Ástandið í fjarskiptamálum
Mánudaginn 04. febrúar 1991


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það hafa nú fleiri en hv. 1. þm. Suðurl. tekið eftir því að mastrið féll og ég held að við séum öll sammála um það að það sé mikilvægt að reisa það á ný eða reisa nýtt sem allra fyrst. Það er enginn ágreiningur um það að vinna þetta verk svo fljótt sem mögulegt er og svo fljótt sem tækni leyfir. Fjármunir eru ekki fyrir hendi en tekjustofn var tekinn af Ríkisútvarpinu í fjármálaráðherratíð, ef ég man rétt, hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteins Pálssonar. Nú eru lánsfjárlög til meðferðar í nefnd sem ég veiti forstöðu, fjh.- og viðskn. Nd., og það er einfalt mál að taka út það ,,þrátt fyrir - ákvæði`` sem er í lánsfjárlögum, en einnig er hægt að bæta þar inn lánsfjárheimild til þess að unnt sé að framkvæma verkið frá peningalegu sjónarmiði. En ríkisstjórnarfundur verður haldinn um málið á morgun.
    Ég styð þá áætlun sem menntmrh. kynnti hér, en ríkisstjórnin þarf að gera fleira á morgun heldur en að fjalla um mastrið. Það er óhjákvæmilegt að mínu mati að ríkisvaldið með einum eða öðrum hætti komi til aðstoðar þeim sem orðið hafa fyrir mestu eignatjóni sem ekki fæst bætt með tryggingum.
    Margir bændur hafa orðið fyrir gífurlegum áföllum og ég vil nota þetta tækifæri til þess að minna á skyldu samfélagsins við þá. Það eru bæði garðyrkjubændur, sem eru reyndar ýmsir með foktryggingar, en venjulegir bændur við venjulegar kringumstæður kaupa sér ekki foktryggingu, enda var hér um veður að ræða sem ekki kemur nema á mjög margra áratuga fresti.