Ástandið í fjarskiptamálum
Mánudaginn 04. febrúar 1991


     Eiður Guðnason :
    Virðulegi forseti. Það hefnir sín nú það sinnuleysi sem fjárveitingavaldið og stjórnvöld hér hafa sýnt í þessu máli. Hér hefur ekkert nýtt gerst. Hér hefur bara gerst það sem vitað var að mundi gerast. Og afleiðingarnar eru ekkert öðruvísi heldur en menn vissu að þær mundu verða. Þetta er mjög alvarlegt ástand sem hefur skapast, eins og hér hefur verið bent á, hættulegt, og hlekkur í öryggiskeðjunni hefur brostið. En þegar menn koma hér og tala um þetta eins og eitthvert nýtt fyrirbæri sem ætti að koma mönnum á óvart, þá er það út í hött. Þetta er búið að vera vitað lengi. Það er búið að benda á þetta hér árum saman úr þessum ræðustóli, í nefndum hér á Alþingi og víðar. Mér þykir það hjákátlegt þegar hv. þm. Sjálfstfl. koma hér og þykjast tala sem einhverjir sérstakir vinir Ríkisútvarpsins. Það hefur ekki alltaf andað hlýju úr þeirri átt til þeirrar merku stofnunar hér á hinu háa Alþingi í gegnum árin.
    Kannski var það svo að þetta þurfti að gerast, að mastrið þurfti að brotna til þess að eitthvað yrði gert í málinu. Það er illt að segja það, en engu að síður hygg ég að það sé rétt. Og nú hefur þetta gerst. Nú verður að gera eitthvað, það er engrar undankomu auðið og ég lýsi ánægju með þær tillögur sem hæstv. menntmrh. lýsti hér áðan og vona að þær verði framkvæmdar sem allra fyrst þannig að ný langbylgjustöð með því öryggi sem henni fylgir geti risið sem allra fyrst. Það tekur óneitanlega einhvern töluverðan tíma, en héðan af verður málinu ekkert skotið á frest og það er engrar undankomu auðið. Þetta verður nú að gerast.