Karvel Pálmason :
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð. Hv. 6. þm. Reykn. gerði hér athugasemd áðan út af því sem ég sagði fyrr og var að fullvissa þingheim um að það væru fleiri en hv. flm. sem væru sammála þessari till. Ég var ekki með neinar hugleiðingar um það hvort hann væri einn innan flokksins sem vildi þetta fram. Það sem ég vakti athygli á var þetta: Hann er maðurinn sem barðist fyrir sínu pólitíska lífi síðustu viku innan flokksins, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Hann er sá aðili sem flytur þetta mál hér inn á Alþingi og það segir kannski sína sögu um innviði flokksins sem slíks fyrst menn eru farnir að rifja það hér upp. Mér finnst það athyglisvert, og það hygg ég að fleirum kunni að finnast, að þetta gerist á þennan hátt á þessum tíma.
    Mér finnst hv. þm. Salome Þorkelsdóttir kannski segja of mikið þegar hún fullyrðir að þetta sé síðasta þing sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson situr. Enginn getur nú sagt fyrir um það og hver veit nema hann bylti líka í kosningum eins og hann bylti í innsta hring Sjálfstfl. hér í Reykjavík í síðustu viku. Svona eiga menn ekki að fullyrða án þess að ég sé að spá neinu fyrir þingmönnum Sjálfstfl. En ég er ekkert viss um að Guðmundur H. Garðarsson sé á síðasta þingi um aldur og ævi. Það getur ýmislegt breyst.
    Þetta vildi ég draga inn í umræðuna vegna þess að verkalýðssinnaðir einstaklingar innan Sjálfstfl. eru ekki margir. Þeir eru ekki margir og þeim fækkar líka í fleiri flokkum en Sjálfstfl., verkalýðssinnuðum einstaklingum. Þeir eiga í flestum flokkum mjög erfitt uppdráttar sem ætla að fylgja sannfæringu sinni í kjarabaráttu til þess að berjast við hliðina á því fólki sem er verst sett hverju sinni.