Flm. (Guðmundur H. Garðarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um hækkun skattleysismarka vegna álagningar tekjuskatts. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjmrh. að hefja undirbúning að breytingu á lögum um tekjuskatt með þeim hætti að mánaðartekjur einstaklings, 100.000 kr. eða lægri, verði skattfrjálsar.``
    Þessari tillögu fylgir svohljóðandi greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Tillaga þessi er lögð fram með tilliti til þeirrar neikvæðu þróunar sem hefur átt sér stað á undanförnum árum í skattamálum og með sérstöku tilliti til launatekna. Þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp á sínum tíma var einn megintilgangur þess að létta skattbyrði lág- og millitekjufólks, jafnframt því sem innheimtukerfið var gert einfaldara.
    Því miður hefur reynslan orðið önnur. Skattprósentan hefur verið hækkuð og skattleysismörk ekki tekið eðlilegum breytingum með tilliti til verðbólguþróunar sl. þrjú ár. Niðurstaðan er stóraukin skattbyrði millitekjufólks með þar af leiðandi tekjuskerðingu. Á sama tíma hefur átt sér stað kaupmáttarskerðing vegna erfiðrar stöðu atvinnuveganna til að mæta aukinni tekjuþörf launafólks, m.a. vegna hærri skatta og almennra verðhækkana á vörum og þjónustu.
    Erfitt er að setja fram nákvæmar tölur um þróun þessara mála, en eftir því sem næst verður komist þyrftu skattleysismörk hjá einstaklingi að vera hið minnsta 100.000 kr. á mánuði til þess að vega upp á móti neikvæðum áhrifum aukinnar skattbyrðar á síðustu árum jafnframt því sem kaupmáttur launatekna yrði bættur.
    Ljóst er að undirbúa þarf vel hækkun skattleysismarka með þeim hætti sem þessi tillaga felur í sér. Þess vegna er rétt að eðlilegur aðdragandi sé að skattbreytingunum.
    Með tilliti til fjárlagaársins mundu þessar skattbreytingar koma til framkvæmda frá og með 1. jan. 1992. Gefst þá svigrúm til að mæta viðeigandi tekjubreytingum hins opinbera með niðurskurði eða öðrum hætti vegna fjárlaga 1992.
    Hækkun skattleysismarka mun hafa mikil áhrif á þróun launamála á næstu árum og skal minnt á það að haustið 1991 renna út samningar um svonefnda ,,þjóðarsátt``. Mikilsvert framlag í launa- og kjaramálum væri ef skattar væru lækkaðir verulega á lág- og millitekjufólki. Þess vegna er þessi tillaga flutt nú.``
    Að lokum, virðulegi forseti. Skattleysismörk eru nú 57.378 kr. á mánuði. Staðgreiðsluprósentan hefur hækkað um rúm 2% frá því að staðgreiðslukerfið var tekið upp fyrir tveimur árum og er komið í 39,74%. Á sl. tveim til þrem árum hafa kauptaxtar lág - og millitekjufólks tekið litlum breytingum til hækkunar. Talið er að kaupmáttarskerðing þessa fólks hafi orðið rúmlega 20% á þessu tímabili. Íþynging skatta hefur orðið mikil á millitekjufólki, m.a. vegna hærri álagningarprósentu og þess að skattleysismörkin hafa ekki hækkað sem skyldi nema síður sé. Þarna hefur

ríkisvaldið brugðist. Fórnir almennings til að koma verðbólgu niður hafa verið miklar. Ríkisvaldið, þ.e. kerfið og stjórnmálamennirnir hafa ekki fórnað neinu. Skattar á almenningi verða að lækka. Þess vegna er þessi þáltill. flutt og vænti ég þess að hún verði samþykkt.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu verði tillögunni vísað til allshn.