Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins koma hér af gefnu tilefni. Vegna orða hv. 3. þm. Vestf. þar sem hann vakti athygli á því að þessi till. til þál. væri aðeins flutt af einum þingmanni Sjálfstfl., þá vildi ég fullvissa hann um, ef hann hefur verið í einhverjum vafa, að hv. 8. þm. Reykv. á sér marga skoðanabræður í þingflokki Sjálfstfl. og það að hann flytur þessa till. einn er ekki af þeirri ástæðu að menn séu ekki sammála henni. Þetta vil ég að komi skýrt fram ef hv. 3. þm. Vestf. hefur verið í einhverjum vafa um það. Mér finnst það hins vegar mjög eðlilegt, þar sem þessi ágæti hv. þm., 8. þm. Reykv., mun væntanlega ekki sitja á þingi eftir kosningar, að hann flytji þessa till. einn. Mér finnst það mjög eðlilegur hlutur til þess að leggja áherslu á hver hans áhugamál hafa yfirleitt verið og hvað hann hefur lagt af mörkum í sinni baráttu fyrir launþegahreyfinguna í landinu. Þetta vildi ég aðeins láta koma fram ef svo skyldi vera að hv. 3. þm. Vestf. hafi verið í vafa um að aðrir þingmenn Sjálfstfl. væru sömu skoðunar.
    Málflutningur hv. 4. þm. Reykn. vakti athygli mína. Hann hafði nokkuð stór orð um stöðu láglaunafólks í landinu. Og það vakti sérstaklega athygli mína vegna þess að hann er einn af baráttumönnum verkalýðshreyfingarinnar og hefur staðið í samningum fyrir verkalýðshreyfinguna og verið að berjast fyrir þetta fólk. Þess vegna fannst mér það svolítið merkilegt að heyra hann tala eins og hann bæri enga ábyrgð á því að í samningum gerist það að fólkið í háu launaflokkunum notar láglaunafólkið til þess að skríða upp eftir bakinu á því til að fá hærri laun. Ég vildi nú aðeins minnast á að mér fannst athyglisvert að hann kom ekkert inn á það atriði hvernig stendur á því að verkalýðshreyfingin ræður aldrei við þetta í samningum. Svo má náttúrlega minna á það að þjóðarsáttin var til komin frá aðilum vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin sá sinn kost vænstan að hoppa inn í þjóðarsáttina á síðustu stundu en það var ekki hennar ætlun að leysa málin með slíkum hætti. Það voru aðilar vinnumarkaðarins sem þar komu til.