Flm. (Guðmundur H. Garðarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. sem hér hafa tekið til máls fyrir góðar undirtektir yfirleitt og ágæta umræðu hvað varðar efnisleg atriði þeirrar þáltill. sem ég mælti fyrir áðan. Ég skildi umræðuna þannig að þeir sem tóku til máls styðji markmið tillögunnar. Hins vegar kom það fram í máli eins hv. þm., 4. þm. Reykn. Karls Steinars Guðnasonar, að hann var með nokkrar efasemdir um hvort hægt væri að framkvæma þetta og benti á hugsanlegt tekjutap ríkisins. Hann minntist m.a. á að það kynni að vanta eitthvað til að reka skólana, sjúkrahúsin o.s.frv.
    Ég vil vekja athygli hv. þm. og sérstaklega hv. 4. þm. Reykn. á því að hér er hugsanlega um breytingar að ræða sem nema nokkrum milljörðum. Ef hv. þm. kynna sér taxta láglaunafélaganna og jafnframt tekjur millitekjufólks, þá munu menn komast fljótlega að raun um að það er ekkert of í lagt þótt hér sé talað um það í þáltill. að tekjur allt að 100 þús. kr. á mánuði verði skattfrjálsar.
    Það er rétt sem kom fram í ræðu hv. 18. þm. Reykv. Guðrúnar J. Halldórsdóttur að með núverandi stefnu bæði í launa- og kjaramálum sem og í skattamálum er gjörsamlega vonlaust að millitekjufólk geti látið sér koma til hugar t.d. að eignast eigin íbúð.
    Það út af fyrir sig segir mikla sögu að svo skuli vera komið í launa- og kjaramálum á Íslandi í dag að millitekjufólk skuli ekki geta eygt þá von að eignast eigin íbúð. Það brýtur algjörlega í bága við stefnu þess flokks sem ég hef barist fyrir í áratugi, Sjálfstfl., um íbúð handa öllum, eins og við orðuðum það á sínum tíma í okkar slagorðapólitík. Þess vegna er þetta að mínu mati mikilvægt framlag í þá átt einnig að gera millitekjufólki kleift að eygja von um að eignast eigin íbúð, þak yfir höfuðið.
    Það gengur auðvitað ekki að svo skuli vera komið að fólk sem er með 100 þús. kr. á mánuði skuli varla hafa til hnífs og skeiðar, svo ekki sé meira sagt. Það er þörf umræðu um það á Alþingi Íslendinga hvernig eigi að leysa þetta vandamál.
    Mér finnst það, virðulegi forseti, táknrænt að þegar þessi þáltill. er tekin til meðferðar, eftir að hún hefur verið kynnt þrisvar sinnum áður á dagskrá Sþ., m.a. í þeim tilgangi að gefa hv. þm. kost á því að átta sig á því að hún yrði til umræðu, og ég er ekki að ásaka virðulegan forseta, þá voru aðeins tólf þingmenn viðstaddir hér í salnum og enginn ráðherra, en ég fagna því hins vegar mjög að hæstv. fjmrh. skuli vera kominn. Hann var við skyldustörf annars staðar og kom strax til þings þegar hann var laus frá þeim, m.a. til þess að fylgjast með því sem hér er sagt um þessa þáltill.
    Mér finnst, virðulegi forseti, að bilið milli hins háa Alþingis og fólksins í landinu vera orðið æði mikið þegar aðeins 12 þingmenn af 63 eru viðstaddir til að ræða jafnmikilvægt og þýðingarmikið mál og skattamál hljóta að vera í ljósi þess að svokölluð þjóðarsátt rennur út í haust. Það vita allir sem hafa komið nálægt samningum um laun og kjör fólks að samningar eiga sér langan aðdraganda. Ef íslenskir stjórnmálamenn og hið háa Alþingi meina nokkuð með því, hvar í flokki sem menn standa, hverjir sem mynda ríkisstjórn eftir kosningar í vor, að þeir framkalli í lok samningstímabilsins eitthvað í líkingu við svokallaða þjóðarsátt, sem hefur það í för með sér að verðbólgan yrði lítil og vextir þar af leiðandi lágir, þá er ekki til setunnar boðið að byrja að undirbúa það nú þegar, sérstaklega af hálfu hv. alþm. og ríkisstjórnar, með hvaða hætti ríkið kemur til skjalanna í þessum málum. Þess vegna furða ég mig á því að hér skuli ekki vera fleiri þingmenn, ég tala nú ekki um framámenn stjórnmálaflokkanna, til þess að vera viðstaddir þessa umræðu. Það getur vel verið að sumir hv. stjórnmálamenn telji sig ekki hafa þörf fyrir það að sitja undir umræðum á Alþingi þar sem þeir muni hafa það gott vald yfir atburðarásinni eftir kosningar að þeir geti teflt með valdið í Stjórnarráði Íslands að vild. Ég vil segja við þá ágætu menn að þeir skuli ekki vera of öruggir um það. Sá sem ekki tekur þátt í umræðum um mál eins og hér um ræðir á ekki að taka sæti í ríkisstjórn á Íslandi eftir næstu alþingiskosningar.
    Ég vil síðan, virðulegi forseti, segja þetta: Kjaramál eru mjög viðkvæm og erfið mál, það þekkja þeir sem hafa fjallað um þau, og samningar eiga sér langan aðdraganda. Aðild ríkisvaldsins er oft á tíðum jafnvel viðkvæmari en viðræður við viðsemjendur úti á hinum almenna vinnumarkaði. Þess vegna legg ég áherslu á það, virðulegi forseti, að þessi þáltill. fái afgreiðslu á hinu háa Alþingi sem nú situr þannig að það liggi ljóst fyrir gagnvart öllum stjórnmálaflokkum að það er markmið og tilgangur Alþingis að allir flokkar, burt séð frá því hverjir mynda ríkisstjórn, eru bundnir af þeirri niðurstöðu sem felst í þessari þáltill.