Karvel Pálmason :
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki teygja mikið á þessari umræðu. Mér finnst samt ástæða til að fara nokkrum orðum um það mál sem hér er til umræðu. Ég vil líka vekja athygli á því hér hvaða hv. þm. það er úr Sjálfstæðisflokknum sem flytur þetta mál einn og sér. Það er sá þingmaður sem var að berjast fyrir pólitísku lífi sínu í síðustu viku innan flokksins. Það er sá maður sem lengst af hefur starfað innan verkalýðshreyfingarinnar af þeim sjálfstæðismönnum. Sá hugsunarháttur hefur verið hjá honum í gegnum árin að það verði að finna leiðir til að létta oki af láglaunafólkinu. Ég hugsa að fleiri hafi tekið eftir því í vetur og það hefur orðið mörgum umhugsunarefni hversu mikil fátækt er á Íslandi, í einhverju auðugasta landi heims. Það er auðvitað til skammar fyrir alla stjórnmálaflokka og forustumenn í þjóðfélaginu að fátækt hefur vaxið, þeim hefur fjölgað sem búa við raunverulega fátækt í landinu á undanförnum árum.
    Það ætti ekki að standa fyrir hv. þm. Alþfl. að tala máli þessarar till. Ég tilheyri þeim flokki, a.m.k. enn, og hann hefur á sinni stefnuskrá, hefur haft lengi og ég vona að hann muni halda því áfram og vinna að því, að ekki skuli lagður tekjuskattur á launatekjur. Nú skal ég ekkert segja um það hvort 100 þús. kr. er einhver sérstakur mælikvarði á þetta eða ekki en hér er auðvitað hreyft máli sem er nauðsynlegt að fara að taka á.
    Hér hafa komið upp umræður um þjóðarsáttina svokölluðu. Mér finnst hv. 1. þm. Suðurl. ganga nokkuð langt þegar hann kallar þetta þjófasáttina. Mér finnst menn fara nokkuð glannalega þegar þeir tala með þessum hætti. Auðvitað er það öllum ljóst að það sem var samið um fyrir þá verst settu síðast dugði skammt, eins og oft hefur gerst áður, því miður, og dugar skammt. Það er stutt í það núna að menn þurfa að taka upp samninga aftur. Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið og menn þurfa auðvitað að fara að velta því fyrir sér. Ég hygg að þeir sem stóðu að þjóðarsáttinni, sem ég tel að hafi í mörgum tilvikum gagnað betur en þeir samningar sem voru gerðir áður með öllu uppskrúfuðu, en það er líka mikið að og á því þarf að vinna bug. Það hvarflar ekki að mér að næstu samningar verði gerðir án þess að raunverulega verði tekið á vanda þeirra verst settu.
    Ég tek undir með hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni. Ég fer að halda að margir hverjir innan verkalýðshreyfingarinnar, fólk innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og almenningur margur á Íslandi sé svo félagslega óþroskaður að hann megi ekki heyra það nefnt að maður sem hefur 50 þús. kr. á mánuði hækki upp í 70 þús. kr. nema því aðeins að hinn sem hafi 100 þús. hækki líka á sama hátt. Þetta gerir það auðvitað að verkum að vart er hægt að semja fyrir þá verst settu í landinu þegar öll skriðan heimtar að koma á eftir. Þetta er auðvitað meingallað kerfi og á því þarf að taka. Við Íslendingar erum allt of margir vanþroskaðir félagslega að því er þetta varðar. Það verður aldrei lyft launum eða bætt kjör fyrir láglaunafólkið öðruvísi, a.m.k. eins og málin eru í dag, en það sé gert sérstaklega fyrir láglaunafólkið án þess að öll skriðan komi á eftir sem eru með miklu hærri og betri laun en þeir verst settu. Þetta verður auðvitað eitt meginverkefnið í næstu kjarasamningum fyrir þá sem með þá fara og þarna geta stjónvöld ekki verið stikkfrí.
    Það er nú einu sinni svo að til þess eru menn í stjórnmálum, að ég hygg, vonandi flestir, að menn vilja láta gott af sér leiða. En æði margir hafa mér fundist farið hinn veginn, hugsað frekar um þrengstu hagsmuni, eiginhagsmuni eða flokkshagsmuni án þess að taka tillit til þess fólks sem verið er að berjast fyrir. Á þessu þarf að vera breyting.
    Ég held að það sé gott að svona mál kemur hér til umræðu. Menn fara þá kannski enn frekar að velta því fyrir sér og ég þakka hv. flm. fyrir það að koma þessu máli hér inn til umræðu. Vonandi fær það afgreiðslu, en ég vek sérstaka athygli á því hvaða hv. þm. það er sem flytur málið.