Ástandið í fjarskiptamálum
Mánudaginn 04. febrúar 1991


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég þarf að leiðrétta misskilning hv. 1. þm. Reykv. Í lánsfjárlögum sem samþykkt voru á Alþingi 20. des. 1986 var svohljóðandi klausa:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skulu tekjur á árinu 1987 vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps - og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð.``
    Og stendur það sem ég áður sagði að þá var fjmrh. þegar þessi lög voru samþykkt hv. 1. þm. Suðurl. ( FrS: Hver var forsrh.?) Með því að taka markaðan tekjustofn af Ríkisútvarpinu sem við stóðum reyndar báðir að, við 1. þm. Reykv., sem nefndarmenn í fjh.- og viðskn., þá tóku menn þá áhættu að þurfa að verja skyndilega miklum fjármunum til þess að bæta úr vanda sem upp á kynni að koma. Og nú hefur hann komið upp á og nú þýðir ekkert annað en bregðast við því með mannlegum hætti.
    Það er rétt sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði að það þarf að breyta lögunum um viðlagatryggingu, en það er ekki hægt að gera þau afturvirk eða mér var það a.m.k. ekki ljóst að það sé eðlilegt. Það þarf sérsakt átak samfélagsins til þess að aðstoða þá sem orðið hafa fyrir stórfelldu eignatjóni núna og fá það ekki bætt í gegnum tryggingar.