Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég kem hingað í stólinn ekki til að munnhöggvast en ég vil vekja athygli á því að það er fleira sem vekur andstyggð en málflutningur og skoðanir einstakra þingmanna. Það vekur andstyggð að láglaunafólk skuli einatt í öllum samningum fara illa út úr því sem út úr þeim samningum kemur. Það vekur andstyggð að fólki er ætlað að lifa á kaupi sem er langt undir framfærslumörkum, hvernig svo sem staðið er að slíku.
    Ég held að allir geti verið sammála um einstök atriði eins og að ríkinu bera að hlífa og hjálpa því fólki sem lægst hefur launin en það firrir engan ábyrgð. Lækkun vaxta er góð aðgerð ef hún gengur. Ég hef að vísu ekki séð neina tryggingu fyrir slíku, jafnvel ekki eftir tíma þjóðarsáttar. Og ég vitna enn og aftur í orð konu sem sagði í tilefni þjóðarsáttar fyrir rúmu ári: ,,Ég hef ekki einu sinni efni á að skulda. Ég hef varla efni á að lifa.`` Verðbólgan kemur öllum illa en ég vil benda á annað sem hægt væri að kippa í liðinn ef það á að gera fólki kleift að lifa á sínum fáu krónum og það er afnám matarskattar. Það er ekki bara verðbólga sem hækkar matvöruverð, heldur líka skattheimta af mat. Og jafnvel þótt henni hafi að einhverju leyti verið mætt með niðurgreiðslum þá er það mál flestra, sem þurfa að lifa á lágum launum, að matvara og aðrar nauðþurftir séu sífellt stærri hluti launa og jafnvel öll launin fari í akkúrat þá kostnaðarliði.
    Þetta er það sem ég held að flestir, sem á annað borð leiða hugann að því, hafi andstyggð á. Að öðru leyti trúi ég því að við séum hér flest sammála um það að sú till. sem hér er til umræðu sé til góðs eins en mér fannst ekki hægt annað en að taka til máls þegar umræðurnar hér á undan lágu fyrir.