylgjusending Ríkisútvarpsins hefur verið varastöð þegar FM - stöðvarnar hafa bilað. En FM - stöðvar Rásar 1 og 2 og hinna svokölluðu frjálsu stöðva geta ekki þjónað landsmönnum af neinu öryggi í þessum efnum. Til að mynda nást stuttbylgjusendingar FM aðeins nokkra tugi mílna á haf út, og aðeins á ákveðnum stöðum. Enginn gervihnöttur getur þjónað útvarpi og því er ekki um margt að velja svo augljóst er að grípa verður nú þegar til aðgerða.
    Fárviðrið um helgina flokkast undir náttúruhamfarir en ekki venjulegt veður. Stjórnvöld þurfa að tryggja að þeir sem hafa orðið fyrir tjóni fái það bætt sem ótryggt er af viðlagatryggingu eða á annan hátt.
    Um 20 ára skeið hafa forsvarsmenn Ríkisútvarps og Pósts og síma sótt fast að fá heimild til endurbyggingar langbylgjustöðvar sem reiknað er með að staðsett verði austan fjalls, í Flóanum. Það hefur ekki gengið upp. Nú standa stjórnvöld frammi fyrir orðnum hlut, skaðinn er skeður. Tryggja þarf til bráðabirgða eins öruggar langbylgjusendingar og kostur er með lægra bráðabirgðamastri og nýtingu strandstöðva Pósts og síma með veður - og fréttasendingum til sjómanna. En þegar á næstu vikum þarf að tryggja kaup á nýrri langbylgjustöð sem ætlað er að verði 500 kw. stöð með 300 metra mastur í stað þeirrar 100 kw. stöðvar sem hefur verið um langt skeið og 250 metra masturs.
    Þess má geta að Færeyingar endurbyggðu fyrir skömmu langbylgjusendistöð sína, 200 kw. stöð, en Íslendingar hafa um langt árabil búið við 100 kw. Öll Evrópuríki hafa gætt þess í hvívetna að hafa langbylgjustöðvar sínar traustar og öruggar.
    Framkvæmdin sem um er að ræða kostar 600 -- 1000 millj. kr. að mati Pósts og síma. Það eru fimm fyrirtæki í Evrópu sem geta smíðað slíkar stöðvar. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. hvernig ríkisstjórnin hyggist

standa að þessu máli sem þolir enga bið. Í landi mikilúðlegrar náttúru er enginn tími til að bíða með mál af þessu tagi þegar skaðinn er skeður og við blasir hrun í mikilvægu öryggiskerfi landsmanna. Það má reikna með minnst tveimur árum til þess að koma slíkri stöð upp, einu ári til að framleiða búnaðinn og ári til að koma stöðinni í gagnið. Þetta er mikilvægt mál og skiptir sköpum í öryggismálum Íslendinga.